Rakstur

0

Mörgum árum áður en komst í tísku að fjarlægja kynhár, vaknaði ungur piltur á sófanum hjá félaga sínum eftir þokkalega skrautlegt djamm. Hann brölti fram úr til að pissa og sá sér til furðu að hann leit út eins og englabarn að neðanverðu. Vinir hans höfðu dregið niður um hann buxurnar og rakað á honum punginn þar sem hann lá í rússi eftir óhóflega neyslu vímuefna. Honum þótti þetta að vísu ekki nærri eins fyndið og félögunum og varð svona nett pirraður yfir kláðanum sem angraði hann í nokkra daga á meðan broddarnir voru á sandpappírsstiginu. Hann erfði þetta þó ekki við vini sína heldur leit á atvikið sem fylliríisflipp sem hann hefði sjálfur verið líklegur til að taka þátt í ef einhver hinna félaganna hefði drepist fyrir miðnætti.

Þegar ég heyrði þessa sögu benti ég á að ef stúlka hefði átt í hlut hefði þetta kallast kynferðisbrot. Líklega hefðu margir talið þetta kynferðisbrot enda þótt vinkonur hennar hefðu staðið að því en ekki strákahópur. Svörin sem ég fékk voru þau að stelpur myndu aldrei hegða sér svona í góðu því þetta væri strákahúmor, og að viðkomandi grínarar hefðu aldrei gert þetta gagnvart stúlku, því það væri bara allt annað að fíflast í strák en stelpu. Kannski er blygðunarsemi kvenna viðkvæmari en blygðunarsemi karla, allavega virðast margir telja að svo sé.

Nokkrum mánuðum síðar vaknaði stúlka í sama bæjarfélagi eftir hrottalegt fyllirí. Hún mundi óljóst að nóttin hafði endað með vinslitum hennar og vinkonu hennar. Samband þeirra hafði löngum verið stormasamt og legið við slagsmálum í uppgjörinu sem fram fór áður en vinkonan lét sig hverfa. Stúlkan brölti fram úr til að pissa og fékk áfall þegar hún leit í spegilinn. Vinkonan, sem nú var ekki lengur vinkona hennar, hafði komið inn aftur og rakað af henni aðra augnbrúnina eftir að hún var sofnuð. Þetta var löngu áður en fór að þykja fallegt að raka af sér augnbrúnir og teikna mjó strik fyrir ofan augun. Stúlkan sagði síðar að það sem henni hefði þótt verst hefði verið að neyðast til þess að fjarlægja hina augnbrúnina sjálf.

Þótt atvikin séu lík eiga þau sér ólíka forsögu og höfðu ólíkar afleiðingar. Augnbrúnarraksturinn var framinn í reiði, með því hugarfari að særa og niðurlægja vinkonu sem gerandinn taldi að hefði hegðað sér óafsakanlega.  Pungraksturinn var framinn í galsaskap, með því hugarfari að stríða vini sem hefði sennilega tekið þátt í ámóta skemmtilegheitum gegn öðrum í hópnum. Augbrúnarraksturinn var stúlkunni áfall. Hann breytti andliti hennar í nokkrar vikur, var hverjum sem hún hitti sýnilegur og vakti umtal um það hvað hefði gengið á milli stúlknanna. Pilturinn upplifði pungraksturinn sem grín. Hann var ekki vanur því að bera á sér punginn á almannafæri svo það var aðeins meðal jafningja hans sem það var altalað að hann hefði orðið fyrir þessu. Enginn leit svo á að hann hefði kallað yfir sig hefnd heldur hafði hann djammað af meira kappi en forsjá.

Í báðum tilvikum er um að ræða einhverskonar ofbeldi. Kannski ekki svo gróft ofbeldi að það teljist refsivert en engu að síður yfirgang gegn friðhelgi líkamans. En var annað atvikið kynferðisbrot? Ef svo er, hvers konar brot var hitt atvikið þá? Brot gegn útlitsfrelsi? Brot gegn sjálfsímyndarfrelsi? Eða eitthvað annað?