Sérlegur fulltrúi Lúsífers

Gunnar í Krossinum hefur tekið að sér að vekja athygli fjölmiðla á tengslum mínum við myrkraöflin.

Og jájá, ef Satan sjálfur er eitthvað líkur þeirri ímynd sem Bulgakov gefur honum í Meistaranum og Margarítu, þá skal ég stolt taka að mér að vera fulltrúi hans.

Í bók Bulgakovs heimsækir Satan Moskvu, ásamt föruneyti sínu. Hann tekur að sér að fletta ofan af svikum, eiginhagsmunapoti og valdhroka stjórnmálamanna og yfirstéttarinnar. Mestu skíthælarnir standa að lokum naktir sem skemmtiatriði í sirkus. Og jáójá, ég er bara alveg til í að vera með þessháttar myrkrahöfðingja í liði.

Fréttablaðið setti mynd af mér við þessa grein en ekki mynd af Gunnari. Ætli það sé af því að ég er líkari Satni heldur en Gunnar eða finnst blaðamanninum ég bara sætari?

hið illa afl

Eva norn fulltrúi hins illa afls

„Öfl myrkursins eru komin á afturlappirnar, stíga villtan dans. Hrunadansinn er þess dans,“ segir Gunnar Þorsteinsson, trúarleiðtogi í Krossinum.

Gunnari í Krossinum þykir það furðu sæta að það hafi nánast farið fram hjá fjölmiðlum að á laugardag fyrir viku komu saman sjö hundruð biðjandi sálir við Austurvöll. En fyrsta frétt var að sjö manns voru handteknir við Alþingishúsið. Sjálfur er Gunnar léttur á því, segir að þó að kreppa sé í hinu veraldlega ríki eigi hið sama ekki við um Guðsríki.

„Mér finnst menn standa þetta furðuvel af sér. Andrúmsloftið frekar vera að léttast. En þegar desember er liðinn fáum við að sjá veruleika sem við eigum erfitt með að horfast í augu við.“

Þegar Fréttablaðið náði tali af Gunnari var hann nýkominn af bænastund þar sem saman voru komnir forstöðumenn og leiðtogar ýmissa kristinna safnaða.

„Mönnum finnst ástæða til að kristin viðhorf og kristin bæn komi víðar við í ljósi þess að hin myrku öfl hafa nú gert sig gildandi í samfélaginu. Eins og nornin við stjórnarráðið, ásatrúarmenn að reisa níðstangir, dúkkur stungnar með prjónum og myndir af leiðtogum þjóðarinnar brenndar.“

Eva Hauksdóttir norn var stödd í miðjum mótmælum þegar blaðið náði tali af henni, hjá ríkissaksóknara þar sem Hörður Torfason var að leggja fram kæru. Hún lét sér hvergi bregða nema síður sé þegar hún var spurð hvernig henni litist á að vera fulltrúi hinna myrku afla í huga Gunnars.

„Þetta þykja mér góðar fréttir. Ég trúi á hið illa afl sem gerir gott. Þetta sem boðað er í bók Búlgakovs Meistaranum og Margaritu: Fulltrúi þess illa afls sem flettir ofan af spillingu og rís gegn valdníðslu. Það gleður mig að Gunnari í Krossinum og hans líkum sé uppsigað við mig. Gunnar er einhver mesti rugludallur landsins og þetta þýðir að ég er að gera eitthvað rétt,“ segir Eva norn. – jbg

 

One thought on “Sérlegur fulltrúi Lúsífers

  1. ———————————

    Ég er einmitt að lesa Meistarann og Margarítu í skrifuðum orðum. Djöfull var ánægjulegt að lesa þessa grein. Tilsvar þitt var snilldarlegt og vel orðað að venju.

    Posted by: Alexander | 12.12.2008 | 16:51:41

    ———————————

    Hann tekur greinilega mark á þér og hefur trú á að særingar þínar séu að virka.
    kjh
    Posted by: kjh | 12.12.2008 | 17:15:12

    ———————————

    Þær eru að virka.

    Nú er að komast upp um hvert spillaingarmálið á fætur öðru og vissirðu að 40% þeirra sem tóku þátt í könnun Bylgjunnar eru sáttir við aðgerðina í Alþingishúsinu síðasta mánudag?

    Já og sástu hrafnagerið á þaki Stjórnarráðsins í morgun?

    Posted by: Eva | 12.12.2008 | 17:45:53

    ———————————

    Þú ert náttúrlega tvímælalaust sætari 😀

    Posted by: hildigunnur | 12.12.2008 | 19:35:15

    ———————————

    Held að hans heilagleiki sé gott dæmi um rök fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju:)

    Posted by: Guðjón Viðar | 12.12.2008 | 20:03:18

    ———————————

    Þú er auðvitað bæði sætari og með meira vit í kollinum.

    Posted by: Harpa J | 12.12.2008 | 20:22:33

    ———————————

    Nú er ég ekki að segja að Eva sé ekki sætari en Gunnar, en er ég einn um að finnast hún vera svona lík Satni?

    Posted by: Alexander | 12.12.2008 | 23:29:57

    ———————————

    Ég hló mikið að þessu bloggi og greininni. Hvílík vitleysa er þetta og hvað þú hittir naglann á höfuðið, bæði hvað varðar spillinguna og eigin fegurð. 🙂

    Posted by: Gísli Friðrik | 13.12.2008 | 16:57:58

    ———————————

    Eva. Þú rokkar.

    Posted by: Hugi | 13.12.2008 | 20:50:14

    ———————————

    Áfram Eva! Og auk þess ertu miklu sætari 🙂

    Posted by: Hulda H. | 13.12.2008 | 23:08:01

Lokað er á athugasemdir.