Sjóðandi fýsur sleppa – ef maður spilar með réttu liði

Þegar ég sá þetta myndband átti ég von á því að feminstar myndu brenna Erp Eyvindarson á báli.

Erpur flokkast sem fyrirmynd og þarna kemur hann fram, fullorðinn tónlistarmaður, eins og hani í hæsnahóp, með hóp af framhaldsskólastelpum í heita pottinum. Hann talar svo um þær sem „fýsur“ og segist hafa skráð sig í fjarnám í skólanum þeirra af því að félagslífið sé svo æðislegt og stelpurnar svo „ljónharðar að það bókstaflega sýður á draslinu á þeim“. Maður hefði haldið að þetta væri sannkallað jólahlaðborð fyrir feminista en ég sá þetta aldrei gagnrýnt.

Ég er ekki að skrifa þennan pistil í þeim tilgangi að messa yfir Erpi eða krökkunum sem gerðu myndbandið. Ég tel enga ástæðu til þess að reyna að hafa vit fyrir framhaldsskólanemum; mikill áhugi á djammi og kynlífi ásamt ósmekklegum húmor einkennir þennan aldur og ég hef engar áhyggjur af því að það hafi ógnvænlegar afleiðingar. Það sem vekur áhuga minn hér eru ekki „skilaboð“ Erps (en samkvæmt feminiskum rétttrúnaði notar ekki nokkur maður kynferðislegar skírskotanir nema til þess að koma einhverjum sérstökum „skilaboðum“ áleiðis) heldur ástæðurnar fyrir því að hann skuli ekki hafa fengið á sig neina gagnrýni frá þeim sem eru með klám og kvenfyrirlitningu á heilanum. Og það er best að ég taki það skýrt fram að ég ætlast ekki til þess af femnistum eða neinum öðrum að þeir gagnrýni annað en það sem þeim sjálfum sýnist en engu að síður er áhugavert að skoða hverjir það eru sem njóta friðhelgi og hverjir eru brenndir.

Jú Erpur hefur verið gagnrýndur eitthvað smávegis en ekki í neinu hlutfalli við það sem ruddalegir textar hans gefa tilefni til. Hér eru nokkur dæmi:

Blaz Roca er halinn sem
börnin þín fíla, því að,
ég kenni þeim að ríða,
fýra og dett’íða
Fjórfingra þig físa, fyrir
kynslóðina mína
Ég er Blaz Roca bíaaa,
étum krakkana þína.

Hún er á maraþon túr
og rústa heilli íbúð
en ég sver upp á þennan púng
að ég hef alltaf verið trúr

Mig rámar reyndar í gagnrýni á XXX Rottweilerhunda en í fljótu bragði finn ég ekkert í heykvíslastílnum, bara þetta sem verður að teljast hófsamleg og sanngjörn gagnrýni. Erpur fór þó yfir þolmörk einhverra sumarið 2010 með mellulaginu sínu. Hér er sýnishorn úr textanum:

Kvótalaus á miðunum
hangi með liðinu,
halaðir á prikinum
skinkur nýfallar og volgar úr Byrginu
mella er mín kapella
Hnakka slöttt,
sem pakkar skott
og þannig er ‘etta
fokkum í hórum
hómí, við lókum
mitt geim er dörtí
eins og pólskur dólgur.

Jú einhverjum ofbauð. Ég minnist þess þó ekki að hafa séð neinn tala um Erp sem „þroskaskertan reginhálfvita“ en það var sú einkunn sem alfa male feministinn Magnús Sveinn Helgason gaf Jónsa í svörtum fötum fyrir ósæmileg ummæli um konur. Athyglisvert er einnig að í þessum pistli þar sem Jónsi er tekinn í gegn er gefið til kynna að einn maður beri ábyrgð á dónaskap heillar kynslóðar þótt auðvitað sé það ekkert nýtt að í dægurlagatextum séu konur í hlutverki kynferðislegs „viðfangs“ og karlar í hlutverki kvennabósans. Og þetta var svosem hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem Gillzenegger hefur verið kennt um siðspillingu ungdómsins.

Af hverju má Erpur það sem Jónsi má ekki? Getur verið að það hafi eitthvað með pólitík að gera? Nokkrum mánuðum áður en Jónsi klúðraði orðspori sínu með því að kalla tónleikagesti sína hórur lýsti Erpur því yfir opinberlega að hann væri feministi. Og áður en hann lýsti því yfir, studdi hann starf ungliðahreyfingar VG og ljáði þeim m.a.s. rödd sína.

Það skyldi þó ekki vera að pólitík ráði því að Erpur hefur sloppið þokkalega vel frá meintum sniðugheitum sem aðrir popparar hefðu verið jarðaðir fyrir að láta frá sér? Ég hef allavega ekki heyrt trúverðugri skýringu.

[custom-related-posts title=“Tengt efni“ order_by=“date“ order=“ASC“ none_text=“None found“]

Deildu færslunni

Share to Facebook