Vöðvarækt

Um síðustu helgi var hægri handleggurinn á mér orðinn eins og á Möggu stera en sá vinstri eins og á Óla Skans. Síðan hef ég snúið sveifinni með vinstri hendinni og er svona hvað úr hverju að verða symmertrisk aftur.

Segi ekki að þetta sé gefandi starf en hvað er eiginlega að fólki sem borgar sig inn í líkamsræktarstöðvar þegar er hægt að ná sama árangri án þess að klæða sig eins og fáviti, vera ofurseldur einhverri hallæris stuð tónlist og fá borgað fyrir það í þokkabót?

Í sveitinni

Ég hélt á varalitnum þegar Sigrún renndi í hlað í morgun, 5 mínútum of snemma og rauk út með ómálaða neðri vör. Reyndar ekki í minipilsi og á hælum því þótt það hefði verið mun huggulegra reikna ég ekki með að körlunum hefði orðið mikið úr verki ef ég hefði flaggað ómótstæðilegi flóðbylgju lærapoka minna og ekki vill maður nú skaða hagsmuni fyrirtækisins. Halda áfram að lesa

Sigrún hefur tekið umkvartanir

Sigrún hefur tekið umkvartanir mínar um skort á áhorfanlegum karlmönnum í vélsmiðjunni alvarlega. Allavega verðum vér kerlingar á Nesjavöllum um helgina, væntanlega í fríða karla flokki.

Ég ætti að vera sofnuð en þar sem heimasætan valdi einmitt þetta kvöld til að leggja drög að nýjum og dramatískum kafla í sápuóperu heimilisins, reikna ég með að verða í tussulegra lagi í fyrramálið. Það var svosem auðvitað. Ojæja, Sigrún sækir mig klukkan 7 svo ég hef klukkutíma til að smyrja á mig hrukkukremi og æfa mig í að vera kókett áður en ég hitti alla þessa dásemdar karlmenn.

200%

Ég hélt að ég væri komin í feitt í vélsmiðjunni en um leið og ég birtist á staðnum sendi Eigandinn blóma fyrirtækisins á Nesjavelli svo ég hef unnið með eintómum kellingum og svo örfáum harðgiftum öðlingsmönnum. Allir töffararnir í sveitinni og vita ekki einu sinni að ég er til. Þetta er skandall. Gerir annars ekkert til, ég er hætt að leita, þetta er bara eins og með kaffið, maður hellir í bollann af gömlum vana þótt mann langi hreint ekkert í kaffi.

Í gær leit ég aðeins á einkamal.is til að gá hvort þar væru einhverjir nýir og spennandi karlmenn. Svo er ekki. Allavega rakst ég ekki á þá. Eitt finnst mér voðalega skrýtið á einkamálavefnum og það er allt þetta fólk sem lofar 200% trúnaði. Hvaða bull er það? Hvernig getur trúnaður verið meira en fullkominn? Kannski er átt við hið gagnstæða; sá sem lofar 200% trúnaði tekur t.d. þátt í orgíu með nokkrum þjóðkunnum mönnum og konum og fer svo út um allt og lætur fólk vita, bara til öryggis, að hann hafi aldrei átt neitt samneyti við aðra orgíuþátttakendur???

Kaffistofuspjall

-Alltaf verið að skíta atvinnurekendur út og væna þá um arðrán. En hvað um starfsmenn sem slóra í vinnunni og tilkynna veikindi á mánudögum? Maður er í rauninni búinn að kaupa vinnuframlag og hvað heitir það ef starfsmaður svíkur mann um það sem maður greiðir umsamið verð fyrir? Hvað heitir það? þusar Eigandinn og þótt ég sé honum hjartanlega sammála skil ég ekki alveg þessa umræðu í þessum hópi fólks. Halda áfram að lesa

Hádegismatur

Ég er að hugsa um að lögsækja fyrirtækið sem sér um hádegismatinn fyrir okkur. Reyndar á vélsmiðjan heiður skilinn fyrir að sjá til þess að við fáum mat í hádeginu, það er ekkert sem fer verr í skapið á mér en að vera matarlaus í þrælavinnu, nema ef vera skyldi að vinna með letingjum og hér eru allir hörkuduglegir og ég hef aldrei verið svöng. Maturinn er samt hræðilegur og ég er nú ekki matvönd. Hef t.d. aldrei skilið hvað fólk hefur út á mötuneyti ríkisspítalanna að setja, það er bara prýðilegt mötuneyti. Halda áfram að lesa

Firrt

Marxisk firring; beygja, sveifla, smella, snúa, beygja, sveifla, smella, snúa… allan daginn, alltaf eins og maður veit ekki almennilega til hvers, sér aldrei afurðina nema sem stæðu af plastböggum sem eru settir í gám. Óljós hugmynd um endanlegt notkunargildi; það er ekki hægt að láta sér þykja vænt um grilljón svarta plastbagga. Halda áfram að lesa