33 ástæður til að uppræta feminisma

image68– inngangur að pistlaröðinni 33 ástæður til að uppræta feminisma

Ég er með ofnæmi fyrir tvennu, feminisma og tóbaksreyk.

Ég fékk skyndilegt ofnæmi fyrir reyk á aldamótaballinu á Egilsstöðum, lenti í andnauð og varð beinlínis hrædd. Í dag er ég svo viðkvæm fyrir reyk að ég finn tóbakslykt úr mikilli fjarlægð. Stundum finn ég reykjarlykt þótt enginn sé að reykja, sérstaklega ef ég er stressuð og stödd í litlu rými, t.d. strætó eða lyftu.

Ég er líka ofnæm á feminisma. Ég finn fyrir áróðrinum, þvælunni, lyginni, úr fjarlægð, rétt eins og reyknum og já það kemur fyrir að ég oftúlka meinleysisleg skilaboð. Og þessvegna skil ég hvernig feministum líður gagnvart kvennakúgun og klámi, viðbragðskerfið í þeim er ofvirkt. Feministar finna sig stöðugt knúna til að vara okkur við, og það eru góðar ástæður fyrir því að þeim líður svona þótt viðbrögðin séu úr takti við raunveruleikann.

Reykskynjarinn pípir stöðugt

Ég skil þau já.  En þetta er samt dálítið vont. Að búa í samfélagi sem er heltekið af feminisma er eins og að búa með reykingamanni sem er svo eldhræddur að hann tekur ekki annað í mál en að vera með þrjá reykskynjara í eldhúsinu. Þeir fara allir í gang í hvert sinn sem maður ristar brauð og sambýlingurinn telur að það sé sönnun þess að eldhættan sé jafnvel ennþá meiri en hann hélt. Heimilisfólkið hættir að rista brauð í von um að fá frið en það verður bara til þess að sá eldhræddi tekur upp á því að prófa reykskynjarana á klukkutíma fresti með því að reykja í eldhúsinu.

Maður þarf ekki einu sinni að vera með reykingaofnæmi til þess að finnast ástandið óbærilegt. Maður vill ekki búa við stöðugt reykskynjaragarg. Því síður þegar það er sá eldhræddi sjálfur sem setur reykskynjarann í gang og staðhæfir að þetta séu ekki fölsk reykboð þar sem tóbaksreykurinn sé alvöru reykur. Þegar sambýlingurinn kórónar svo ruglið með því að harðneita að skipta um rafhlöðu í reykskynjara sem pípir stöðugt, heldur sprettur upp og hefur æðisgengna leit að ímynduðum eldi í hvert sinn sem bilaði reykskyjarinn fer í gang, þá hlýtur maður að fá nóg.

Undanfarið hef ég hundsað feminísk reykboð. Þessa þindarlausu umfjöllun um kynbundið ofbeldi, klámvandamál og kvenhatur. Ég var orðin ennþá þreyttari á nöldrinu í sjálfri mér en pípinu frá femninskum reykskynjurum en auk þess hefur ástandið verið skárra undanfarnar vikur en það var í vetur. En nú er tóbakslykt í loftinu og reykskynjaragargið alveg að bresta á. Ég veit að markmið þeirra er ekki að gera mig brjálaða en vitið hvað, stundum líður mér svona:

Í gær fór ég að hugsa um hvort væri æskilegt taka biluðu reykskynjarana úr sambandi og nota bara þá sem eru í lagi (t.d. almenna mannréttindastefnu.) Á nokkrum mínútum fann ég 32 ástæður til að uppræta feminisma. Kannski segi ég ykkur frá þeim þegar ég er búin að lesa þessa frétt, þessa og þessa og horfa á þetta viðtal. Mig langar til þess að þið skoðið þessar fréttir líka en ég held af því að mörg ykkar nenni því ekki og verjið tímanum frekar í klámvæðinguna hjá Wow Air og aðrar feministafréttir.

 

Deildu færslunni

Share to Facebook