Af hverju eru konur ekki hagyrðingar?

Les_sirenes_visitees_par_les_muses,_lalyre

Fyrir daga internetsins lá ég stundum andvaka af áhyggjum af því að brageyra þjóðarinnar væri að fara til fjandans. Þeir  einu sem mér vitanlega ortu undir hefðbundnum bragarháttum voru svokallaðir hagyrðingar. Þetta voru mishnyttnir karlar, flestir komnir yfir fertugt, sennilega bændur eða a.m.k. hestamenn, sem köstuðu milli sín kersknivísum á þorrablótum og létu einstaka ferskeytlu fylgja kjörseðlinum í kosningum.

Svo kom elsku internetið. Óðara spruttu upp spjallsíður og sjá; ungir menn ortu, ekki bara einfaldar ferhendur, heldur einnig þríhendur, limrur og ýmis flóknari ferhenduafbrigði, svosem oddhendur, hringhendur og samhendur, margir bara mjög snoturlega. Ekki sá maður mikla tilburði í þessa veru hjá konum. Og sér ekki enn.

Brageyrað dó ekki, það lifir góðu lífi og ný kynslóð hagyrðinga  kastar á milli sín vísum á netinu. Hagyrðingar Baggalúts nota dulnefni og ef eru konur í hópnum þá koma þær fram sem karlar og nota karlkynsnöfn og myndir af körlum. Ég verð stundum vör við það á facebook að menn séu að kveðast á. Af þeim sem ég fylgist með er það einkum Gísli Ásgeirsson sem stofnar til vísnaleikja við mikinn fögnuð en ég minnist þess ekki að hafa séð nema eina konu kveðast á við aðra netverja.

Það sama á við um kvæði sem menn taka upp sem söngtexta. Kvæðaskáldin okkar heita Hörður, Kristján, Karl Ágúst, Hallgrímur, Bubbi, Bragi Valdimar… Jújú, það eru til konur sem yrkja mikil ósköp, Gerður Kristný ber höfuð og herðar yfir ljóðskáld sinnar kynslóðar og Heiða Eiríks og Birgitta skrifa popptexta (og áreiðanlega einhverjar fleiri konur líka) en þeir sem yrkja undir hefðbundnum bragarháttum í dag eru flestir karlar, í það minnsta þeir sem birta vísur á opinberum vettvangi.

Hvernig stendur á þessum kynjahalla? Stúlkur alast upp við söng og kveðskap ekkert síður en drengir. Það er ekkert sem bendir til þess að konur hafi verra brageyra eða að það liggi neitt betur við karlheilanum að raða saman orðum. Er skýringin sú að konur birti síður það sem þær skrifa eða hafa þær minni áhuga á þessari kvæðahefð?

Ég freistast til þess að álykta að skýringin á fjarveru kvenna frá hagyrðingaþráðum sé ekki sú að þær séu með allar skúffur fullar af ferskeytlum. Ég verð oft vör við aðra ljóðagerð kvenna, á bókamarkaðnum, á netinu og meðal félaga minna en ekki þekki ég neina konu sem yrkir undir hefðbundnum bragarháttum eingöngu fyrir vini og fjölskyldu. Ég held að konur hafi bara síður áhuga á þessari hefð.

Bara svo það sé á hreinu þá lít ég ekki á þetta sem neitt vandamál, mér finnst allt í lagi að konur hafi ekki áhuga á að yrkja hringhendur. Mér finnst þetta hinsvegar forvitnilegt, svo ef einhver kann skýringar á þessum kynjamun eða er með tilgátu, þá hefði ég gaman af að heyra hana.

Uppfært: Síðan þessi pistill var skrifaður hef ég kynnst FB hópnum Boðnarmiði sem er vettvangur fyrir hagyrðinga til að birta vísur. Þar taka amk 3 konur virkan þátt og nokkrar til viðbótar hafa einhverntíma birt eitthvað þar. En karlarnir eru miklu, miklu fleiri.

Deildu færslunni

Share to Facebook