Þeir sem þora þegar aðrir þegja

Til er fólk sem gerir heiminn að betri samastað, þrátt fyrir að það búi ekki yfir neinni snilligáfu, hafi hvorki völd né auð og sé ekki endilega neitt sérstaklega vinsælt heldur. Þetta er fólkið sem þorir þegar aðrir þegja.

-Barnið sem stendur eitt gegn skólafélögum sínum þegar einhver úr bekknum er lagður í einelti.
-Unglingurinn sem hefur sambandi við foreldrana þegar sá vinsælasti í hópnum ætlar að setjast drukkinn undir stýri.
-Unga konan sem neitar að taka þátt í því að baktala yfirmann sinn en fer hinsvegar beint til hans og segir honum hvað hún er ónægð með.
-Konan sem stendur uppi í hárinu á stórfyrirtæki sem stefnir heilsu starfsfólks og íbúa svæðisins í voða með óhóflegri mengun, enda þótt það kosti hana starfið.
-Ungi hermaðurinn sem í stað þess að taka þátt í myrkraverkum, kemur upplýsingum um stríðsglæpi á internetið, enda þótt hann viti að hann eigi á hættu fangavist og jafnvel pyntingar fyrir vikið.
-Þingmaðurinn sem neitar að ganga gegn þeim málum sem honum var treyst fyrir, enda þótt andstaðan við flokkinn kunni að kosta hann þingsætið.
-Allt fólkið sem rís gegn kynþáttahyggju, ritskoðun, mannréttindabrotum, dýraofbeldi og umhverfisspjöllum, vitandi að það getur átt á hættu að vera dregið fyrir dóm, fangelsað, pyntað og í nokkrum tilvikum drepið vegna skoðana sinna.

Þetta eru broddflugur samfélagsins, fólkið sem talar þegar aðrir láta sér nægja að hugsa, fólkið sem gerir þegar aðrir láta sér nægja að tala. Fólkið sem veit að því fleiri sem styðjast við eigin dómgreind og réttlætiskennd, því meira misrétti er hægt að uppræta. Fólkið sem þorir þegar aðrir þegja.

Og svo eru annarskonar hetjur. Annarskonar fólk sem þorir þegar aðrir þegja. Fólkið sem þorir að ausa þá svívirðingum sem hafa annað sjónarmið og líta ekki á ákveðið útlit sem sáluhjálparatriði. Fólk sem af hetjulegu hugrekki sínu kallar þá sem hafa önnur lífsgildi rasshausa og sandpíkur án þess að skýra á nokkurn hátt hvað sé athugavert við skoðanir þeirra.

Mikið óskaplega kemur það veröldinni nú vel að til skuli vera fólk sem býr yfir öðru eins hugrekki.

One thought on “Þeir sem þora þegar aðrir þegja

  1. Bakvísun: En ég mun samt ekki ræða Erp á feminiskum forsendum | Pistlar Evu

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.