Feitabollufræðin á leiðinni?

feit

Af hverju þarf allt gott að snúast upp í einhverja vitleysu? Af hverju þarf fólk endilega að taka gott konsept og sníða gervivísindagrein í kringum það?

Heilsubyltingin var þörf. Gott mál að losa sig við aukakíló, borða fleiri vínber en karamellur  og hreyfa sig reglulega. En svo var það allt í einu orðið að einhverjum fokkans trúarbrögðum. Þeir sem ekki höfðu áhuga á líkamsrækt hlutu þar með að vera hrikalega óheilbrigðir og þunglyndir og með lága sjálfsvirðingu. Næringarfræðin fór út í meira og meira kjaftæði og þegar maður spurði hvað fólk hefði fyrir sér í því að þessi og hin fæðutegundin væri skaðleg, nú eða þá allra meina bót, varð ýmist fátt um svör eða þá vísað í gervirannsóknir sem byggðu á öðrum gervirannsóknum. Ég gafst upp á að fylgjast með þessu þegar kartöflur voru settar í flokk með áfengi sem eitur fyrir mannslíkamann og fékk endanlegt ógeð þegar kona reyndi að selja mér þá hugmynd að hægt væri að lækna krabbamein með aloe vera en læknar vildu það ekki því þeir græddu svo mikið á að hafa fólk veikt.

obeseJákvæða sálfræðin var frelsandi. Maðurinn getur sjálfur breytt lífi sínu, hann þarf ekki að bíða eftir að tækifærin komi til hans, hann getur sótt þau sjálfur og já, ef allur heimurinn er á móti mér, þá gæti verið að ég sé hreinlega of upptekin af því neikvæða. Ég þarf ekki að láta aðra stjórna líðan minni. Hugsun mín hefur áhrif. En svo var þetta allt í einu komið út í bull á borð við það að menn hefðu sjálfir kallað yfir sig krabbamein, stríð og náttúruhamfarir og að maður gæti eignast skrilljón trilljónir bara með því að visjúalæsa. Allt saman klætt í vísindabúning og kallað quantum physics – og þá er bara nóg komið.

Kvenfrelsi er frábær hugmynd. Ekkert sjálfsagðara en að konur hafi sömu tækifæri og karlar og kynferði á ekki að ráða úrslitum um það hvort tekið sé mark á okkur. En í dag snýst baráttan um það að túlka allt sem sagt er og gert sem misrétti og finna klám í hverju horni. Ruglið er svo rökstutt með „rannsóknum“ sem standast engar vísindalegar kröfur. Þessi djöflavísindi heita kynjafræði, eru kennd í háskólum og njóta opinberra styrkja.

the-full-body-project
Og nú eru „fat studies“ að halda innreið sína á Íslandi.  „Líkamsvirðing“ er það kallað og er hið besta mál. Gott að vinna gegn skefjalausri útlitsdýrkun og innleiða þá hugmynd að það sé ekki dauðasynd að vera í efri mörkum kjörþyngdar. Fínt að benda á að spik fyrirgeri ekki rétti fólks til mannvirðingar, feitt fólk mætir örugglega oft fordómum og já, það er sannarlega ástæða til að krefja megrunarfrömuði svara um það hvaðan þeir hafi visku sína.  En samt – bíddu aðeins – enska orðið er „fat acceptance“, og „fat studies“ ganga út frá því að mismunun gagnvart feitum sé stærra vandamál en offitutengdir sjúkdómar, heyri ég í viðvörunarbjöllum, fokk já.

Því er haldið fram að megrun skili engum árangri, sem er rangt. Fyrir nokkrum vikum hélt ung íslensk kona því fram í grein um líkamsvirðingu að börn niður í fimm ára vildu frekar missa handlegg en fitna. Þessi staðhæfing reyndist byggð á nokkrum viðtölum í sjónvarpsþættinum 20/20. Ég er viss um að þessi unga kona hefur ekkert nema gott í huga og ég er því sammála henni um að það er ástæða til að sætta okkur við að eðlilegar konur eru ekki allar hávaxnar, mjóslegnar, með c-skála brjóst og þykkar varir. Ég er svo rosalega sammála því að ég hef sjálf risið gegn þessu útlisrugli með því að birta nektarmyndir af sjálfri mér með miðaldra brjóstum, appelsínuhúð og aðeins þeirri förðun sem ég sjálf nota daglega. Rétt eins og ég tók þátt í andófinu gegn skyndibitamenningunni með því að bjóða upp á baunarétti í veislum á meðan heilsufæði var flokkað sem öfgar (er þó sek um að hafa aldrei verið dugleg við að stunda líkamsrækt.) Rétt eins og ég nota galdur sem mótvægi við þá hugmynd að ég sé ofurseld illum örlögum. Rétt eins og ég hef snarlega leiðrétt hugmyndir karlmanna um að þeim leyfist að tala niður til mín af því að ég er kona. Og sagt og gert það sem mér bara sýnist.

Svo já, ég fellst á líkamsvirðingu, svo langt sem það nær. En aðeins svo langt.  Viðurkennum endilega að fólk sem lítur út fyrir að vera úr plasti er ekki til í alvöru. Viðurkennum að það er ekki heilbrigt að líta út eins og beinagrind í latexgalla. Viðurkennum hrukkur og grá hár sem eðlilegan hlut af lífinu. En ég er ansi hrædd um að þetta snúist ekki um það. Ég spái því að innan fárra ára verði líkamsvirðingarumræðan á Íslandi komin út í algert bull. Það verði staðhæft að rannsóknir sýni að fólk sem hreyfir sig sé ekkert heilbrigðara en við hin. Að rannsóknir sýni að feitir lifi betra kynlífi en grannir, séu meiri dýravinir og betri bílstjórar, að það sé ekkert neikvætt við offitu og að feitir séu almennt göfugra fólk en grannir og umfram allt óskaplega kúgaðir. Ég verð ekki hissa þótt komi fram hugmyndir um að atvinnurekendur taki upp feitabollukvóta.

Deildu færslunni

Share to Facebook