Prestar haldi sig við að blessa brauð en láti lögguna um glæpamál

Ég er ekkert sérstaklega hrifin af lögreglunni, hvorki stofnuninni sem slíkri né frammistöðu hennar almennt. Einkavæðing ofbeldis kann ekki góðri lukku að stýra og ekki von að vel fari þegar fólki er kennt að hlýða yfirmönnum í blindni. (Hér er stuttur fyrirlestur um rannsóknir á hroðalegum afleiðingum þess að hlýða yfirboðurum betur en dómgreind sinni og mæli ég með að sem flestir horfi á myndbandið.) Hitt er svo annað mál að á meðan annað hefur ekki verið ákveðið á Alþingi eða með þjóðaratkvæðagreiðslu, þá er lögreglan sá opinberi aðili sem menn eiga að snúa sér til ef þeir vita af lausgangandi glæpamönnum eða einhverjum sem þarfnast verndar. Lögreglan semsagt, ekki kirkjan.

Það er með ólíkindum hversu margir virðast líta á kirkjuna sem yfirvald og virðast kirkjunnar þjónar sjálfir vaða í þeirri villu að kirkjan þjóni öðrum þræði sem kynferðisbrotadeild lögreglunnar. Að það sé á verksviði presta og biskupa að meta hvort ákæra skuli í kynferðisbrotamálum, a.m.k. þegar brotamennirnir eru starfmenn kirkjunnar. Árum og áratugum saman hafa þjónar Gvuðs þaggað kynferðisbrotamál í hel, latt brotaþola til að leggja fram kæru til lögreglu og jafnvel beitt beinum þrýstingi til að koma í veg fyrir það.

Nú er almenningur loksins búinn að fá nóg af þessu rugli. Fólk flykkist úr Þjóðkirkjunni sem óttast nú um stöðu sína og örvæntingarfullar tilraunir Gvuðsmannanna til að krafsa yfir kúkinn koma fram í bjánaskap á borð við hótanir í garð þeirra presta sem ekki taka þátt í þögguninni. Almenningur fílar það ekki heldur og úrsögnum fjölgar enn.

Og hvað gera klárkar þá? Jú, þeir snúa vörn í sókn. If you can´t beat them, join them. Það er greinilega ekki er hægt að þagga niður í grátkórnum sem ekki finnst við hæfi að biskupar og prestar káfi á sóknarbörnum sínum, nauðgi þeim eða eitthvað þar á milli, og ekki nóg með að almenningur hlusti á þolendurna, heldur fá þeir líka samúð og hrós fyrir hugrekkið. Það er greinilega þetta sem fólk fílar, svo ókei gæjs, hættum að ljúga fyrir glæpamenn.

Rétt stefna, hárrétt stefna. Hætta að ljúga fyrir glæpamenn og láta lögguna um málin. Prestur nokkur gengur öllu lengra í þessari umbótastefnu og hafnar ekki gullnu tækifæri til að sýna umheiminum sinnaskipti kirkjunnar. Hann lætur ekki nægja að tilkynna yfirvöldum um margra áratuga gamalt mál heldur stígur sjálfur fram og segir sögu stúlku sem varð fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku. Þetta gerir hann að konunni látinni, án samráðs við hana og velur svo smekklegan vettvang sem útför hennar til að upplýsa vini og vandamenn um þetta ógeðfellda mál. Og ekki lætur klerkur þar við sitja, heldur birtir hann líkræðuna með sögunni allri á blogginu sínu. Tekur að vísu út nafn konunnar en gnægð annarra upplýsinga benda á hana svo það þarf ekki meðalgreind til komast að nafninu. Það er fremur ómerkileg hræsni að birta ekki nafn heldur aðeins aðrar upplýingar sem jafngilda nafnbirtingu.

Þetta eru nýstárleg vinnubrögð svo ekki sé meira sagt en þar að auki ganga þau þvert á siðareglur presta og ekki bara siðareglur presta heldur lög um trúnað við skjólstæðinga. Vandséður er tilgangurinn með því að róta þessu máli upp eftir dauða konunnar. Presturinn segir sjálfur að kikjugestir hafi orðið fyrir áfalli en hann sé semsagt að þessu „af þjónustu við lífið“ hvað sem það svo merkir.

Það lítur út fyrir að séra Baldur hafi algerlega misskilið þetta nýja trend ‘að stíga fram’ og segja hryllingssögur í fjölmiðlum. Yfirleitt eru það þolendurnir sjálfir sem stíga fram, en ekki einhverjir aðrir án samráðs við þá og reyndar ná ætla að meirihluti þeirra sem hafa gengið í gegnum kynferðisofbeldi kjósi að gera það EKKI að fjölmiðlamáli.

Ég lýsti vanþóknun minni á þessum vinnubrögðum á spjallþræði dv í gærkvöld. Spurði m.a. hvaða tilgangi þetta ætti að þjóna og hvort klerkurinn vissi ekki af þagnarskyldu sinni. Ekki stendur á svörum. Séra Baldur telur sig gert þetta af þjónkun við manneskju sem sjálf var ófær um að svara fyrir sig auk þess sem sagan eigi að hafa forvarnagildi. Athugasemdir mínar segir hann benda til þess að ég vilji þagga níðingsverk í hel.

Héðan af er næsta ólíklegt að þetta mál verði nokkurntíma upplýst, hvað þá að einhver þurfi að axla ábyrgð á því. Þolandinn er ekki til frásagnar, ekki vitað hver gerandinn var og líklegast að hann sé löngu látinn. Ef ekki þá er hann að öllum líkindum kominn á tíræðisaldur og vart til stórræðanna.

Forvarnagildi þess að segja slíkar sögur er umdeilanlegt. Þeir sem haldnir eru barnagirnd virðast í mörgum tilvikum ólæknandi og halda áfram að brjóta af sér þrátt fyrir þunga dóma. Það er því vafasamt að þetta framstigningartrend þjóni yfirhöfuð þeim tilgangi sem því er ætlað. Sú hugmynd er þó skiljanleg en að þessi vettvangur, jarðarför, auki það litla forvarnagildi sem sagan kann að hafa, sú hugmynd er beinlínis fáránleg.

Kynferðisbrot gagnvart börnum eru óvenju viðkvæm mál. Nú rís upp hver góðviljaða manneskjan á fætur annarri og talar um að kynferðisbrot eigi ekki að vera feimnismál, að ofbeldi sé ekki einkamál, að afleiðingar þesskonar áfalla eigi að vera jafn sjálfsagt umæðuefni í minningarræðu og sjúkdómar eða slys. Þessar samlíkingar munu vonandi eiga við einhverntíma í framtíðinni en hvernig svosem heimurinn ætti að vera þá er þetta bara ekki þannig. Kynferðisbrot eru feimnismál hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þau áföll sem við verðum fyrir á lífsleiðinni eru einkamál, allt þar til við ákveðum sjálf að segja frá þeim. Hvað sem líður þeim tilgangi að uppræta fordóma, þá á hver manneskja fullan rétt á friðhelgi um sitt einkalíf og sín persónulegu áföll og það út yfir gröf og dauða. Ennþá kjósa flestir sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi að halda því frá sviðsljósi fjölmiðlanna og fólk á fullan rétt á því. Afar ólíklegt er að kona komin nær áttræðu hefði kosið að kynferðisbrot gagnvart henni á barnsaldri hefði verið gert að blaðamáli. Það er því algerlega út í hött að halda því fram að það sé af þjónustulund við þolandann sem presturinn leyfir sér að gaspra um það á opinberum vettvangi.

Nei séra Baldur, ég vil ekki þagga níðingsverk í hel en það hafa þínir örmu kollegar verið ötulir við allt fram á daginn í dag. Ég vil hinsvegar að prestar hætti að leika löggur. Að gera mál af þessu tagi að þungamiðju í líkræðu, þjónar ekki öðrum tilgangi en þeim að gefa almenningi nýtt hneyksli til að smjatta á. Þið prestar sem eruð á framfæri ríkisins, haldið ykkur við þau störf sem þið eru ráðnir til að gegna. Baulið „friður sé með yður“ og troðið oblátum upp í kirkjugesti. Segið eitthvað fallegt þegar fólk er til grafar borið en berið ekki einkamál þess á torg. Ef þið viljið auka aðsókn að kirkjunni, ráðið þá vinsælli skemmtikrafta eða farið á brandaranámskeið sjálfir. Það er nefnilega í hæsta máta ósmekklegt að nota persónulega harmleiki í auglýsingaskyni.

One thought on “Prestar haldi sig við að blessa brauð en láti lögguna um glæpamál

  1. ——————————————

    Við erum ekkert svo ósammála skal ég segja þér. Í lögum er kveðið svo á að prestar og aðrir þeir sem vinna með börnum eigi að tilkynna um kynferðislegt ofbeldi eða misnotkun. Það hef ég gert. Á því eru engin tímamörk EVA og engin ákvæði um það hvort að fólk er lifandi eða dáið. Ég leiði hjá mér augljósa andúð þína á prestum og kirkju. Ég svara ekkert fyrir það. Ég hef áður skrifað um fólk út frá líkræðum,lyft fólki upp, og skammast mín ekki fyrir það. Ég er fyrst og síðast ég. Kveðja baldur

    Posted by: Baldurkr | 6.07.2011 | 11:12:42

     ——————————————

    Þetta er reginmisskilningur hjá Baldri. Í Barnaverndarlögum segir:
    „Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.“ Það þarf ekki að tilkynna barnaverndarnefnd eða lögreglu hafi fullorðin manneskja (hvað þá háöldruð) búið við óviðunandi uppeldisaðstæður sem barn. Eflaust er þetta vel meint hjá Baldri en maður hlýtur að eiga heimtingu á friðhelgi síns einkalífs í eigin jarðarför, andskotinn hafi það, jafnvel þótt prestar vilji reyna að friða eigin samvisku eða slá sig til riddara.

    Posted by: Reynir | 6.07.2011 | 11:32:43

     ——————————————

    Þótt ég sjái lítinn tilgang í því að kæra margra áratuga gamalt mál sem útilokað er að upplýsa, er það ekki sú ákvörðun sem ég gagnrýni. Það er fínt að til séu sem mestar upplýsingar um afbrota- og barnaverndarmál hjá þeim opinberu aðilum sem trúað er fyrir slíkum málum. Það er hinsvegar allt annað mál að skýra opinberlega frá svona málum.

    Ég hef sjálf tilkynnt mál til barnaverndaryfirvalda og tel mig ekki hafa brugðist neinum trúnaði með því. En ég setti það ekki á netið.

    Posted by: Eva | 6.07.2011 | 12:00:32

Lokað er á athugasemdir.