Tittlingaskítur

Kunnugleg andlit allsstaðar. Á vissan hátt er það notalegt. You wanna be where everybody knows your name. Aðallega er það þó sorglegt. Kannski 100 hræður, max, og ég þekki allavega 75 í sjón. Sumir eru í Félaginu Ísland-Palestína, sumir í Amnesty, fólk úr samtökum hernaðarandstæðinga, virkasta liðið frá Saving Iceland, kjarninn úr menningar- og friðarsamtökum íslenskra kvenna, nokkur vinstrigræn andlit sem ég þekki ekki úr neinni þessara hreyfinga en eru þá áreiðanlega í einhverjum friðar- eða náttúruverndarsamtökum sem ég hef ekki unnið með.

Halda áfram að lesa

Púff!

Ó mæ god hvað ég er búin að hespa af leiðinlegu verkefni í morgun.

Jamm og af því að ég hef orðið vör við lítinn en mjög leiðinlegan misskilning; mistökin sem ég gerði í október tengjast Pegasusi ekki neitt. Ég gerði þau heimskulegu mistök að reikna með innkomu sem gat alveg eins klikkað (og gerði það) þegar ég hefði frekar átt að sýna þá ábyrgð að taka að mér annað, öruggara og óskemmtilegra verkefni. Eins og t.d. að prófarkalesa snyrtivörubæklinga. Konur eru heimskara kynið. (Ég hef reyndar ekki lesið bílablöð svo það er hugsanlegt að mér skjátlist.)

Ég er með feituna, ljótuna, andleysuna, heimskuna og blönkuna. Geðsleg samsetning eða hitt þó heldur. Hlýtur að verða beinlínis uppörvandi að mæta á útifund í hádeginu.

Skítt með það allt, ég er elskuð.

Já og áðan kom Sjoppmundur hlaupandi yfir til mín með volgt pekanhnetuvínarbrauð. Hann elskar mig semsagt líka.
Lífið er gott. Ekki endilega auðvelt, skemmtillegt eða áhugavert, en það er gott.

 

Útifundur vegna skálmaldarinnar á Gaza

Stöðvum fjöldamorðin

Rjúfum umsátrið um Gaza
Útifundur á Lækjartorgi, miðvikudaginn 5. mars, 12:15
Efnt verður til útifundar á Lækjartorgi í hádeginu á morgun, miðvikudaginn 5. mars klukkan 12:15, til að mótmæla blóðbaðinu á Gazaströnd.
Kröfur dagsins eru: Stöðvum fjöldamorðin og rjúfum umsátrið um Gaza.
Ræðumenn verða Katrín Fjeldsted læknir og Ögmundur Jónasson alþingismaður.
Fundarstjóri er Sveinn Rúnar Hauksson formaður Félagsins Ísland-Palestína. Halda áfram að lesa

Ömurlegt gildismat dómstóla

Enn ber ég í bakkafullan lækinn með tuggunni um undarleik þess að dæma menn í 9 ára fangelsi fyrir fíkniefnainnflutning á sama tíma og ofbeldismenn fá skilorðsbudið „skamm bara, svona gerir maður ekki.“ Af hverju viðgegnst svona réttafar þegar það stríðir augljóslega gegn siðferðisvitund meirihlutans. Jú það er vegna þess að meirihlutinn tekur þetta ekki nógu nærri sér til að gera eitthvað róttækara en að blogga um það.

Hér er kona sem kveðst tilbúin til að taka lögin í sínar hendur ef hún eða hennar fólk verði fyrir frekari árásum.

Klakinn

Ég skil Golla. Gaurinn var búinn að þvæla múg og margmenni, búpeningi, öndvegissúlum (dæmi um undarlegasta drasl sem fylgir karlmönnum, hvað var konan hans að pæla að taka svoleiðis rugl í mál?) og allskonar öðru drasli norður í ballarhaf og ljúga því að sjálfum sér og öðrum að hann hefði fundið lífvænlegt land. Það hefði bara verið meiriháttar bögg að húrra öllu liðinu upp í skip aftur og snúa heim til Noregs með skottið á milli fótanna. Auk þess hélt hann kannski að þetta væri ekkert alltaf svona.

Ég skil líka alveg afkomendur hans. Það er nógu helvíti leiðinlegt að flytja þótt maður setji ekki börn sín og búalið í margra vikna lífsháska til þess.

Hvað ég sjálf er að pæla, það er aftur á móti óskiljanlegt. Ég verð að komast burt af þessum klaka. Kemst ekki spönn frá rassgati eins og er en í alvör, þetta er síðasti veturinn sem ég bý á þessu grjótskeri.

Þetta segi ég reyndar alltaf á þessum árstíma. Það líður hjá í apríl en í augnablikinu þoli ég varla við. Ég hef ekki passað hendurnar á mér nógu vel og er komin með gigtarverki. Sjálfri mér að kenna og allt það en það er bara ekkert það sem fer verst í mig. Ég hata íslenskan vetur. Ég þarf að komast burt. Núna.

 

Það sefur í djúpinu

Þegar ég las Flugdrekahlauparann, fann ég mér til undurnar ekki til neinnar samúðar með aðalpersónunum. Mér fannst drengirnir báðir aumingjar, hvor á sinn hátt. Það olli mér nokkru hugarangri því bókin er vissulega góð og mér fannst eins og ég ætti að skilja þá eða allavega finna til með með þeim. Halda áfram að lesa