Einar í forsetaframboð

„Ég hef lengi átt mér þann draum að auka siðgæði þjóðarinnar“ segir Einar Sauðkrók, sem tilkynnti framboð sitt til forsetaembættis í dag. Einar er sem kunnugt er hættur í Vítisenglum og hyggur nú á frama á öðrum vettvangi.

Helstu markmiðin sem Einar mun vinna að í valdatíð sinni eru að uppræta vímuefni, klám og þágufallssýki að ógleymdri skipulagðri glæpastarfsemi og annarri framsóknarmennsku.

„Það er náttúrulega þessi skipulagða glæpastarfsemi sem er mesta vandamálið. Ég vil bara banna hana alfarið. Ég hef reynslu af þessu sjálfur og get staðfest að þetta er bara tómt rugl, það er miklu meira upp úr óskipulagðri glæpastarfsemi að hafa. Og svo er það náttúrulega klámvæðingin, mér skilst að þeir séu enn að selja Cockburns í ríkinu, það þarf sterkan leiðtoga til að takast á við slíkan ósóma á krepputímum“ segir Einar.

Þess má geta að Einar tapaði í lottóinu á dögunum og er talið víst að það sé ríkisstjórinni að kenna.

Jesus Use Me

Englakórinn hefur lýst yfir stuðningi við framboðið og vinnur nú að útgáfu geisladisks því til styrktar. Meðal laga á disknum er hinn klassíski sumarsmellur Skín við sólu Skagafjörður, en Einar er einmitt ættaður að norðan.