Kardimommubærinn er hættulegt leikverk. Fullt af kvenhatri og hægri öfgum. Svo hættulegt að sænski leikstjórinn Sofia Jupither vill láta taka verk Egners úr umferð fyrir fullt og allt, það dugar ekkert minna til að hindra komandi kynslóðir í kvennakúgun og fasisma.
„Annars geta menn bara lifað og leikið sér“
Hægri öfgar? Yfirvaldið Í Kardimommubæ, bæjarfógetinn Bastían, telur skyldu sína að vera ljúfur í viðmóti og halda uppi góðum bæjarmóral. Hann heilsar öllum með sömu virktum og finnst skemmtilegra að skipuleggja bæjarhátíðir en að eltast við bófa. Menn skulu vera góðir og heiðarlegir en að öðru leyti mega þeir gera það sem þeim bara sýnist. Frekar anarkískt viðhorf hjá yfirvaldinu verð ég að segja.
Það er rangt hjá Sofiu að verkið boði að mannrán „gagnvart konum“ séu ásættanleg. Hið rétta er að Bastían bæjarfógeti fer að ræningjahúsinu til þess að frelsa Soffíu frænku úr klóm ræningjanna þótt ótti hans við ljónið hafi fram að því haldið honum í fjarlægð. Soffía kærir sig hinsvegar ekkert um að láta bjarga sér, ekki af því að hún sé haldin „Stokkhólmsheilkenni“, heldur hefur hún fundið valdafíkn sinni farveg.
„- það kveður lítt að körlum hér í Kardimommuborg“
Soffía er andstæða bæjarfógetans. Hún er stjórnlynd og hvöss, óhóflega ströng við Kamillu litlu og gagnrýnin á karlveldið í Kardimommubæ. Einkum er henni uppsigað við bæjarfógetann sem stendur sig ekki í því að handsama misindismenn. Ætla má að bæjarbragurinn í Kardimommubæ væri annar ef Soffía væri bæjarfógeti. Kannski kvenhatur Egners felist í því að setja hana ekki í valdastöðu? Eða felst hatrið í því að eigna konu stjórnsemi?
Soffía er ekki bara stjórnlynd í neikvæðri merkingu, heldur kvenskörungur. Hún gerir ræningjunum rækilega grein fyrir því að þótt hún kunni að þrífa og elda hafi hún ekki í hyggju að gera það á annarra forsendum en sínum eigin og það er ekki hún sem tekur skipunum frá þeim heldur öfugt. Það uppátæki ræningjanna að verða sér úti um húshjálp með þessari aðferð kemur þeim illilega í koll. Ég sé ekki kvenhatur í því að skapa kvenhetju sem lætur ekki vaða yfir sig og ég velti því fyrir mér hvernig senan í ræningjahúsinu hefði orðið samkvæmt feminiskum rétttrúnaði. En það eru óþarfa vangaveltur því feminiskur rétttrúnaður hefði hvorki leyft mannrán né þessa persónusköpun.
Ræningjarnir losa sig við Soffíu og þegar þeir láta greipar sópa í búðum bæjarins taka almennir borgarar lögin í sínar hendur og handsama þá. Ekki til að þóknast yfirvaldinu heldur til að þvinga yfirvaldið til aðgerða. Varla telja öfgasinnaðir hægri menn slíkt frumhlaup æskilegt en Bastían þakkar þeim fyrir hjálpina. Hann leggur sig fram um að láta sakborninga njóta vafans en þegar sannanirnar blasa við og það kemur í ljós að kökurnar og brauðin eru bara alls ekkert í sömu hillunni, nær hann fram játningu án nokkurs harðræðis.
„- og annast löngum uppþvottinn“
Í Kardimommubæ er fangelsun betrunarvist. Ræningjarnir njóta móðurlegrar umhyggju frú Bastían sem lýsir samstarfi þeirra hjóna við uppþvottinn þannig:
og alltid når jeg vasker opp, så tørker han for meg
Um 1950 gengu karlar sjaldan í húsverk en kvenhatrið felst kannski í því skapa kvenpersónu sem elskar manninn sinn og kann að meta karl sem tekur þátt í heimilisstörfum?
Bastíanhjónin eru ekki staðlaðar kynjaandstæður því Bastían er álíka mildur og eiginkonan. Hann fær hinn söngelska rakara bæjarins í lið með sér til þess að endurskapa útlit ræningjanna. Sjálfsmynd þeirra breytist og þá fer að langa til að tilheyra samfélaginu. Líklega sér Sofia Jupither það sem boðskap um að maður þurfi að vera eins og allir aðrir til að vera samþykktur. Almennt einkennir lífsgleði og friðsemd íbúa Kardimommubæjar og þarna er vissulega verið að afmá sérkenni þeirra sem hafa lifað á jaðri samfélagsins. Það má auðvitað gagnrýna (án þess að virða það höfundi til vorkunnar að vera barn síns tíma) en Sofia lítur fram hjá því að normalisering er oft þáttur í meðferð þeirra andfélagslegu og er ætluð til þess að auðvelda þeim að aðlagast samfélagi sem úthýsir glæpamönnum og rónum. Það eru ekki hægri öfgar.
„Húrra fyrir ræningjunum!“
Þegar kviknar í turni Tóbíasar kemur „sérfræðiþekking“ ræningjanna að góðum notum. Þeir ganga vasklega fram og bjarga turninum frá bruna. Þannig er slæm fortíð nýtt til góðra verka; þótt líf ræningjanna hafi verið neikvætt er reynsla þeirra ekki ónýt.
Ræningjunum eru gefnar upp sakir en í stað þess að senda þá aftur til sama lífs, útvegar bæjarfógetinn þeim áhugaverð störf. E.t.v. má gagnrýna Bastían fyrir að auglýsa ekki embætti en á móti kemur að þeir sem veljast til stjórnunarstarfa eru ekki ættmenni yfirvaldsins heldur þeir sem eru á atvinnuleysisskrá og hæfir til starfans. Kasper verður slökkviliðsstjóri, Jesper sirkusstjóri og Jónatan bakari. Þeir verða þannig fulltrúar meginstoða samfélags; öryggismála, menningar og viðurværis. Ekki í þeim tilgangi að sefa lýðinn með brauði og leikum (enda eru bæjarbúar upp til hópa sérdeilis ánægðir með að hafa anarkista í stöðu bæjarfógeta) heldur vegna þess að það er til bóta fyrir samfélagið að fá slökkvilið og sirkus og bakarinn er að leita sér að aðstoðarmanni. Eru þetta hægri öfgar?
Í lokasenunni trúlofast Kasper og Soffía frænku. Líklega er það samfélagssáttmáli fremur en girndarráð en varla dettur sænska gagnrýnandanum í hug að líta á það sem hægri öfgar eða kvenhatur? Hvort jafnræði muni ríkja í því sambandi er svo vafamál en hitt er ekki vafi hvort þeirra er líklegra til að ríkja yfir hinu.
Er þá karlhatur í Kardimommubæ?
Kvenpersónurnar þrjár í Kardimommubæ eru vissulega staðalmyndir. Kvenskörungurinn Soffía frænka, húsfreyjan frú Bastían, og Kamilla litla sem er hæfileikarík en undirokuð – ekki af feðraveldinu heldur konu. Felst kvenhatrið í þessum ímyndum? Eða felst það í staðalmyndum sem slíkum? Ef svo er þá er Kardimommubær allt eins karlhatursverk. Vitringurinn Tóbías, sá eini sem Soffía ber virðingu fyrir og eini karlinn sem er ekki dálítið kjánalegur, væri e.t.v. efni í feðraveldisfulltrúa en hann er nú ekki í neinu valdabrölti heldur aðallega að gá til veðurs. Hinn blíði Bastían stendur ekki undir nafni sem yfirvald og ógæfumennirnir láta algerlega að stjórn Soffíu frænku og bráðna eins og smér í höndum frú Bastían. Aðrar karlverur er aukapersónur, hvorki hetjur né skúrkar.
Hvort er öfgafyllra Egner eða Jupither?
Það er ekki bara sænski leikstjórinn sem hefur áhyggjur af kvenhatri Egners. Ég held reyndar að það sé lítil alvara í þessum áhyggjum en ég velti því fyrir mér hvert stefnir. Þarf að taka upp kynjakvóta í barnaefni? Og væri gagn af kröfu um módel eða er þetta kannski frekar spurning um smá skynsemi?
Ég á bók eftir James Finngarner: Politically Correct Bedtime Stories. Hér er smá sýnishorn. Mér finnst þetta bráðskemmtileg bók en halló, þetta er paródía. En kannski þarf barnaefni að vera í þessum dúr til að teljast ekki stórhættulegt? Eða er pc fólkið kannski bara að grínast?