Kynjakvótar eru ekki aðeins til þess fallnir að gera lítið úr konum heldur eru þeir beinlínis dæmi um mismunun á grundvelli kynferðis.
En feminísk kynjamismunun birtist ekki aðeins í kynjakvótum. Hún birtist einnig í kynbundnnum hæfnikröfum. Nú orðið þurfa konur oft að uppfylla önnur skilyrði en karlar til þess að eiga möguleika á sömu störfum. En hvað er það annað en mismunun á grundvelli kynferðis ef smávaxinn karlmaður á ekki sama möguleika á starfi og kona sem er honum jöfn, og í sumum tilvikum minni að líkamsburðum?
Kynjamismunun birtist einnig í sérstökum styrkjum og annarri fyrirgreiðslu til kvenna í námi og atvinnulífi.
Slíkir styrkir eru ekki veittir á þeirri forsendu að þær konur sem þá þiggja þurfi meira á stuðningi að halda en karlar, enda ekkert sem styður þá hugmynd að konur eigi neitt erfiðara en karlar með að komast í nám eða stofna fyrirtæki. Kynbundnir styrkir eru veittir á þeirri forsendu að fjölga þurfi konum í tilteknum greinum. Fyrir því eru engin rök önnur en þau að jöfn kynjahlutföll séu æskileg í sjálfu sér, sem er auðvitað ekkert annað en pólitísk skoðun. Þetta merkir að vegna einhverra ímyndaðra heildarhagsmuna, og vegna þeirrar fölsku hugmyndar að karlar séu fæddir til forréttinda, á einstaklingurinn Jón, minni möguleika á fyrirgreiðslu en einstaklingurinn Gunna.
Og það, börnin mín góð, er kynbundin mismunun.