Merktur þvottur

Þegar ég las þessa færslu hennar Lindu, rifjaðist upp fyrir mér umfjöllun sjónvarpsins fyrir nokkrum mánuðum um nærbuxnaskort á sjúkrahúsunum. Fólk ku víst fara í spítalabrókunum heim og lætur svo undir höfuð leggjast að skila þeim aftur. Nærbuxurnar eru víst sá hluti spítalatausins sem stærsta skarðið er höggvið í en einnig virðist vera eitthvað um að handklæði og fleira lendi einhvernveginn í töskum sjúklinga. Ekki nóg með það, heldur nota sumir spítlaþvotinn heima í stað þess að skila honum. Allavega sá ég gjarnan spítalahandklæði og nærfatnað á þvottasnúru í fjölbýlishúsi sem ég bjó einu sinni í.

Ég þykist nú vera tiltölulega laus við að stjórnast af snobbi sjálf en verð samt að viðurkenna að algjörlega óháð því hvað er erfitt að villast á spítalanaríustælnum og Victoría´s Secret, þá finnst mér eitthvað hroðalega ódannað og hallærislegt við að nota þvott sem er merktur sjúkrahúsi, sundlaug eða öðrum opinberum stað utan hans. Ég skil að nærfatnaður geti í einstaka tilvikum farið heim með sjúklingum, þótt það ætti varla að þurfa að vera algengt en hvað er fólk að eiginlega hugsa þegar það tekur handklæði með sér heim úr sundi eða af spítala?

Ég á bara eitthvað svo bágt með að trúa að þetta sé sparnaðarráðstöfun og mig langar í alvöru mikið til að vita hversvegna fólk gerir þetta.

 

One thought on “Merktur þvottur

 1. ————————————-

  Fólki hlýtur bara að finnast þetta flott.

  Posted by: baun | 5.04.2008 | 20:48:12

  —-   —  —

  Mér finnst reyndar stuttermabolurinn merktur Eign þvottahúsa ríkisspítala, frá hvaðheitirnú bolafyrirtækið? ansi flottur 😀

  Posted by: hildigunnur | 5.04.2008 | 21:06:47

  —-   —  —

  Þetta er náttúrlega merkjavara par excellence.

  Posted by: Elías | 6.04.2008 | 22:37:24

Lokað er á athugasemdir.