Fólk ER fífl

Merkilegt það sem fólk bloggar um þessa stórfrétt. Endalaust tuð um þroskastig karla, ábyrgð á innkaupum og bladíbla. Sér enginn hvað er verið að gera þeim sem búa við verslunarfíkn?

  • Kvennaathvarf fyrir konur sem eru búa við óreglu og ofbeldi heima hjá sér. Gott mál og þarft. Þær fá fræðslu og stuðning til að koma sér úr vonlausum samböndum sem gera líf þeirra erfiðara.
  • Karlaathvarf fyrir karla sem þjást vegna verslunaræðis eiginkonunnar. Nei, það er aldeilis ekki eins gott mál og þarft, vegna þess að hér er ekki verið að takast á við vandamál, heldur að gera það bærilegra að kóa með eyðsluklónni, allavega rétt á meðan hún er að næra fíkn sína.

Karlar þurfa líklega sjaldan á ‘athvarfi’ að halda á meðan fullkomlega eðlileg kona kaupir jógúrt og uppþvottalög. Mér finnst líklegra að þeir sem noti sér slíka aðstöðu séu makar verslunarfíkla. Karlagrey sem fara með í innkaupaferðina, ekki af því að þeir geti ekki horft á boltann heima hjá sér, heldur af því að þeir ímynda sér að með nærveru sinni geti þeir haft áhrif á það hvað er keypt. Alveg eins og kona alkóhólistans sem þvælist með honum á skemmtistaði eða í partý sem hana langar ekkert í, til þess að reyna að stjórna drykkjunni.

Til að byrja með gengur allt vel. Það vantar jógúrt og uppþvottalög og sitthvað fleira og af því að það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að kaupa líka kex, sokka á krakkana, sniðugan dósahníf og kannski tvo aðra hluti sem ná deila um hvort vanti beinlínis, segir hann ekkert. Samt finnur hann fyrir þessum undarlega kvíðahnút undir þindinni. Frúin rekur augun í tekrúsir á tilboðsverði og hnúturinn herðist. Hann skilur ekkert í vitleysunni í sjálfum sér því það er alveg satt, verðið er mjög lágt og svosem allt í lagi með þessar krúsir. Og jújú, það er þannig séð allt í lagi að kaupa þessa peysu á drenginn… Það er ekki fyrr en frúin er farin að máta skó, sem hana vantar svo sannarlega ekki, sem hann horfist í augu við að hann er raunverulega ósáttur og að hann hefur enga stjórn á ástandinu. Allavega ekki á meðan kreditkortinu hennar er ekki hafnað.

Það er ekki hægt að láta fíkil hætta en stundum er hægt að trufla tiltekið fyllirí eða verslunarferð. (Enda þrifist meðvirkni ekki nema vegna þess að kóarinn sér stöku sinnum einhvern árangur af stjórnsemi sinni.) Það er auðvitað óþolandi fyrir verslunareigendur ef kaupæðið er stoppað áður en það nær hámarki en það er ekki hægt að banna mökum verslunarfíkla aðgang að búðinni. Til þess að draga úr líkunum á því að kóarinn spilli sölu með nærveru sinni, gefur verslunarrisinn honum aðstöðu til að sleppa takinu og gleyma þjáningunni yfir úrræðaleysinu. Eða geyma hana öllu heldur, því tíminn sem hann hefur sóað í að elta ruglukolluna er að eilífu glataður, álagið brýtur hann smátt og mátt niður og vísa gleymir aldrei.

Viðbrögð plebbanna við þessu uppátæki Hagkaupa eru fyrst og fremst spurningar um kynhlutverk og kynjafordóma! Það er út af fyrir sig snjallt hjá markaðsdeild Hagkaupa að draga athyglina að kynjafordómum með því að hafa athvarfið svona rosalega karlmiðað. Annars hefði kannski einhver gagnrýnt Hagkaup fyrir að ýta undir aumingjasjúkdóm sem hjá konum tekur oft á sig dálítið aðra mynd en hjá körlum. Þetta er svona svipað og ef skemmtistaðir byðu konum drykkjurúta upp á hvíldarherbergi, þar sem væri hægt að horfa á sjónvarpið, spjalla í rólegheitum og leggja sig, þegar eiginmaðurinn er orðinn dauðadrukkinn, fremur en að bjóðast til að hringja á leigubíl.

Deildu færslunni

Share to Facebook