Hvað gerir Ögmundur?

Þá er undirskriftasöfnuninni vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins lokið.

1190 undirskriftir söfnuðust og hafa nú verið sendar til Ögmundar. Ég bjóst við meiri þátttöku. Hélt einhvernveginn að flestum þætti skipta máli að búa við réttarkerfi sem viðurkennir mistök sín. Réttarkerfi sem viðurkennir ekki pyndingar sem rannsóknaraðferð og dæmir ekki menn án sönnunargagna.

En líklega er flestum sama. Kannski ekkert undarlegt. Þegar fólk býr hvorki við hvatningu né tækifæri til að hafa áhrif á umhverfi sitt og samfélag þá er ekki von að það taki ábyrgð heldur.

Ég hugsa að Ögmundur skipi rannsóknarnefnd. Hann getur ekki verið þekktur fyrir að gera ekkert og rannsóknarnefnd er voða dipló.

Síðasta tækifæri

Á næstu dögum mun Ögmundur Jónasson taka afstöðu til kröfu um endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála.

Ögmundur getur ekki fyrirskipað endurupptöku en hann getur beitt sér fyrir henni með því að mælast til þess við hæstarétt og verði hæstréttur ekki við því getur Ögmundur skipað rannsóknarnefnd. Álit slíkrar nefndar hefur ekkert lagalegt gildi og máir sennilega ekki skítaglottið af smetti Valtýs Sigurðssonar en eitthvað gæti þó komið í ljós sem gefur enn eitt tilefnið til endurupptöku.

Snemma í fyrramálið verður þessi áskorun send Ögmundi. Þátttaka hefur verið dræm. Margir hafa skorast undan því að setja nafn sitt við þetta með þeim orðum að þeir viti ekki nóg um málið til að taka afstöðu. Sú afstaða er byggð á misskilningi. Með því að undirrita þessa áskorun er ekki verið að taka afstöðu til þess hvort dómfelldu voru sekir eða saklausir, heldur þá afstöðu að rannsókn málsins hafi verið gölluð og því sé ástæða til að kanna hvernig að henni hafi verið staðið og hvort hún hafi gefið tilefni til sakfellingar.

Ég hvet þá sem enn hafa ekki undirritað áskorunina til að gera það nú þegar.

Hér eru tenglar á umfjöllun Ísland í dag um málið.
Fyrri þáttur
Seinni þáttur.

Nauðgunarkærur sem tekjulind?

hammer-311342_640

Það er náttúrulega ekkert í lagi að hafa mök við 13 ára barn. Það er heldur ekkert í lagi að bjóða drukknum börnum í partý. Og jú það er hægt að ætlast til þess að fólk spyrji um aldur áður en það drífur sig í kynsvall með unglingum. En er þetta mál bara svo einfalt að strákurinn (varla vaxinn upp úr barnaskónum sjálfur) hafi sýnt gáleysi? Voru kannski fleiri sem sýndu gáleysi? Halda áfram að lesa

Réttarhöldum frestað

Á 46 ára starfsferli Ragnars Aðalsteinssonar, gerðist það í fyrsta sinn í dag, að aðalmeðferð máls var frestað eftir að hún hófst (eftir að hafa verið frestað tvívegis áður) vegna þess að eitt vitna ákæruvaldsins forfallaðist.Það nánast sauð á honum. Sagði að þessi afgreiðsla hefði kannski verið réttlætanleg í morðmáli.

Þetta var afskaplega umbloggunarverður dagur en þar sem málinu var frestað, þrátt fyrir afdráttarlaus mótmæli verjanda og þar sem vitnaleiðslum er ekki lokið verða fréttirnar að bíða birtingar.