Þegar Ómar kjamsaði á kjömmunum

LustÍ umræðunni um hina alræmdu klámvæðingu og hlutgervingu kvenna, ber nokkuð á þeirri hugmynd að það sé nýnæmi að karlmenn líti á konur sem kynferðisleg þarfaþing. Í gær sá ég umræðu á netinu þar sem sú skoðun kom fram að í gamla daga hafi karlremba birst í því að líta á konur sem passivar og hjálparvana verur sem óþarfi væri að spyrja álits en í dag líti karlrembur ekki á konur sem viðkvæmar verur sem þarfnist verndar, heldur sem kynlífsleikföng.

Ég efast um að þarna hafi orðið nokkur stökkbreyting á. Lítum aðeins á þá dægurlagatexta sem fyrri kynslóðir ólust upp við. Ómar Ragnarsson söng um töffarann sem fór á sveitaball og gafst næði „til að gramsa þar og kjamsa þar á kjömmunum, jafnvel á ömmunum“. Halda áfram að lesa

Minn ruslagámur er snyrtilegri en þinn!

„Heimska heimska kerlingarhelvíti!!!!!“

„Geðveika pakk!!“

„Þetta voru náttúrulega útlendingar.“

„Viðbjóðslegu kvikindi!“

„Hverskonar ógeðsfólk gerir svonalagað?“

„Hvílíkir grimmdarvargar!“

Svo mælti sú andlega heilbrigða þjóð sem hvern virkan dag fleygir 3 mannsfóstrum í ruslagáma sjúkrahúsanna. Í yfirgnæfandi meirihluta heilbrigðum fóstrum fullorðinna, heilbrigðra mæðra. Fóstrum sem voru deydd af þægindaástæðum.

Nei ég er ekki að stinga upp á neinum réttlætingum fyrir ungbarnamorðum en ég leyfi mér að efast um að skýringin sé einfaldlega sú að foreldrarnir séu geðveikir grimmdarvargar og viðbjóðsleg útlendingakvikindi.

Ættum við kannski að slaka aðeins á grjótkastinu á meðan við kíkjum í okkar eigin ruslagáma?

Kaþólska kirkjan biðst afsökunar

Kaþólska kirkjan biðst afsökunar. Þá hlýtur nú öllum að líða betur er það ekki?

Ónei! Það líður engum rassgat betur þótt kaþólska kirkjan biðjist afsökunar. Enda er opinber afsökunarbeiðni frá stofnun bara leiksýning til að róa fólk.

Stofnanir bera vissulega ábyrgð gagnvart þolendum starfsfólksins að því leyti að þeim er skylt að grípa til viðeigandi rástafana þegar upp kemst um óhæfu. Hinsvegar er það ekki stofnunin sem slík sem bregst skyldu sinni heldur eru það manneskjur.

Afsökunarbeiðni í eðli sínu persónuleg. Það er hreinlega ekki trúverðugt að ópersónuleg stofnun iðrist gjörða starfsmanna sinna. Þær persónur sem enn eru á lífi og brugðust á sínum tíma, ættu að biðja þolendurna afsökunar á sínu eigin skeytingarleysi. Allt í lagi að gera það opinberlega en þá líka augliti til auglitis. Þ.e.a.s. að því tilskildu að þeir sem í hlut eiga iðrist framkomu sinnar. Það er nefnilega heldur ekkert gagn í afsökunarbeiðni ef hugur fylgir ekki máli.