Efast einhver um heiðarleika bankastarfsmanna?

Ég sé að búið er að stofna hóp til að leggja áherslu á heiðarleik hins almenna bankastarfsmanns.

Ég bara spyr, hefur verið í gangi einhver umræða um að almennir starfsmenn bankanna beri ábyrgð á hruninu eða eigi hlut að spillingunni sem viðgengst í bankakerfinu? Ef svo er þá hefur sú umræða farið algerlega fram hjá mér.

Umræður hér

Svei attan

Sá gamli tussusnúður fordæmir ekki aðeins sjálfselsku heldur líkir hann baráttunni gegn mannréttindum fólks sem ástundar  kynhegðun sem er honum ekki að skapi, við umhverfisvernd. Sjá hér.

Ég held að heimurinn væri ólíklegri til að hrynja ef valdastofnanir eins og Kaþólska kirkjan liðu undir lok.

mbl.is Fordæmdi sjálfselsku

Ekki táknrænt

Við skulum líka athuga það að auknar álögur á sjúklinga munu skila sér í ríkiskassann, þar sem aftur á móti hátekjuskattur yrði aldrei annað en táknræn aðgerð.

Það er vegna þess að sjúklingar eru svo margir en hátekjumenn svo fáir. Og það væri auðvitað galið að ergja þessa fáu hátekjumenn. Þeir hafa nefnilega völd og þau völd skal ekki skerða.

mbl.is Standa undir gjaldtöku

Jól að bresta á

Í gamla daga var tilgangur jólanna sá að hafa einn dag á ári þegar allt átti að vera dýrðlegt. Fullkomið. Nóg að borða og maturinn m.a.s. góður. Allt hreint. Allt upplýst, og dálítið af fallegu skrauti til að gleðja augað. Tilefni til að nota sparifötin og allir áttu að fá eitthvað nýtt. Frí frá öðrum verkum en þeim nauðsynlegustu. Ponkulítil gjöf handa hverjum og einum. Allir glaðir. Fólk hlakkaði til þessarar hátíðar í margar vikur. Halda áfram að lesa

Óskaplega leiðist mér svona fréttamennska

mbl.is Óttast að uppúr sjóði

Þessi fréttamaður tók við mig langt viðtal og þar kom skýrt fram að ég stjórna ekki einu eða neinu, enda vinna þessir aðgerðahópar sem ég hef unnið með ekki eftir einhverju pýramídakerfi. Ég stjórna hvorki hópum né einstaklingum. Hvortveggja þá eru aðgerðasinnar almennt fólk sem lætur ekkert segja sér fyrir verkum og flest okkar gera einnig þá kröfu til annarra að þeir hugsi sjálfstætt og taki frumkvæði. Ég hef engan áhuga á að stjórna fullorðnu fólki, ég hef hinsvegar áhuga á að taka þátt í þeim með jafningjum.Ég hef tjáð mig í fjölmiðlum. Ég hef svarað gagnrýni sem byggir á fordómum og vanþekkingu. Mér lætur vel að tala og skrifa en er hinsvegar ekki góð í því að klifra upp húsveggi eða standa í vegi fyrir fílelfdum lögregluþjónum. Það að ég tali mikið, merkir ekki að ég stjórni neinu og ég gerði þessum fréttamannsskratta það alveg ljóst.

Svínið farið að svelta

Ég fór í Bónus í morgun.

Ég gerði ekki jólainnkaup, heldur verðlagskönnun. Átti von á að troðast nánast undir eins og venjuleg á Þorláksmessu en það voru ekki nema 8-12 manns í búðinni á meðan ég stoppaði það, þar af 4 útlendingar, 2 sem ég veit fyrir víst að voru ‘bara að skoða’ og ekki keypti ég snitti. Af þessu dreg ég þá ályktun að fólk sé þegar farið að beina viðskiptum sínum annað.

Samkvæmt heimildum sápuóperunnar stendur nú yfir lokaæfing fyrir Þorláksmessutónleika anarkistakórsins. Kórinn, sem var stofnaður fyrr í þessum mánuði, kom fyrst fram þegar kókakólalestin hringdi inn stórhátíð kapítalismans með dyggri aðstoð meðvirkrar lögreglu og björgunarsveitarmanna.

Markmið kórsins í dag er að troða upp á ýmsum stöðum, og þá ekki síst fyrir utan verslanir Baugs, og syngja pólitíska jólasvöngva af hjartans innlifun og leggja meiri áherslu á fagnaðarboðskapinn en listrænt gildi.

 

Froðusnakk í hófi takk

Fátt kemur hér á óvart.

Erindið var að skora á Ólaf Ragnar að undirrita ekki fjárlögin. Hann gaf ekkert út á það og ætlar heldur ekki að axla neina ábyrgð á því að hafa mært útrásina. Af þessum sökum líta fundarmenn svo á að þetta hafi verið slæmur fundur enda þótt kakóið hafi eflaust verið fyrirtak.

Ég er reyndar ekki sammála því að fundurinn hafi verið tilgangslaus. Núna er búið að láta herra forsetann vita af því formlega að til er fólk sem ætlar ekki að taka því þegjandi ef frumvarpið fer í gegn. Ólafur Ragnar Grímsson getur því reiknað með að næst þegar óánægðir borgarar banka upp á hjá honum, verði það ekki nein kurteisisheimsókn.

Ég sá á umræðusíðu sem ég er ekki skráð á sjálf, að einhver telur sig hafa áframsent á mig boð frá Jóhannesi í Bónus um kaffi og kleinur. Ég hef ekki fengið þennan póst af einhverjum ástæðum. Ekki svo að skilja að það skipti neinu máli. Það viðskiptasiðferði sem Baugsmenn hafa viðhaft er einfaldlega of gróft til þess að ég ætli eitthvað að fara að ræða það yfir kaffi og kleinum. Stundum er sjálfsagt að ræða málin, eins og t.d. þegar skorað er á forsetann að beita valdi sínu en það eru takmörk fyrir því hversu mikið froðusnakk maður lætur bjóða sér upp á.

mbl.is Ólafur og Dorrit buðu mótmælendum upp á kaffi