„Líkamlega líður mér mjög vel. Þetta er gott hús og ég get farið í sund. Það er ágætt að fara í sund en það bara leysir ekkert vandamál mitt.
Ég held að ég sé frá Júpíter
Ég er að lesa ‘You just don’t understand’ eftir Deborah Tannen.
Ég hef lengi dregið í efa þá kenningu að samskiptavandi kynjanna stafi af því að konur séu frá Venus og karlmenn frá Mars. Ég á nefnilega ekkert erfitt með að setja mig inn í hugsunarhátt Marsbúa (samkvæmt persónuleikaprófum hugsa ég að 53% eins og karlmaður) en þeim tekst samt að hegða sér eins og geimverur. Og ekki eins og þeir séu frá Venus heldur einhverju allt öðru sólkerfi. Ég skil Venusarruglugufuna þótt hún sé þreytandi og á alveg til að sökkva í hana sjálf. Ég ræð alveg við Marsbúann og kannast við durtsháttartilhneigingar hjá sjálfri mér. Ég ætti þessvegna alveg að skilja karlmenn hvort sem þeir eru frá Vensus eða Mars en um leið og ég held að ég sé að átta mig á þeim, kemur í ljós eitthvert fávitaelement sem var útilokað að ég gæti séð fyrir.
Eftir lestur þessarar bókar finnst mér kenningin um Mars og Venus ennþá fjarstæðukenndari. Ég skil ekki hvorttveggja heldur hvorugt og ég á satt að segja erfitt með að gera upp við mig hvort kynið mér finnst heimskara og verr innrætt.
Líklega er það ég sjálf sem er geimvera.
Hamskipti
Ef veruleikinn væri bíómynd kæmirðu til mín. Þú myndir setjast á rúmstokkinn og spyrja –hvernig byrjaði það? Og ég myndi segja þér sögu sem væri falleg og átakanleg í senn. Og þú myndir skilja.
Ef gult væri blátt væri rautt, hefðir þú kjark til að elska mig eins og á að elska.
Og ef gult væri einfaldlega gult, væri ég fær um að gera það sem ég geri best.
Og ef blátt væri blátt áfram. En svo er víst ekki.
Einu sinni þekkti ég mann sem var svo einmana að stærsta leyndarmálið í lífi hans var að hann átti ekkert leyndarmál. Ég gaf honum leyndarmál og hann var mjög þakklátur. Ekki beinlínis fyrir að hafa eignast leyndarmál, heldur fyrir að eiga leyndarmál með einhverjum. Samt var það hvorki fallegt né átakanlegt leyndarmál. Sem er í sjálfu sér allt í lagi því hann hefði hvort sem er aldrei sagt neinum leyndarmálið og saga er einskis virði fyrr en einhver fær að heyra hana. Hvað þá ef hún er ekki fögur og átakanleg.
Slíkt er eðli leyndarmála Baggalútur minn. Leyndarmál öðlast ekki líf fyrr en maður deilir því með öðrum Og þá er það ekki lengur leyndarmál heldur saga. Og þannig er þráin líka. Þú getur haldið áfram að þrá mig, endalaust, svo ákaft að þig verkjar í hjartað. En öll þessi þrá gerir ekki annað en að éta þig að innan fyrr en þú sleppir tökunum á henni og deilir henni með mér. Og það er þannig sem maður byrjar að elska.
Ég hef þráðarkorn að spinna þér held ég enn.
Slíkt er hlutskipti nornar.
Núna
-Kysstu mig.
-Núna?
-Er núna slæmur tími?
-Neeei, ekki þannig. Ég bara tek kossum mjög persónulega.
-Persónulega?
-Já. Ég get alveg sofið hjá þér samt. Eða ekki sofið heldur, þú veist …
-Skipst á líkamsvessum?
-Já, eða nei, ég er mjög hrifin af smokkum.
-Það er samt ekkert persónulegt þú veist. Þótt ég vilji ekki kyssa.
(Ókei, ég veit, það hljómar ekki beint rökrétt.)
Hræsnarar
Hinsvegar sjá 60% þjóðarinnar enga sérstaka ástæðu til þess að við tökum á móti pólitískum flóttamönnum. Þetta fólk (sem sumt þykist þó tilbúið til að færa fórnir í þágu mannréttinda) álítur semsagt að það sé eðlilegt að við vísum fólki sem hefur sætt ofsóknum, bara eitthvert annað.
Líklega telja nokkuð margir að mannréttindi séu þess verð að einhverjir aðrir færi fórnir fyrir þau.
![]() |
Mikill meirihluti hlynntur íslenskunámi |
Sííííríusslí?
Voðalega á ég erfitt með að trúa því að undirbúningur fyrir athafnir á vegum drottningar taki mörg ár. Eða man einhver eftir því að það hafi einhversstaðar í heiminum tekið svo langan tíma að hola einhverjum þjóðarleiðtoga niður eða gifta einhvern prins?
Ætli járnfrúin sé ekki bara eitthvað lasin? Það er allavega hefð fyrir því þegar valdamenn og miklir áhrifamenn veikjast að logið sé til um ástand þeirra fram á hinstu stund.
Aldrei þessu vant er ég sammála Geir
Líklega er búið að ákveða að álver rísi á Bakka, hvort sem náttúran þolir það eða ekki. Sú ákvörðun verður keyrð í gegn, hvað sem öllu umhverfismati líður. Það er því rökrétt hjá Geir að líta á umhverfismat sem óþarfa.
Aldrei þessu vant er ég sammála honum. Það þjónar ekki tilgangi að leggja í kostnað við mat á umhverfisáhrifum sem allir vita að eru bæði óviðunandi og óafturkræf. Ég virði Þórunni fyrir viðleitni hennar til að tefja málið en það eina sem mun skila árangri er að almenningur rísi upp gegn þessu stóriðjubrjálæði og steypi Geir og ríkisstjórn hans af stóli.
![]() |
Úrskurðurinn ónauðsynlegur |
