Stórveldið, Monitor og kennivald kvenhyggjunnar

gillzHreyfing sem stefnir að því að koma á kennivaldi, gerir sér far um að yfirtaka alla umræðu sem snertir áhugasvið hennar. Einn mikilvægasti áfanginn á þeirri vegferð er sá að yfirtaka fjölmiðlaumfjöllun og þar hafa íslenskir feministar náð prýðilegum árangri. Fjölmiðlaumfjöllun um kynjamál er svo til eingöngu á feminiskum forsendum, það er helst að önnur sjónarhorn sjáist í viðtölum og sjálfstæðum greinaskrifum þeirra sem hafa gert andspyrnu gegn viðhorfum og vinnubrögðum kvenhyggjunnar að baráttumáli. Það eru feministar sem stjórna því hvaða mál sem snerta kynjapólitík eru tekin til umfjöllunar og það eru feministar sem ráða sjónarhorninu og túlkuninni. Þetta á t.d. við þegar fjallað er um launamál og stöðuveitingar, staðalmyndir og barnauppeldi en hvergi er kennivaldið þó augljósara en í umfjöllun um kynferðismál og allt sem þeim tengist.

 

Hvað skal ræða og hvernig?

Kvenhyggjusinnar stjórna því að verulegu leyti hvaða kynjamál eru tekin til umfjöllunar. Engu líkara er en að opinber fyrirmæli hafi verið gefin út um að fjallað skuli um nauðganir og klámvæðingu eins oft og því verður við komið. Gúggull vinur minn gaf upp 101.000 leitarniðurstöður þegar ég sló inn „mér var nauðgað“ núna í morgun. „Ég fékk krabbamein“ gefur 10.800 niðurstöður. Orðið „Bílslys“ eitt og sér án nokkurs samhengis gefur 70.400 niðurstöður. Enn heyrir maður talað um að þöggun ríki um kynferðisofbeldi.  Sú upplifun samræmist ekki veruleika okkar flestra og tölurnar tala sínu máli; samkvæmt upplýsingum frá Fjölmiðlavaktinni hafði orðið nauðgun (í öllum beygingarmyndum) komið fyrir 1089 sinnum í íslenskum fréttum það sem af er árinu kl 11:00 í dag. Þá eru erlendar fréttir ótaldar sem og umfjöllun sem ekki tilheyrir fréttum.

Og feministar stjórna því ekki aðeins hvaða kynjamál fjölmiðlar taka fyrir, sjónarhorn, efnistök og túlkun eru einnig samkvæmt feminiskri formúlu. Þetta opinberast sérdeilis vel í fjölmiðlaumfjöllun um mál Egils Einarssonar og viðbrögðum við þeirri umfjöllun, ég mun því nota það mál sem dæmi þótt mörg fleiri mætti nefna.

Gillzmálið er sennilega grófasta dæmi Íslandssögunnar um ófrægingarherferð á hendur einstaklingi og það manni sem hefur engin pólitísk ítök. Fyrir rúmu ári var Egill sakaður um glæp sem samkvæmt refsiramma laganna getur í versta tilviki jafngilt morði. Þó svo að rannsókn væri rétt að hefjast var hann úthrópaður nauðgari í fjölmiðlum og lúkasinn á kommentakerfum netmiðlanna og facebook náði nýjum hæðum. Það þótti bara hið besta mál að draga mannorð hans niður í svaðið og jafnvel fyrirtæki sem hann hafði unnið fyrir sýndi af sér framkomu sem varla verður skoðuð sem neitt annað en þátttaka í einelti.

 

Hvað má ekki ræða?

Nú hefur Egill verið hreinsaður af þessum sökum að svo miklu leyti sem það er hægt án þess að fram komi óumdeilanlegar sannanir fyrir því að hann hafi verið borinn röngum sökum en það virðist þó engu breyta um stöðu hans. Sjónvarpsþættir sem voru gerðir eftir bók hans verða ekki teknir til sýninga, slík eru ítök feminista hjá 365 veldinu. Til stóð að sýna þættina í kvikmyndahúsum en smákóngarnir hjá Stórveldinu gungnuðu á því.

Ég verð að játa að mér finnst í aðra röndina dálítið skemmtilegt að sjá svona skýrt dæmi um það hvernig kapítalisminn étur börnin sín. Dæmið er eflaust búið að kosta Stórveldið ævintýralegar fjárhæðir og strákakjánar í kapítalistaleik halda líklega að þeir séu að mæta kröfum markaðarins með því að stinga félaga sinn í bakið. Krafan um að taka Gillz af markaðnum  kemur þó ekki frá viðskiptavinum Stórveldisins heldur frá þeim sem fyrirlíta Stórveldið, smákóngana og Gillz. Egill hefur sjálfsagt talið að hann væri í samstarfi við einhverskonar félaga eða jafnvel vini hjá Stórveldinu en nú fær hann skilaboðin eins og blauta gólftusku í andlitið; hann er ekki manneskja heldur söluvara sem Jói getur braskað með, eða kannski tíkin hans Simma; húrra fyrir kapítalismanum. Eins írónískt og það er, í ljósi andúðar minnar á dólgafeminisma, get ég heldur ekki annað en brosað að því að Simminn og Jóinn skuli af eigin frumkvæði skríða ofan í rassvasa baráttukvenna eins og Hildar Lilliendahl og Maríu Lilju Þrastardóttur, kvenna sem ég efast um að hafi nokkurntíma gert Stórveldinu greiða eða hafi minnsta hug á að gera það í framtíðinni. Frábær árangur hjá femmunum verð ég að segja og púkinn á fjósbitanum hlær að tapi Stórveldisins þótt ég finni til með vesalingnum sem hélt að þessir labbakútar væru vinir hans. Slíkur er áhrifamáttur feminista að þeir geta jafnvel stjórnað því hvað er boðið upp á í sjónvarpi og kvikmyndahúsum og þótt ég sé ósammála baráttumálunum get ég ekki annað en vottað feministum virðingu mína fyrir frábæran árangur.

 

Fá þær að stjórna Monitor líka?

Síðast í gær hófst svo enn ein hrinan þegar Monitor birti viðtal við hið fallna goð. Drottningarviðtal vissulega en ég verð að segja það Monitor til hróss að Agli var ekkert hlíft við óþægilegum spurningum.

Og hér kemur í ljós hversu langt kennivald kvenhyggjunnar nær. Þótt vel hafi mátt birta einhliða frásögn vinkvenna meints þolanda í nauðgunarmáli fyrir rúmu ári, þykir hin mesta óhæfa að gefa manni sem síðan hefur setið undir samfelldu persónuníði og rógburði tækifæri til að bera hönd fyrir höfuð sér. Rökin fyrir því að ekki megi hleypa Agli í fjölmiðla eru annarsvegar þau að Egill sé svo slæm fyrirmynd. Þau rök halda auðvitað ekki vatni, Egill var alveg jafn slæm fyrirmynd áður en þessi nauðgunarkæra kom fram og ekki mótmæltu menn þá*; það trúir því enginn heilvita maður að þessi mótmæli standi ekki í beinu sambandi við nauðgunarkæruna. Hin rökin eru þau að það sé svo íþyngjandi fyrir meintan geranda í meinsærismáli að sjá smettið á Agli á blaði sem er dreift í framhaldsskólum. Skilaboðin eru þau að sé maður ásakaður um nauðgun skuli hugsanlegur þolandi njóta vafans en sé kona sökuð um rangar sakargiftir skuli hugsanlegur gerandi njóta vafans. Á umræðukerfum netmiðlanna og á facebook sést svo gjarnan sú skoðun að enginn vafi sé fyrir hendi; maðurinn sé einfaldlega nauðgari hvort svo sem einhver málsgögn gefi tilefni til þess dóms eður ei. Sú skoðun er áberandi að möguleikann á því að honum sé gert rangt til, megi alls ekki ræða í fjölmiðlum.

Það verður nú fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þessum mótmælum gegn Monitorviðtalinu. Ætli ritstjórn Monitor fylgi dæmi smákónganna og láti feminista ritstýra sér? Eða mun þetta nauðaómerkilega sorprit sýna meira sjálfstæði gagnvart hinu nýja kennivaldi en aðrir fjölmiðlar landsins samanlagt? Þá yrði nú púkanum á mínum fjósbita skemmt.

———–

*Ég hefði átt að taka fram hér að mótmæli höfðu víst komið fram áður þótt þau beindust ekki sérstaklega að Monitor. Þannig var t.d. hópur sem tók nafn sitt úr símaskránni þegar Gillz var ráðinn sem ritstjóri hennar. Aðalástæðan sem nefnd var fyrir þeirri aðgerð var þá fjögurra ára gömul bloggfærsla sem feministar gerðu fræga með því að halda henni á lofti mánuð eftir mánuð og ár eftir ár.

Deildu færslunni

Share to Facebook