Spurt er hvort mótmælaaðgerðin núna á eftir verði ekki örugglega friðsamleg.
Aðgerðin er kynnt sem friðsamleg og ég hef enga sérstaka ástæðu til að ætla að mótmælendur mæti með ofbeldi í huga. Ég vona sannarlega að lögreglan stilli sig líka. Sjálf mæti ég í þeim tilgangi að mótmæla friðsamlega og hygg ég að svo sé um flesta. Ég get þó ekki ábyrgst annað fólk og það er bara staðreynd að ef beinar aðgerðir eru hundsaðar, þá brjótast út óeirðir fyrr eða síðar, án þess að nokkur hafi boðað til þeirra. Það er líka staðreynd að tíðar ástæðulitlar handtökur og yfirgangur lögreglu, kallar á viðbrögð og getur leitt til átaka.
Ég get þessvegna ekki lofað því að allt verði nákvæmlega eins og ég sé það fyrir mér en markmiðið er að meina ráðherrum aðgang, án þess að það hafi í för með sér ofbeldi eða slys.