Mér var sagt að umgengnisforeldri gæti ekki tálmað umgengni

Þegar Stella  sleit samvistum við eiginmann sinn 2014, taldi hún að skilnaður myndi þýða að bjartari tímar væru framundan. Það  hvarflaði ekki að henni að hún ætti fyrir höndum margra ára baráttu við kerfið og því síður að dóttir hennar hyrfi algerlega úr lífi hennar.

Stella hefur nú ekki umgengist dóttur sína eðlilega frá því í janúar 2018 og ekki séð hana síðan í október 2018. Stella sagði Kvennablaðinu sögu sína en dóttur sinnar vegna vill hún ekki koma fram undir réttu nafni.

Hélt fyrst að erfiðleikarnir væru tímabundnir

Þegar þú skilur við barnsföður þinn, árið 2014, var þá ágreiningur um umgengi frá upphafi eða komu þau vandamál til síðar?

Faðirinn var á sjó og við vorum frá upphafi sammála um að forsjá yrði sameiginleg og lögheimilið hjá mér.  Það höfðu verið erfiðleikar í hjónabandinu vegna stjórnunaráráttu mannsins, einstrengislegra viðhorfa hans og framkomu við mig og börnin. Hann bað fljótlega um að sýslumaður myndi úrskurða um meðlag og við töluðum aðallega saman í gegnum lögfræðinga en ég hélt samt að þegar væri komin niðurstaða um umgengni, meðlag og annað, þá myndu samskipti okkar beggja og barnanna falla í eðlilegar skorður.

Sonur okkar segir í dag að sér finnist óeðlilegt að leggja þá ábyrgð á 15 ára börn að ráða því hvernig umgengni er háttað.

Við eigum tvö börn saman og ég átti einn strák strák fyrir. Það er yngsta barnið, stúlka fædd 2006, sem styrinn stendur um núna. Sonur okkar var í 10. bekk þegar við skildum og skv. úrskurði sýslumanns var talið eðlilegt að hann mætti bara ráða umgengninni sjálfur. Sonur okkar segir í dag að sér finnist óeðlilegt að leggja þá ábyrgð á 15 ára börn og veltir fyrir sér af hverju það teljist vera eðlilegt, sérstaklega þegar börn taka upp á að vilja ekki vera í samskiptum við annað foreldrið.

Þannig að þau búa bæði hjá þér til að byrja með, en hvernig var umgengni við föður þeirra þá háttað?

Sonur okkar fór nú ekki til föður síns nema nokkrum sinnum neðan skilnaðarferlið var í gangi. Samkvæmt sýslumannsúrskurði átti dóttir okkar að vera hjá föður aðra hverja viku frá fimmtudegi til mánudags, sumarfríum skipt jafnt og eins skipst á um jól og áramót.  Þar sem faðirinn  var á sjó þá varð raunveruleg umgengni minni en úrskurðurinn hljóðaði upp á.

Þú segir að drengurinn hafi ekki farið til pabba síns nema í nokkur skipti eftir skilnaðinn, hvernig stóð á því?

Það hafði gengið á ýmsu áður en við skildum. Faðirinn var óeðlilega harður við elsta son minn, sem ég átti fyrir, og kom fyrir að hann beitti hann ofbeldi og ofríki. Sonur okkar hafði horft upp á það og fannst faðir sinn koma illa fram við bróðurinn.

Þegar á þessu skilnaðarferli stendur þá sárnar syni okkar það líka hvað faðir hans talar illa um mig við hann.  Faðirinn hæðist að mér fyrir að hafa ekki sömu fjárráð og hann. Hann hæðist að drengnum fyrir að virða sjálfsagðar reglur eins og t.d. að láta vita af sér ef hann kæmi ekki heim á þeim tíma sem ég átti von á honum. Sonur okkar varð einnig vitni að því þegar faðir hans kom heim til okkar – að skila dóttur okkar úr umgengni – og öskraði á mig. Einnig var lögreglan kölluð þrisvar sinnum að heimili okkar á þessum tíma þegar faðirinn var að raska heimilisfriði á mínu heimili.

Klippt á samskipti móður og dóttur

Faðirinn er í fyrstu minna með stúlkuna en úrskurðurinn gerði ráð fyrir, hvernig breyttist það?

Við bjuggum úti á landi en ég flyt svo suður um mitt ár 2015. Þar með eru forsendurnar fyrir umgengni frá fimmtudegi til mánudags, aðra hverja viku,  brostnar og ég vildi bara semja um umgengni sem hentaði skólagöngu dóttur okkar betur.  En í stað þess að semja um annað fyrirkomulag þá tekur maðurinn dóttur okkar úr skólanum fimmtudag og föstudag  aðra hverja viku – þegar hann var í landi.

En í stað þess að semja um annað fyrirkomulag þá tekur maðurinn dóttur okkar úr skólanum fimmtudag og föstudag  aðra hverja viku – þegar hann var í landi.

Hann sá ekki til þess að stúlkan fylgdi skólafélögum sínum í náminu. Það var bara mitt mál að láta hana vinna upp það sem hún missti úr. Einnig tók hann barnið úr skólanum um jól þannig að hún missir af jólaballi skólans tvenn jól og hann leyfði henni aldrei að taka þátt í íþróttakeppnum eða gistinóttum þegar hans helgi var. Hann fór líka að skemma fyrir henni þegar hún tók þátt í tómstundum sem hann taldi vera „mínar“ tómstundir og eitra hug hennar gagnvart þeim áhugamálum. Svona atriði valda spennu inni á heimilinu.

Svo varð það úr að faðirinn flytur í sama bæjarfélag og við og þá fer maðurinn að birtast í skólanum á skólatíma þegar honum hentar og taka dóttur okkar án þess að láta mig vita, eða láta mig vita eftirá. Það kom fyrir að hann tók hana með sér norður yfir helgi þegar hún átti að vera hjá mér, án samráðs við mig. Auðvitað var ég ekkert sátt við þessa framkomu.

Nýr umgengnisúrskurður kemur vorið 2016 og samkvæmt honum átti faðirinn að fá umgengni aðra hverja helgi, öll vetrarfrí og páskaleyfi. Maðurinn sýnir engan sáttavilja, áfrýjar öllum úrskurðum til Innanríkisráðuneytisins og höfðar svo forsjármál haustið 2017.

Dóttir okkar kemur svo ekki heim eftir umgengni um áramótin 2017/2018.

Eftir að forsjármálið hófst þá versnaði hegðun hans gagnvart umgengnissamningi sýslumanns og hann virtist leika sér að því að brjóta hann, enda engin viðurlög við því. Ég fæ loks lögskilnað í nóvember 2017, eftir þrjú ár, og í byrjun desember 2017 er hann búinn að skrá sig í sambúð. Dóttir okkar kemur svo ekki heim eftir umgengni um áramótin 2017/2018.

Sambýliskona hans hefur enn í dag ekki hitt mig, né syni okkar og hún virðist hafa tekið virkan þátt í að skila dóttur minni ekki heim. Faðirinn er enn á sjó og þá er dóttir mín langdvölum í umsjá þessarar ókunnugu konu.

Hvaða skýringar fékkstu á því þegar dóttir þín kom ekki heim eftir áramótin?

Bara þá að hún vildi ekki koma heim því ég væri svo vond við hana og væri alltaf að skamma hana. Þetta kom mér algerlega í opna skjöldu því dóttir mín hafði látið mjög skýrt í ljós í viðtölum hjá fagfólki vegna forsjármálsins, að hún vildi jafna umgengni við mig og föður sinn. Sú skýrsla kom út í desember 2017. Það er eins og þessi niðurstaða hafi ekki hentað föðurnum sem rænir barninu nokkrum dögum seinna.

Þetta viðhorf hennar sýst ekki einvörðungu um  mig, stúlkan vill heldur ekki tala við bræður sína eða neinn annan í fjölskyldunni  minni, hvorki afa sinn eða ömmu eða frænkur sínar sem eru á sama aldri og hún. Ég trúi ekki að hún hafi tekið það upp hjá sjálfri sér.

Reyndirðu að tala við stúlkuna og fá hana heim?

Þegar ég reyndi að hringja var skellt á. Ég gat ekki séð hana á Facebook og ekki sent henni tölvupóst og þannig hefur þetta verið síðan. Það var klippt á allar samskiptaleiðir.

Faðir hennar rændi henni ekki bara þessi áramót, heldur hættir hún líka að mæta í skólann. Dóttir mín var því einangruð í rúma þrjá mánuði frá mér, bræðrum sínum, minni fjölskyldu, vinum, kennurum og öllum sem þekktu hana vel.

Kerfið úrræðalaust

Hvert er hægt að leita í svona aðstöðu?

Ég sneri mér til barnaverndarnefndar.  Málið var þegar hjá barnaverndarnefnd í mínu bæjarfélagi en faðirinn var fluttur í nærliggjandi bæjarfélag. Hún kom heim eina viku í janúar og var þá fyrst eins og á varðbergi gagnvart okkur en fór svo að slaka á og ég vonaði að það yrðu ekki frekari vandræði. Svo fer hún aftur til föður síns og kom ekkert heim eftir það. Og ekkert hægt að gera í því.

Mér var sagt að umgengnisforeldri gæti ekki tálmað umgengni. Það er eins og kerfið geri ráð fyrir því að það sé bara vonda lögheimilismamman sem geti komið í veg fyrir samskipi.

Sýslumaður, barnavernd og dómstólar eru úrræðalaus þegar svona mál koma upp. Ég velti alveg fyrir mér neyðarúrræðum eins og að fá aðstoð barnaverndar og lögreglu til að sækja hana. Maður vill auðvitað komast hjá því en ég spurði út í það. Mér var sagt að umgengnisforeldri gæti ekki tálmað umgengni. Það er eins og kerfið geri ráð fyrir því að það sé bara vonda lögheimilismamman sem geti komið í veg fyrir samskipi.

Fólk vill trúa að kerfin virki og margir eiga erfitt með að skilja hvað er að gerast í mínu máli. Það bætir ekkert hvað biðin eftir lausnum hjá sýslumanni er löng og mjög slæmt að þegar tálmanir byrja þá skuli ekki vera hægt að grípa inn í strax.  Það er hægt að vera með mál hangandi í kerfinu mánuðum og árum saman – hjá sýslumanni og dómstólum – og það er ekki unnið að því að laga samskipti við börnin meðan beðið er.

Faðirinn viðurkenndi að hafa sagt dóttur okkar inntak samkomulagsins sjálfur og sagði að hún hefði farið að gráta og hringt sjálf í neyðarlínuna

Í febrúar 2018 er svo gert bráðabirgðasamkomulag um umgengni fyrir dómi en faðirinn stóð aldrei við það samkomulag. Þá er dóttir okkar 11 ára að verða 12 ára. Við foreldrarnir samþykktum líka að við myndum hittast öll saman ásamt dóttur okkar og lögfræðingum og kynna dóttur okkar þetta fyrirkomulag í sameiningu. En það stóð faðirinn ekki við. Þegar sá fundur átti að fara fram kom hún ekki með honum. Á fundinum viðurkenndi hann svo að  hafa sagt dóttur okkar inntak samkomulagsins sjálfur og sagði að hún hefði farið að gráta og hringt sjálf í neyðarlínuna. Þannig að faðirinn setur þetta samkomulag okkar  í uppnám án þess að hafi reynt á það. Hann viðurkenndi líka að hafa lesið tölvupósta milli lögmanna okkar fyrir dóttur okkar, sem var að verða 12 ára.

Heldurðu að hún hafi í alvöru hringt í neyðarlínuna?

Hún gerði það en ég trúi ekki að henni hafi dottið það í hug sjálfri. Það er til skýrsla frá neyðarlínunni og þar kemur fram að hún sé grátandi og vilji ekki fara í skólann því hún sé hrædd um að mamma sín sæki sig.

En það kemur líka fram í skýrslunni að starfsmaður neyðarlínunnar ræddi líka við föðurinn í sama símtali sem bendir til að hann hafi verið á staðnum allt símtalið og fylgst með því sem dóttir okkar sagði.

Hvaða barn hringir í neyðarlínuna með svona erindi af eigin frumkvæði?

Þarna segist hún ekki vilja fara í skólann og hefur þá verið frá skóla í einhverjar vikur, hvernig fór það?

Í mars er mál okkar komið til barnaverndar því barnið var ekki að mæta í skóla.  Barnavernd leggur til áætlun í málinu þar sem stefnt var að því að dóttir okkar færi í skóla í bæjarfélagi föður, að komið yrði á samskiptum milli mín og dóttur minnar með fjölskylduráðgjafa, að við foreldrarnir mættum í viðtöl til barnaverndarstarfsmanns og að faðirinn færi í viðtöl hjá Heimilisfriði. Barnið yrði svo í jafnri umgengni við okkur foreldrana. Við skrifuðum bæði undir og ég vonaði svo heitt og innilega að þetta fyrirkomulag myndi ganga upp og ég færi að fá að hitta dóttur mína aftur.

Þarna er forsjármál komið í gang og ég útilokuð frá samskiptum við dóttur mína. Hann kom henni á endanum í skóla eftir meira en tveggja mánaða fjarveru og ég hafði samband við skólann. Ég fór ekki þá leið að birtast á skólalóðinni heldur gerði ég boð á undan mér og ræddi við kennara og skólastjóra. Ég hef algerlega farið eftir þeirra tilmælum eins og kemur fram í gögnum málsins en þetta var eina leiðin sem ég sá.

Þarna um vorið 2018 stendur dómsmál fyrir dyrum og ég fór fram á forsjárhæfnimat. Niðurstaðan úr því er í stuttu máli sú að ég er hæft foreldri og ekkert var sett út á mig. Það var sett mikið út á föður, m.a. fyrir að setja dóttur okkar í hollustuklemmu og láta hana þurfa að  velja á milli foreldra.