Íræði við greiðsluvandanum

Hvernig er það úrræði að hneppa fólk í skuldaánauð til lífstíðar? Jú, fólk sem sér fram á að verða húsnæðislaust sér það kannski sem lausn á sama hátt og það er lausn fyrir götubörn á Indlandi að gangast inn á skilmála þrælahaldara til að fá mat og húsaskjól.

Sjálfsagt duga þessi ‘úrræði’ flestum til að halda heimilum sínum. En er það lausn að greiða þegar upp er staðið tífalt verð fyrir íbúðina miðað við verðgildi hennar fyrir hrun, en fá svo lægra verð fyrir hana en hún var keypt á? Mér sýnist það nú frekar vera í ætt við að festast í gildru en að losna. Ég legg því til að ríkisstjórnin hætti að tala um ‘lausnir og úrræði’ á greiðsluvanda heimilanna og tali frekar um ‘festir og íræði’.

mbl.is Aðgerðirnar eru taldar duga flestum

Taktu afstöðu

Einu sinni leit ég á kosningadag sem hátíð. Að fara á kjörstað varð athöfn. Kaffihús á eftir, vakað yfir sjónvarpinu í góðra vina hópi, a.m.k. þar til úrslit þóttu ljós og stundum til síðasta atkvæðis.

Í dag finnst mér þessi dagur frekar standa fyrir blekkingu og undirokun en lýðræði og frelsi. Það er nákvæmlega sama hvað ég kýs eða hvort ég kýs, ég fæ alltaf það sama, valdapýramída, þar sem nokkrir menn faldir á bak við stórfyrirtæki, ríkja yfir fjöldanum og bera svo bara við ‘trúnaði’ þegar Jón almúgi vill fá að vita á hvaða hátt er verið að ráðskast með örlög hans. Það eina sem við getum hugsanlega haft áhrif á, er hverjir sjá um að tilkynna okkur að okkur komi það ekki við hvernig auðlindir landsins séu nýttar og í þágu hverra eða hver gerði hverjum vinargreiða og hvað hann fékk að launum.

Kosningar snúast ekki um það hvernig landinu er stjórnað, heldur hverjir fái að vera háttvirtir þingmenn og hæstvirtir ráðherrar. Að sniðganga kosningar, skila auðu eða ógildu nú eða éta kjörseðilinn, felur ekki í sér afstöðuleysi, heldur afstöðu gegn kerfi sem byggir á valdníðslu stórfyrirtækja, spillingu embættismanna og fáfræði og sinnuleysi almennings.