Ég hef alltaf verið svolítið svag fyrir íróníu. Það vantar góða íslenska þýðingu á það orð því íslenska orðið kaldhæðni nær aðeins litlum hluta þess sem telst írónía. Ég held þó að sé óhætt að ganga svo langt að kalla það kaldhæðni þegar Björgólfur fær hvatningarverðlaun fyrir að kaupa sér tónlistarmenn og þegar Baugur fær útflutningsverðlaun.
Ég held að ég hafi þokkalegt þol gagnvart íróníu en það kemur þó fyrir að kalhæðnin fer yfir þröskuld þess sem málvitund mín getur fellt í þann flokk. Ég hef kosið að kalla það aluminumískt, sem gengur fram úr því að vera írónískt.
Einhverju sinni varð mér það á að særa mann sem mér þótti vænt um. Það var ekki af illum hug en engu að síður hafði ég gert stór mistök sem var engin augljós leið til að bæta fyrir. Sættir án uppgjörs er hugmynd sem einfaldlega gengur ekki upp svo í slíkum tilvikum, þegar ekki er hægt að bæta skaðann eða gleyma því sem gerðist, er bara tvennt í boði, iðrun og fyrirgefning eða þá vinslit. Ég þurfti á fyrirgefningu hans að halda og bað um hana. Fékk ekkert svar en þegar ég ynnti hann eftir því, sagðist hann ekki ætla að svara þessu, því hann vildi leyfa mér að eiga síðasta orðið. Það fannst mér álrænt.
Útrásar FL-ingið tengist bæði Landsbankanum og Glitni og svo var það Kappa Fling-Fling sjálfur sem passaði upp á Fl-ingið á hlutabréfamarkaðnum. Það er eitthvað álrænt við þetta fling.