Og þá er ég hér í Hullusveit. Búslóðina sæki ég þegar ég er komin með húsnæði en ég fer strax á þriðjudag og skrái lögheimilið mitt hér. Lögreglustöðin í Graasten er víst bara opin tvisvar í viku.
Pabbi kom með mér út. Við tókum lestina frá Kaupmannahöfn, ég með farangur eins og ég sé að flytja (sem ég er) og pabbi með 10 kg af fiski frá ömmu Láru. Ég dröslaði ferðatöskufylli af saltkjöti hingað þegar ég kom síðast. Hullu finnst pabbamatur það besta í heimi og hann eldar ekki svínahrygg með grænkáli eða skraddaratvennu heldur íslenskan mat.
Við vorum búin að koma okkur þægilega fyrir í lestinni og nokkuð liðið á ferðina þegar lestarþjónninn kom til að skoða miðana. Sagði að við værum ekki á réttum stað. „Næsta stopp er í Óðinsvéum og þar verður lestinni skipt og þessi hluti verður eftir, Þannig að ef þið viljið ekki verða eftir í Óðinsvéum verðið þið að fara yfir í hinn hlutann.“ Jeminn og með allar þessar töskur sem sumar innihalda verðmæti sem ekki er hægt að skilja eftir.
Ég hófst handa við að selflytja farangurinn en pabbi beið og gætti þess sem ég komst ekki með. Var í Sönderborgarhlutanum þegar lestin stoppaði. „Úff, pabbi verður eftir hér“, hugsaði ég og sá fyrir mér að pabbi stæði einn á ókunnugri lestarstöð og ég ekki einu sinni með síma.
Ég óð af stað til að finna hann. Hann kom á móti mér rogandi allt of mörgum töskum með sér, hafði náð að hlaða þeim öllum utan á sig. Ég tók hluta af dótinu og við rétt komumst yfir í Sönderborghlutann áður en Óðinsvéahlutinn var leystur frá honum.
„Úff! Þetta var tæpt en það tókst þó“ sagði ég og hló móðursýkislega.
„Kallar þetta ekki bara á koníak?“ sagði pabbi.
Ég hef aldrei drukkið koníak og efast um að það sé á boðstólum í dönskum lestum en haldið að pabbi hafi ekki dregið koníaksfleyg upp úr innri vasanum á jakkanum sínum.
„Ekki hefði mér dottið í hug að þú ferðaðist með koníakspela á þér“ sagði ég. En pabbi sagðist altaf vera við öllu búinn.
Ég vissi ekki að ég kynni að meta koníak en það er eiginlega betra en viský.