Álrænt fling

Ég hef alltaf verið svolítið svag fyrir íróníu. Það vantar góða íslenska þýðingu á það orð því íslenska orðið kaldhæðni nær aðeins litlum hluta þess sem telst írónía. Ég held þó að sé óhætt að ganga svo langt að kalla það kaldhæðni þegar Björgólfur fær hvatningarverðlaun fyrir að kaupa sér tónlistarmenn og þegar Baugur fær útflutningsverðlaun. Halda áfram að lesa

Íslenska viðskiptaundrið

Eins og kapítalismi er falleg hugmynd þá bara strandar hann á nákvæmlega sama vandamáli og kommúnismi; vald spillir.

Þetta er bara eitt nærtækt dæmi um það hversu auðvelt er að slá ryki í augu okkar í krafti valds og peninga.  Ég veit ekki hverjir eiga heiðurinn af myndbandinu en ekki hef ég séð RÚV taka þessar upplýsingar saman á svona aðgengilegan hátt. Myndbandið rennir stoðum undir þá hugmynd að eina leiðin til lýðræðis sé aðhald og eftirlit almennings.

 

 

Mylla

Ilmur af jörð.
Ligg í grasinu hjá Gullinmuru og Gleymmérei og hlusta á Urriðafoss.
Handan Þjórsár eru nokkrir ísbirnir á beit.

Ég er ekki einu sinni neitt sérstakt náttúrubarn. Trúi bara á ákveðið réttlæti. Rétt fólks til að ákveða hvort það ætlar að selja jarðirnar sínar án þess að hafa áróðursmeistara inni á gafli hjá sér nánast vikulega (svo er fólk að hneykslast á ágengni votta Jehóva). Rétt almennings til að fá réttar upplýsingar. Rétt náttúrunnar sjálfrar.

Fullkomið veður til gönguferðar. Mömmurnar mættar líka. 10 félagar úr Sól á Suðurlandi komu og þeir sem ég talaði við taka bara mjög vel í að vinna með okkur.

Hvernig étur maður fíl? Einn bita í einu segja þeir. Við eigum mikinn fíl óétinn.
Við gætum kannski kryddað hann með blóðbergi

Aðstaðan er ekki ironisk. Hún er aluminumísk.

Þetta er bara ekki rétta aðferðin

Í hvert sinn sem Saving Iceland hreyfingin beitir mótmælaaðgerðum sem ögrar ramma laganna, fer bloggheimur á límingunum og er það vel. Greinilegt er að efasemdir um borgaralega óhlýðni eru mjög sterkar og sú skoðun á fullan rétt á sér. Það er þó nákvæmlega sama hverju er mótmælt og á hvaða hátt, alltaf koma fram hópar sem vilja frekar að einhverju öðru sé mótmælt (þótt sama fólk nenni auðvitað ekki að standa í því að skipuleggja slík mótmæli sjálft) og eins eru alltaf einhverjir sem hafa skoðun á því hvaða aðferð eigi að nota. Halda áfram að lesa

Svar til vélstýrunnar

Í bloggpistli dagsins dregur Vélstýran upp hroðalega mynd af veröld án áls.

Ég er nokkuð oft búin að auglýsa eftir upplýsingum um það hvaða kolaknúnu álverum, einhversstaðar í veröldinni, hefur verið lokað af því að „umhverfisvæn“ álver voru opnuð á Íslandi eða annarsstaðar? Er eitthvað sem styður þá tilgátu að álver á Íslandi séu annað en viðbót? Halda áfram að lesa

Legó

Hún leggst á hjartað í manni helvítis sorgin. Bókstaflega. Það er ekki tilviljun að öll menningarsamfélög lýsa sorginni eins og þetta tiltekna líffæri hafi orðið fyrir skaða. Brostið hjarta, kramið hjarta, grátandi hjarta, hjarta sem springur af harmi, hjartasár, blæðandi hjarta. Bjartur í Sumarhúsum var nett pirraður yfir helvítis hjartveikinni í kvenfólkinu.

Mig hefur oft verkjað í hjartað af sorg en það varir aldrei lengi. Þetta er aðeins öðruvísi tilfinning núna og svo er þetta orðinn langur tími. Þetta er ekki beint verkur. Ekki eins og vera með sáran sting í hjartanu eða sviðatifinningu og ekkert svona brostið hjarta eða neitt almennilega dramatískt, Samt er þetta raunveruleg, líkamleg tilfinning, þung og óþægileg eins og inngróinn legókubbur eða eitthvað svoleiðis.

Vinkona mín vill að ég fari til læknis en ég sé ekki tilgang í því. Ég veit nákvæmlega hvað er að mér. Einkennin eru líkamleg en orsökin andleg og ég þarf ekkert hjartalínurit til að staðfesta það. Og hvaða þjónustu á ég svosem að biðja um? Þetta er ekki beinlínis verkur. „Læknir ég með með svona þunga og sára tilfinningu eins og ég sé með legókubb fastan í hjartanu, hvítan legókubb og kámugan, og hann sé alltaf að þrýstast aðeins lengra inn. Get ég fengið eitthvað við því?“

Ég hélt að ég hefði sloppið svo vel í þetta sinn en kannski að fullkomið niðurbrot þjóni tilgangi eftir allt saman.