Tók mig 2 mánuði

Það tók mig 2 mánuði í rólegheitavinnu að éta á mig brjóst eftir Hótelið. Ég vissi reyndar að það yrði dálítil brennsla í vélsmiðjunni en kommon, það er ekki liðin vika og ég hef strax rýrnað á röngum stöðum. Samt ég ég eins og hross í afmæli.

Forstjórinn byrjar hvern morgun á því að spyrja mig hvað ég hafi verið að gera í nótt, með einhverju hálfgildings skítaglotti. Mér hefur ekki hugkvæmst neitt skondið svar svo ég segi bara sannleikann, að ég hafi grjótsofið í hausinn á mér. Honum virðist samt alltaf þykja næturlíf mitt jafn áhugavert. Honum yrði líklega þokkalega skemmt ef hann vissi hvað ég ætla að gera eftir vinnu í dag.

Sé ekki fram á

Sé ekki fram á að blogga af neinum krafti á meðan ég er í þessari vélsmiðjuvinnu. Það er reyndar stórfínt að komast í smá hamagang um tíma, veitir ekki af að koma hreyfingu á blóðið. Auðvitað er svona vinna í eðli sínu leiðinleg en það er ákveðin hvíld í því að hlaupa í eitthvað sem er hægt að gera hratt og krefst engrar vitrænnar hugsunar og maður finnur ekki fyrir því hvað þetta er gelt og firrt þegar maður veit að þetta eru bara nokkrar vikur. Svo erum við Sigrún líka svo helvíti fínar saman að karlmennin hafa ekki við okkur þannig að með aðrar eins valkyrjur gæti þetta jafnvel tekið ennþá styttri tíma en reiknað er með.

Ég er búin að koma heimasætunni í skóla, hún byrjaði í dag og líst bara vel á sig.