Það er sitthvað norn eða flagð

Nú er ég loksins búin að hitta þetta sataníska kvendi sem nágrannarnir hafa talað svo mikið um. Ég játa að í fyrstu hélt ég að útlendingafordómar kynnu að spila inn í umsögn grannanna um Ruslönu (við höfum að hún heiti eitthvað svoleiðis) en hef nú komist að þeirri niðurstöðu að hún eigi fyllilega skilinn galdurinn sem Spúnkhildur kastaði á hana í morgun. Halda áfram að lesa

Osturinn fundinn – Ný þáttaröð

Spúnkhildur fann ostinn minn! Jess!

Húsnæðið hentar fullkomlega og Listamaðurinn bauð af sér góðan þokka. Fyrir mína parta var það steinslípunarvélin sem gerði útslagið. Tákn frá góðvættum goðheima um að okkur væri beinlínis ætlað að kynnast þessum manni og nota húsið hans.
Fáum afhent annað kvöld og þar með er einni af stærstu hindrununum rutt úr vegi.

Nú þarf ég bara að græja slatta af peningum, vinna eins og geðsjúklingur, galdra eins og vindurinn og þar með er ostagerðin komin á koppinn.
Launkofinn opnar 1. ágúst.

Ég held að gagnrýnandinn í mér sé vanstilltur

Borgarleikhúsið er vinur minn. Gaf mér frímiða á Draumleik. Við Spúnkhildur fórum í gær og það var dásamlegt. Svo fékk ég líka pakka og það var líka dásamlegt. Ég er annars að pæla í því hvort ég sé kannski óttalegur hálfviti á sviði leikhúss. Ég er búin að sjá helling í vetur og mér hafa þótt allar þessar sýningar góðar. Misfrábærar að vísu en engin sem ég hef ekki notið. Er ekki eitthvað að ef vantar í mann gagnrýnandann? Eða standa leikhúsin sig bara svona geypilega vel?

Hmmm… ég er allavega ekki í neinum vandræðum með að gagnrýna Arnald. Er sokkin í þá lágkúru að lesa bókina með því hugafari að finna sem mest af hallæri. Venjulega hendi ég bók frá mér ef mér leiðist hún í 3.ja kafla en nú læt ég eymingja Arnald næra í mér illkvittnina. Ég er ekkert spennt yfir sögunni en er orðin rosalega spennt yfir því að sjá hverju honum tekst að klúðra næst. Verst hvað ég á erfitt með að skammast mín fyrir að hugsa svona. Það er náttúrulega ekkert í lagi.

Komin niður

Held ég sé að koma niður af þessu vellíðunarflippi sem ég hef verið á undanfarið. Ekki svo að skilja að mér líði neitt illa. Meira svona hlutlaust. Eða frekar svona eins og ponkulítið eirðarleysi sé að byrja að springa út innra með mér. Mér leiðist eitthvað svo og skýringin er ekki sú að mig vanti félagsskap eða hafi ekkert að gera. Mig langar bara að hitta einhverja aðra en þá sem eru í boði og gera eitthvað annað en það sem liggur beinast við. Veit samt ekki hvað. Svo langar mig í phenylethilamin, heilt kíló en vil samt ekki þurfa að gúlla í mig 10 kg af súkkulaði. Halda áfram að lesa