1. Við þurfum ekki feminisma til að tryggja jafnrétti

1Og nú er ég búin að lesa fullt af fréttum sem skipta máli og get haldið áfram þar sem frá var horfið.

Fyrsta og augljósasta ástæðan fyrir því að við ættum að uppræta feminisma er sú að við höfum ekkert með hann að gera. Ekki frekar en við höfum neitt með það að gera að hafa þrjá reykskynjara í eldhúsinu. Við erum með ágætt brunavarnakerfi sem kallast mannréttindastefna. Ofhlæði af lélegum, ofnæmum reykskynjurum sem vara við eldsvoða í hvert sinn sem einhver ristar brauð, hjálpar ekki til og getur valdið skaða. Og það er eins með feminismann.

Það er engin þörf fyrir feminisma í okkar heimshluta. Við þurfum jafnréttisstefnu að sjálfsögðu en ekki feminisma. Í  þriðja heiminum er þörf fyrir kvenfrelsisstefnu en ekki hina vestrænu klámfóbíuhreyfingu.

Og plís hlífið mér við kosningaréttarrökunum því ofnæmisviðbrögð mín gagnvart þeim eru orðin svo sterk að ég bara æli. Þótt íslenskar konur hafi ekki fengið kosningarétt fyrr en heilum 5 árum síðar en meirihluti íslenskra karla  (og reyndar fengu fátækir karlar ekki kosningarétt fyrr en konur fengu hann, fram til 1915 voru það ekki „karlar“ sem höfðu kosningarétt heldur fjárhagslega sjálfstæðir karlar) þá þýðir það ekki að við þurfum að sitja undir endalausu bulli um að íslenskar konur búi við feðraveldi. Auk þess var barátta kvenna fyrir kosningarétti fyrst og fremst hagsmunabarátta efri stéttanna. Suffragetturnar voru engir sósíalistar, þær voru flestar hægri sinnaðar menntakonur úr efri millistétt.

Við þurfum ekki feminisma til að tryggja jafnrétti.

Deildu færslunni

Share to Facebook