Kaþólska kirkjan biðst afsökunar

Kaþólska kirkjan biðst afsökunar. Þá hlýtur nú öllum að líða betur er það ekki?

Ónei! Það líður engum rassgat betur þótt kaþólska kirkjan biðjist afsökunar. Enda er opinber afsökunarbeiðni frá stofnun bara leiksýning til að róa fólk.

Stofnanir bera vissulega ábyrgð gagnvart þolendum starfsfólksins að því leyti að þeim er skylt að grípa til viðeigandi rástafana þegar upp kemst um óhæfu. Hinsvegar er það ekki stofnunin sem slík sem bregst skyldu sinni heldur eru það manneskjur.

Afsökunarbeiðni í eðli sínu persónuleg. Það er hreinlega ekki trúverðugt að ópersónuleg stofnun iðrist gjörða starfsmanna sinna. Þær persónur sem enn eru á lífi og brugðust á sínum tíma, ættu að biðja þolendurna afsökunar á sínu eigin skeytingarleysi. Allt í lagi að gera það opinberlega en þá líka augliti til auglitis. Þ.e.a.s. að því tilskildu að þeir sem í hlut eiga iðrist framkomu sinnar. Það er nefnilega heldur ekkert gagn í afsökunarbeiðni ef hugur fylgir ekki máli.

Þegar vottar Jehóva banka upp á

Um daginn talaði ég við konu sem er svo hrædd við áhrif neikvæðra hugsana og tilfinninga að hún þorir varla að horfa á fréttirnar. Það er sko svona rosalega öflugt þetta aðdráttarlögmál að maður bara síkrítar til sín ógæfu ef maður horfist í augu við stríð og aðrar óþægilegar staðreyndir. Ég velti því fyrir mér hvað hún ætlar að gera ef hún kemur á slysstað. Þakka ‘the Universe’ fyrir að allir í báðum bílunum séu heilir á húfi og aka burt án þess að athuga málið, svona til að laða ekki að sér fleiri slys? Halda áfram að lesa

Starfshættir grunnskóla skulu mótast af trúfrelsi

Nokkrir þingmenn vilja að Alþingi álykti um mikilvægi þess að opinberir skólar vandi til fræðslu um hinn kristna menningararf þjóðarinnar, í þeim tilgangi að stuðlað verði að auknum skilningi á þeirri arfleifð.

Nú minnist ég þess ekki að nokkurntíma hafi komið frá Alþingi neitt sem gefur skólum afslátt af vöndun umfjöllunar sinnar í nokkurri grein. Almennt er gengið út frá því sem sjálfsögðu að skólastarf eigi að vera vandað. Í raun gengur þessi tillaga heldur ekkert út á það að skólar eigi að vanda kristinifræðslu sína, heldur að kirkjan eigi að hafa frjálsan aðgang að skólum.

Spurt er: Ef kynning á hvers konar öðru æskulýðsstarfi, t.d. íþróttafélaga, er heimil, hvers vegna þá ekki kynning á kirkjulegu starfi?

Það er hálfömurlegt að þeir sem telja sig hæfa til þess að hafa vit fyrir þorra þjóðarinnar skuli virkilega þurfa að spyrja svona bjánalega en það er allt í lagi, Norna frænka býr yfir ótrúlegri þolinmæði gagnvart heimskingjum og er alveg tilbúin til að svara. Ég hef svarað þessu áður hér. Læt það duga í bili en ef einhver hefur frekari spurningar um þetta efni eftir lesturinn, skal ég með ánægju ausa af brunni visku minnar.

„Við“ erum ekki kristin þjóð

„Við“
erum ekki kristin þjóð, heldur þjóð sem heldur uppi ríkisrekinni kirkju af því að flestum finnst eitthvað heillandi við athafnir eins og barnsskírn og brúðkaup, enda þótt hefðin ein standi eftir og þessar athafnir séu raunar alls ekki frá Kristi komnar.

Staðreyndin er sú að meiri hluti þjóðarinnar trúir því að Gvuð sé einhverskonar alheimsorka eða gott afl í manninum sjálfum sem hafi enga skoðun á því hvernig við hugsum og hegðum okkur, hvað þá að erfiðleikar séu refsing Gvuðs fyrir vantú og ranga hegðun. Þetta er mjög ókristileg hugmynd.

Önnur staðreynd er sú að meirihluti Íslendinga álítur að framliðnir lifi á einhvern hátt og margir trúa því að þeir geti fylgst með okkur og jafnvel haft samband. Sú hugmynd sem kirkjan játar er sú að framliðnir sofi í gröfum sínum fram að degi allsherjar upprisu.

En auðvitað gæta prestar þess vel að segja fermingarbörnum ekki frá því.