Málfarsúrræði

Nýyrðasmíð er áhugaverð, skemmtileg, góð. Nýir tímar kalla á ný orð og það er gaman að auðga málið með góðum nýyrðum, vel heppnuðum tökuorðum og endurvinnslu á úreltum orðum.

Það gladdi því viðkvæma málkennd mína þegar ég sá hið dásamlega orð langtímabúsetuúrræði, notað í frétt um aðstæður heimilislausra. Hversvegna að nota jafn fábreyttan orðaforða og húsnæði, dvalarstaður, híbýli, vistarvera, heimili, skjólshús, bústaður, íverustaður, gististaður og athvarf, þegar mögulegt er að nota hið stórkostlega vanmetna orð úrræði?

Ég legg til að sett verði á laggirnar svokölluð úrræðanefnd og verði hlutverk hennar að finna og útbreiða ýmis málfarsúrræði með áherslu á lausnir annarsvegar og úrræði hinsvegar. Úrræðanefnd gæti lagfært ýmsar ambögur og sett úrræðalausnir í staðinn. Greiðslufrestur yrði þannig frestunarúrræði, fæðingar yrðu barneignalausnir, brandari yrði spaugsemisúrræði og brauðrist yrði ristabrauðslausn.

Helst þyrfti úrræðanefnd að bjóða upp á heildrænar máfarslausnir með heildstæðum nýyrðaúrræðum.

 

Hvað hefur hann sem hún hefur ekki?

f5321aec59366e37760373cd312123c5_robert_marshall

priyanka-thapa

Getur einhver sagt mér hvað það er sem þessi maður hefur sem þessi kona hefur ekki?

Íslenskur ríkisborgararéttur að sjálfsögðu en það sem ég á við er hvað það er sem gerir hann nógu merkilegan til að njóta verndar íslenska ríkisins og hvað það er sem gerir hana óverðuga þess að njóta mannréttinda?

1%

Á vinnustöðum Reykjavíkurborgar (þar sem 80% starfsmanna eru konur) er klámvæðingin og kynferðisleg áreitni svo stórt vandamál að borgin sá ástæðu til að gefa út sérstakan bækling um málið. Nýleg könnun sýnir hinsvegar að á Landspítalanum verður um ein af hverjum hundrað konum fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað. Fleiri segjast þó verða fyrir áreitni af hálfu sjúklinga (sem eru margir hverjir geðsjúklingar og gamalmenni.) Halda áfram að lesa

Einar í forsetaframboð

„Ég hef lengi átt mér þann draum að auka siðgæði þjóðarinnar“ segir Einar Sauðkrók, sem tilkynnti framboð sitt til forsetaembættis í dag. Einar er sem kunnugt er hættur í Vítisenglum og hyggur nú á frama á öðrum vettvangi.

Helstu markmiðin sem Einar mun vinna að í valdatíð sinni eru að uppræta vímuefni, klám og þágufallssýki að ógleymdri skipulagðri glæpastarfsemi og annarri framsóknarmennsku.

„Það er náttúrulega þessi skipulagða glæpastarfsemi sem er mesta vandamálið. Ég vil bara banna hana alfarið. Ég hef reynslu af þessu sjálfur og get staðfest að þetta er bara tómt rugl, það er miklu meira upp úr óskipulagðri glæpastarfsemi að hafa. Og svo er það náttúrulega klámvæðingin, mér skilst að þeir séu enn að selja Cockburns í ríkinu, það þarf sterkan leiðtoga til að takast á við slíkan ósóma á krepputímum“ segir Einar.

Þess má geta að Einar tapaði í lottóinu á dögunum og er talið víst að það sé ríkisstjórinni að kenna.

Jesus Use Me

Englakórinn hefur lýst yfir stuðningi við framboðið og vinnur nú að útgáfu geisladisks því til styrktar. Meðal laga á disknum er hinn klassíski sumarsmellur Skín við sólu Skagafjörður, en Einar er einmitt ættaður að norðan.