Fertugri en í fyrra

Paul Simon ætlar að halda upp á afmælið mitt í sumar. Ég klikkaði alveg á því að fagna fertugsafmælinu mínu í fyrrasumar, fannst það fyrirstaða að ég var ekki búin að fá íbúðina afhenta og börnin mín voru á ferðalögum. Ég er að hugsa um að bæta það bara upp í sumar. Er annars nokkuð of seint að fagna því að maður sé fertugur þótt maður sé einu ári betur? Er ég ekki bara ennþá fertugari fyrir vikið?

Svo má náttúrulega deila um það hvort ég er í rauninni almennilega fertug. Ég hélt alltaf að fertugar konur hlytu óhjákvæmilega að eiga Kitchen Aid hrærivél og tvo útsaumaðaða rococcostóla en ég á hvorugt. Og plís ekki gefa mér neitt sem gæti hugsanlega flokkast sem rocooco neitt. Mig langar hinsvegar í hrærivél og það hlýtur að vera nógu fertugt.

Ég er svosem ekki ákveðin í því að halda partý en Paul Simon verður allavega heiðraður með nærveru minni fyrst hann er að koma.

Merktur þvottur

Þegar ég las þessa færslu hennar Lindu, rifjaðist upp fyrir mér umfjöllun sjónvarpsins fyrir nokkrum mánuðum um nærbuxnaskort á sjúkrahúsunum. Fólk ku víst fara í spítalabrókunum heim og lætur svo undir höfuð leggjast að skila þeim aftur. Nærbuxurnar eru víst sá hluti spítalatausins sem stærsta skarðið er höggvið í en einnig virðist vera eitthvað um að handklæði og fleira lendi einhvernveginn í töskum sjúklinga. Ekki nóg með það, heldur nota sumir spítlaþvotinn heima í stað þess að skila honum. Allavega sá ég gjarnan spítalahandklæði og nærfatnað á þvottasnúru í fjölbýlishúsi sem ég bjó einu sinni í.

Ég þykist nú vera tiltölulega laus við að stjórnast af snobbi sjálf en verð samt að viðurkenna að algjörlega óháð því hvað er erfitt að villast á spítalanaríustælnum og Victoría´s Secret, þá finnst mér eitthvað hroðalega ódannað og hallærislegt við að nota þvott sem er merktur sjúkrahúsi, sundlaug eða öðrum opinberum stað utan hans. Ég skil að nærfatnaður geti í einstaka tilvikum farið heim með sjúklingum, þótt það ætti varla að þurfa að vera algengt en hvað er fólk að eiginlega hugsa þegar það tekur handklæði með sér heim úr sundi eða af spítala?

Ég á bara eitthvað svo bágt með að trúa að þetta sé sparnaðarráðstöfun og mig langar í alvöru mikið til að vita hversvegna fólk gerir þetta.

 

Skrýtið móðg

-Þú móðgaðir mig, sagði hún, þegar þú sagðir að það væri áhugamál mitt að fylgjast með America´s next Top Model og fletta tískublöðum.

-Nú, er það ekki einmitt rétt? sagði ég hvumsa og veit satt að segja ekki hvort ég var hvumsari yfir því að hún hefði móðgast eða yfir því að vafi gæti leikið á þessu áhugasviði hennar.
-Ég hef gaman af að fletta tískublöðum en það er ekki áhugamál, sagði hún og þar sem hún hefur nú samt sem áður býsna augljósan áhuga á tísku og tískuheiminum, áttaði mig á því að málið snerist ekki um það hvort hún hefði áhuga á tísku, heldur um það hvort tíska væri merkilegt eða ómerkilegt áhugamál. Halda áfram að lesa

Ást

Anna: Ó Eva, þú ert maðurinn sem mig hefur alltaf dreymt um. You complete me!
Eva: Ó Anna, þú ert feðgur drauma minna, faðirinn, sonurinn og hinn heilagi ostur.
Anna: Skálum í ostborgara fyrir því.

Cheese!

Blár

Er munur á einsemd og frelsi? spurði Elías.
Já, mikill munur, jafn mikill munur og offitu og marengstertu, sagði ég.

Ég hef verið ein og einmana og ég hef verið í sambúð og einmana, mér líkar það fyrrnefnda betur. Ég hef verið einhleyp og frjáls og ég hef verið elskuð og frjáls, mér líkar það síðara betur.

Að vísu getur of mikið frelsi gert mann einmana en einsemdin gerir mann ekki frjálsan.
En jú, ég sé tengslin og það veit ég af eigin raun að sannleikurinn mun gjöra yður einmana; á tíðum ákaflega einmana en ekki samt endilega frjálsa.

Af fávitum og fávitafælum

Vinkona mín er í þeirri óskemmtilegu aðstöðu að vera ofsótt af raðböggara. Ég er ekki að tala um þessa hefðbundnu gerð af fávita sem gleymir afmælum, segist ætla að hringja en gerir það svo ekki eða lætur sig hverfa vikum saman og skýtur svo upp kollinum til að rugla í henni þegar hann vantar athygli. Ég er löngu búin að finna ráð gegn slíkum kónum. Halda áfram að lesa

Hjartað býr enn í helli sínum

Hvernig kynnist maður manneskju sem vill ekki tala um persónuleika sinn eða svara neinum spurningum sem gætu gefið innsýn í karakterinn (eins og t.d. hvort finnst þér verri tilhugsun að missa sjón eða heyrn eða ef þú værir hús, hvernig hús værirðu þá?)

Halda áfram að lesa