Nú ætti strengjabrúðustjórnin að biðjast lausnar

Þessi ríkisstjórn er gjörsamlega undir hælnum á Framsókn og það er ekkert vinnandi við þær aðstæður. Það skynsamlegasta sem stjórnarflokkarnir gerðu núna, væri að pakka saman og fara heim. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn tækju þá við, með þeim afleiðingum að skríllinn risi upp og hreinlega tæki völdin af þeim.

Kannski er stjórnarkreppa einmitt það sem við þurfum til þess að almenningi misbjóði nógu hrottalega. Kannski stjórnarkreppa yrði til þess að fólk tæki sig saman um að bera Davíð út úr Seðlabankanum og breyta Alþingi í lýðræðisstofnun.

mbl.is Framsókn skekur ríkisstjórnina

Þetta er náttúrulega bilun

Stundum sekk ég í karlfyrirlitningu sem getur enst vikum saman. Það undarlega er að þessi tímabil standa ekki í neinu sambandi við reynslu mína af tegundinni. Undanfarið hef ég t.d. ekki upplifað neitt sem getur skýrt það hversvegna mig langar beinlínis að fara illa með einhvern. Þ.e.a.s. bara einhvern. Helst einhvern ókunnugan. Ekki neinn sem ég þekki. Þetta er nefnilega ekkert persónulegt og mér líkar vel við flesta menn sem ég er í einhverjum tengslum við. Hins vegar vekur konseptið ‘karlmaður’ mér hvílíka andúð að ég hef beinlínis áhyggjur af því.

Og samt langar mig að vera hjá manni.

Hvar hittir þú maka þinn? (FB leikur)

Ég hef hitt þá sem ég hef átt mök við á ýmsum stöðum.

Suma á trúarsamkomum, nokkra á vinnustöðum eða í skóla. Einn í fangelsi, tvo á veitingastöðum, tvo heima hjá fyrri bólfélögum, einn á internetinu, einn í hitakompu í Kringlunni, hann hafði hlýja nærveru.

Einn gerði mér áhuga sinn ljósan þar sem við tvímenntum á asna í fornsögulegri hellaborg. Það var erótískasti asni sem ég hef riðið.

Einhvernveginn eitthvað

-Ég veit ekki hvernig ég á að orða það, en það er einhvernveginn eitthvað, kannski látbragðið eða hvernig þú ferð alltaf að stara mjög fast niður í borðið þegar ég horfi á þig, sem segir mér að þér líði óþægilega nálægt mér. Samt er eins og þú viljir alveg að ég faðmi þig.
-Elskan. Vert’ekki með svona blá augu.
-Ég er reyndar brúneygur.
-Já, sannarlega. Ég hef einmitt tekið eftir því.

Karamella

Og þegar maður veit fyrirfram að það mun ekki ganga, þá prófar maður eitthvað annað. Skiptir döðlum út fyrir karamellur.

Karamelluaugu eru mjúk, sæt og loða við mann. Höfða einhvernveginn til munnsins. Eins og kossar byrji í augunum.

Ég held að karlfyrirlitning mín sé að ná hámarki.
Gæti hugsað mér að éta einn núna.