Dópistaleikur

Loksins er síðasta dótið komið upp úr kössunum. Ég á enn eftir að losa mig við sjónvarpsskápinn, fá mér annan í staðinn og verða mér úti um falleg gluggatjöld en að öðru leyti er heimilið að nálgast það að verða fullkomið.

Í hvert sinn sem ég flyt rifjast upp fyrir mér atvik frá þeim tíma sem ég var að flytja frá Fellabæ. Ég fann plastpoka með 1/2 kg af flórsykri í herberginu hans Hauks og spurði hvað hann væri eiginlega að gera með flórsykur inni hjá sér.

Haukur: Æ, þetta. Þetta er bara síðan við Hjalli vorum litlir, við notuðum þetta í dópistaleik.
Mamma (rekur upp stór augu): Dópistaleik?!? Hvað er það eiginlega ofan á brauð?
Haukur: Bara svona venjulegur dópistaleikur.
Mamma: Þegar ég var lítil stelpa fórum við búðarleik og skólaleik. Ég man ekki eftir neinum dópistaleikjum. Hvernig fer svoleiðis leikur fram?
Haukur: Æ, þetta var eiginlega frekar leiðinlegur leikur. Hjalli kom kannski inn, með svona húfu ofan í augunum og sagði (setur töffaralegan drunga í röddina) „sæll félagi, eigum við að fá okkur í nös?“ Og þá sagði ég kannski „já ég var einmitt að fá ýkt gott stöff.“ Svo settumst við bara niður og tróðum flórsykri í nefin á okkur. Svo var leikurinn bara búinn því við vissum við eiginlega ekkert hvað dópistar gera meira.

Mér skilst að leikir barna þjóni þeim tilgangi að búa þau undir framtíðina. Hugga mig við að Darri var um tíma mjög upptekinn af hárgreiðsluleikjum en sýnir engan áhuga í þá veruna í dag.

One thought on “Dópistaleikur

 1. ———————————

  Þetta er fyndið! 🙂

  Posted by: Unnur María | 22.08.2007 | 12:50:55

  ———————————

  lol – magnað!

  Posted by: baun | 22.08.2007 | 12:54:03

Lokað er á athugasemdir.