Hættur að ganga

Sonur minn Byltingin: Ég er hættur að ganga.
Ég: Hættur að ganga? Nú, ertu farinn að nota strætó svona mikið?
Byltingin: Nei, síður en svo en ég er hættur að ganga, nú hleyp ég.

Móðursýkin

Sonur minn Byltingin og Rósin sluppu lifandi úr eldsvoða nú um daginn. Gistu í trjáhýsi í 10-12 metra hæð og Haukur vaknaði við sviða í kokinu. Allt fullt af reyk og mér skilst að það sé ekkert grín að brölta hóstandi í gegnum brennandi tuskur og greinar og þurfa svo að klifra niður úr háu tré í niðamyrkri. Þau sluppu samt ósködduð og skógurinn líka. Af öllum frábæru ævintýrunum sem hann er búinn að segja mér frá er þetta það eina sem ég sé virkilega fyrir mér.

Rósin farin til Indlands og Byltingin einn á þvælingi um Evrópu. Mér fannst skárra að vita af honum með henni. Vil bara fá hann heim aftur sem fyrst og vita hann sofa innan dyra í alvöru húsi, þar sem er til sjúkrakassi og borða óhollan mat sem er búið að elda og setja á disk en ekki eitthvað gras sem hann finnur á víðavangi. Og svo vil ég líka fá að geyma vegabréfið hans sjálf.

 

Inn fyrir skelina

Maðurinn sem er með sprungu í skelinni kom í morgunkaffi.

-Má ég kalla þig pabba? sagði Andlit byltingarinnar þegar hann kom fram á nærbuxunum og slengdi hrömmunum utan um hann. Það er von. Við höfum reyndar ekki einu sinni prófað að kyssast en strákarnir eru ekkert vanir því að ég kynni þá fyrir þeim sem ég er skotin í fyrr en korter í sambúð. Halda áfram að lesa

Ofbeldismenn

Byltingin er með áverka eftir lögregluþjón. Ég er stolt af því.

Í sjónvarpinu sagði fulltrúi lögreglu að aðferðir þeirra væru ekki réttar. Fulltrúi Alcoa sagði að sjálfsagt væri að ungt fólk nýtti sér rétt sinn til að láta í sér heyra. Þau ættu bara að gera það utan dyra svo þeir sem mótmælin beinast að þyrftu ekki að heyra þau.

Mótmæli sem ekki valda truflun heyrast ekki og ég hef aldrei heyrt um rétta mótmælaaðferð sem skilar árangri.

Mér finnst frábært að sérsveitin skuli hafa vera send á þessa unglinga. Það sýnir bara að loksins eru menn farnir að taka mótmæli þeirra alvarlega.