Mella eða maddama

siv

Ætlast menn virkilega til þess að ósmekkleg pólitík geti af sér smekklegan húmor?

Vændi verður víst seint talið fínt. Skírlífi var fundið upp til þess að tryggja ríkum körlum og voldugum einkaaðgang að konum og sú hugmynd að kona sem á kynferðislegt samneyti við marga menn sé skítug og óheiðarleg virðist ódrepandi þrátt fyrir breytta afstöðu til eignarhalds karla á konum. Verstar eru þó þær druslur sem hafa tekjur af lauslæti sínu. Það þykir mun verra að græða á kynferðislegu aðdráttarafli en félagslegri stöðu sinni, fjölskyldutengslum, pólitískum tengslum o.s.frv. enda hafa karlar í gegnum tíðina notað þær aðferðir sér til framdráttar.

Pólitískt vændi hefur alltaf þrifist á Íslandi og ekki síst í Framsóknarflokknum. Lengst af var Framsóknarflokkurinn maddama. Trygg eiginkona íhaldsins, maddama sem gaf sig út fyrir að vera frjáls og sjálfstæð en gapti upp í húsbóndann í hundslegri aðdáun og lapti upp eftir honum spekina. Hún hafði ekki gifst af einskærri ást, heldur af því að hún vildi fyrir alla muni verða maddama og það þýddi að hún varð að liggja undir Sjallanum. Og eymingja Framsóknarmaddaman sem hefur aldrei kunnað neitt annað en að vera maddama, nú er hún eiginmannslaus og hvað gerir hún þá? Jú, hún fer út á götuhorn til að húkka. Það er bara rökrétt og ekkert við öðru að búast í þessu fáræðissamfélagi.

Framsóknarflokkurinn á nefnilega mun meira skylt við mellu en Islam við hryðjuverkamenn. Auk þess eru mellur ekkert ómerkilegra fólk en pólitíkusar og ef einhver ætti að móðgast við skopmyndateiknara Morgunblaðsins, þá eru það mellurnar, fyrir að líkja þeim við þennan hugsjónalausa hentistefnuflokk. Hórur geta nefnilega vel verið hugsjónafólk. Framsóknarmaður getur það hinsvegar ekki.

Svo greyin mín hættið þessu væli. Þessi húmor afhjúpar nefnilega óþægilegan sannleika og það er það sem pólitískur húmor á að gera.

One thought on “Mella eða maddama

  1. ———————————-

    Eins og talað út úr mínum munni!

    Posted by: Ási | 18.04.2011 | 19:56:52

    „Skírlífi var fundið upp til þess að tryggja ríkum körlum og voldugum einkaaðgang að konum“ – þetta er örugglega bull, annað í greininni er dásamlegt.

    Posted by: Guðmundur Ólafsson hagfræðingur | 19.04.2011 | 9:58:41

    Semsé, Siv er mella þrátt fyrir allt?

    Posted by: Brynjólfur Ólason | 19.04.2011 | 10:09:16

    LOL!

    Posted by: Ari | 19.04.2011 | 10:17:03

    Jú Guðmundur minn. Valdamenn vildu vera vissir um að arftakar þeirra hefðu ‘hreint blóð’ og til þess þurfti að takmarka aðgengi annarra karla að konunum.

    Posted by: Eva | 19.04.2011 | 11:11:13

    Brynjólfur, það hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að Siv sé mella í þeim skilningi að standa á götuhorni og bjóða upp á drátt í skiptum fyrir peninga. Hinsvegar verður hún í meðförum listamannsins, holdtekja Framsóknarflokksins.

    Á árum áður teiknaði Sigmund Framsóknarmaddömuna með andlit flokksformannsins og oft birtust teikningar af Framsóknarmaddömmunni undir sæng hjá íhaldinu. Ekki tók nokkur maður því þannig að verið væri að gefa í skyn að kynferðislegt samband væri á milli formanna flokkanna. Hinsvegar verða menn skyndilega ólæsir á húmor þegar pólitískur melluflokkur er teiknaður sem mella með andliti konu sem hefur verið þokkalega virk í pólitísku hóriríi.

    Posted by: Eva | 19.04.2011 | 11:16:41

    Eva – Ég held að þú sét að rugla saman hjónabandi og skýrlífi.

    Posted by: Guðmundur Ólafsson hagfræðingur | 19.04.2011 | 20:06:02

    Ég á að sjálfsögðu við skírlífi fyrir og utan hjónabands. Skírlífi innan hjónabands veit ég ekki til að hafi náð útbreiðslu en sú hugmynd að kynlíf eigi ekki rétt á sér nema innan þessarar vafasömu stofnunar (allavega hvað konur varðar) leiðir af sér þá ömurð að þeir sem ekki ganga í hjónaband fara á mis við ástarlíf.

    Posted by: Eva | 20.04.2011 | 8:18:42

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *