Í félagsvísindum eru til tveir flokkar rannsókna, megindlegar og eigindlegar. Í umræðu um aðferðafræði kynjafræðinga ber á því viðhorfi að svokallaðar eigindlegar rannsóknaraðferðir komi í staðinn fyrir eða séu jafnvel betri en megindlegar rannsóknir og því sé fráleitt að tala um að kynjafræðirannsóknir standist ekki vísindalegar kröfur. Spurt er hvað þeir sem gagnrýna kynjafræðina hafi á móti eigindlegum rannsóknum. Mitt svar er þetta; ég veit ekki um neinn sem er á móti eigindlegum rannsóknum. Það er hinsvegar eitthvað mikið að því að nota eigindlega rannsókn eins og hún væri megindleg. Þetta tvennt er nefnilega ólíkt. Eigindleg rannsókn segir aðeins til um viðhorf og/eða reynslu þeirra sem tóku þátt og það er í mörgum tilfellum hrein og klár fölsun að draga almennar niðurstöður af eigindlegri rannsókn.
Hver er munurinn á þessum rannsóknaraðferðum?
Megindleg rannsókn leitar svara við hinu almenna. Valið er úrtak sem endurspeglar eins vel og hægt er það þýði sem á að heimfæra niðurstöðurnar upp á. Sömu spurningar eru lagðar fyrir alla þáttakendur og gengið þannig frá að svarmöguleikar séu takmarkaðir svo hægt sé að flokka svörin saman t.d. oft, stundum, sjaldan, aldrei.
Eiginleg rannsókn, ef hún er rétt unnin, þjónar allt öðrum tilgangi, nefnilega þeim að draga fram persónulega reynslu fremur en hið almenna. Slíkar rannsóknir byggja á viðtölum sem gefa dýpri sýn á viðhorf og reynslu og þar sem rannsakandanum gefst færi á að spyrja nánar út í reynslu þátttakenda um leið og spurningar vakna. Eigindlegar rannsóknir eru oft áhugaverðar því þær geta dregið fram sjónarhorn sem ekki koma fram í megindlegum rannsóknum og vakið spurningar sem er þá jafnvel hægt að leita svara við með megindlegum rannsóknum. Eigindlegar rannsóknir gefa hinsvegar ekki tölfræðilegar upplýsingar sem heimfæra má á allt þýðið.
Tvö dæmi um eigindlegar rannsóknir
Ég hef nefnt þessa rannsókn Thomasar Brörsen Smith sem dæmi um ævintýralegt fúsk. Tekin voru viðtöl við fimm handvalda einstaklinga og þeir lýstu reynslu af framkomu sem má flokka sem ósæmilegt áreiti. Í apríl sl spunnust umræður um þessa rannsókn og eigindlegar rannsóknir út frá þessum pistli Einars Steingrímssonar. Einn lesenda velti upp spurningum um stærð úrtaks. Hann benti á úttekt The Guardian og London School of Economics á uppþotunum í Englandi í ágúst 2011, úttekt sem byggðist á eigindlegri rannsókn, og velti upp spurningu um hversu stórt úrtak þyrfti að vera til að draga mætti almennar ályktanir af rannsókn.
Ég tel að umrædd rannsókn sé dæmi um það hvernig eigindlegar rannsóknir koma að gagni. Markmiðið með henni var alls ekki að finna hlutfall þeirra sem tóku þátt í uppþotunum eða að sýna fram á almenna andúð Englendinga á lögreglunni heldur að skoða þau viðhorf og reynslu sem var undirrót þessara óeirða. Reyndar var aðferðunum beitt samhliða því þátttakendur fengu einnig spurningalista með stöðluðum svörum. Þátttakendur voru 300 eða 2% þeirra sem tóku beinan þátt í uppreisninni. Ég hef ekki þekkingu til að meta það hversu stórt úrtak er viðunandi þótt ég leyfi mér að fullyrða að fimm manneskjur af 7.000 starfsmönnum Reykjavíkurborgar gefi ekki einu sinni vísbendingu um almenna reynslu. Ég tel þó annan mikilvægan mun á þessum tveimur rannsóknum og svaraði því þessari ágætu spurningu þannig:
Ólíkar forsendur
Munurinn á þessari klámvæðingarrannsókn og uppþotarannsókninni er sá að það er ekkert umdeilt að uppþot og gripdeildir áttu sér stað í London síðasta sumar. Það er hinsvegar skoðun fárra en ekki óumdeild staðreynd að vinnustaðir Reykjavíkurborgar séu gegnsýrðir af klámi.
Til þess að komast að því hvort vinnustaðir Reykjavíkurborgar séu gegnsýrðir af klámi, þyrfti að leggja spurningakönnun fyrir stórt úrtak sem er þannig samsett að það endurspegli þýðið sem best. Þannig ætti t.d. hlutfall kynja og aldurshópa sem taka þátt í rannsókninni að vera í samræmi við hlutföll innan heildarhópsins. Ef niðurstaðan yrði t.d. sú að 35% kvenna undir þrítugu segðust verða fyrir óþægindum í vinnunni vegna kláms en aðeins 0,2% karla yfir fimmtugu, þá væri mjög áhugavert að taka viðtöl til þess að varpa ljósi á það hvernig klámið kemur fram og hversvegna það angrar ungar konur meira en gamla karlmenn.
Svör 300 Breta um upplifun sína af atburðum sem koma heim og saman við raunveruleika okkar flestra, segja okkur eitthvað um þau viðhorf sem voru undirrót og afleiðing raunverulegra atburða. Flestir myndu þó telja að svör 300 Breta um upplifun sína af geimverum segðu meira um Breta sem trúa á geimverur en um geimverur. Á sama hátt segir klámrannsóknin meira um fólk sem er upptekið af klámi en klám á vinnustöðum borgarinnar. Það er út af fyrir sig áhugavert en bæklingurinn ætti þá að vera kynntur sem rannsókn á fólki sem er með klám á heilanum, en ekki sem rannsókn á klámi á vinnustöðum.