Kannski frekar hvað maður gerir EKKI

Þegar Haukur var 6-7 ára sagði hann mér, all-hneykslaður að einhverjir kjánar í skólanum héldu því fram að fólk ætti það til að hafa mök þótt það kærði sig alls ekki um fleiri börn og notaði jafnvel „asnalega blöðru“ til að koma í veg fyrir getnað. Það lá við að drengurinn sykki niður úr gólfinu af skömm þegar ég sagði honum að þessir kjánar hefðu reyndar nokkuð til síns máls en hann náði fljótt áttum og sagði:
-Ég er samt feginn að þú og pabbi eruð allavega ekki svoleiðis. Halda áfram að lesa

Þytur

Jarðfræðingurinn kemur í dag og verður hjá okkur yfir áramótin. Byltingin fer svo með henni út til Bretlands eftir áramótin til að sjá ættarsetrið og fjölskylduna áður en hann fer út í heim að leita sér frægðar og frama. Mér finnst hálfótrúlegt að sonur minn Byltingin skuli vera í tygjum við breska aðalskonu en Jarðfræðingurinn ólst upp (og býr enn) á herragarðinum sem er fyrirmyndin að Fúsastöðum í „Wind in the Willows“ og langafi hennar var kveikjan að Fúsa.

Ég er búin að tilkynna Hauki að ég óski eindregið eftir því að fá barnabörn á meðan ég er ennþá í ástandi til að vera skemmtileg amma og þrátt fyrir stutt kynni við Jarðfræðinginn, hefur hann ekki aftekið það með öllu. Nú þarf ég bara að sannfæra Jarðfræðinginn um að hún vilji hvergi búa nema á Íslandi og helst í næsta húsi við mig.

Og allt varð fullkomið

Venjulega skreytum við jólatréð á Þorláksmessukvöld. Klárum þvottinn, moppum yfir og skiptum um kerti í aðventukransinum (ég hef alltaf kveikt á þeim öllum í einu enda er aðventukransinn ekki kristilegur siður að uppruna). Þoddláksritúalinu lýkur með jólaöli, eins og hvítöl var kallað til skamms tíma en á mínu heimili er jólaöl aldrei drukkið fyrr en á Þoddlák. Það ásamt laufabrauðinu er heilög hefð. Allt annað er umsemjanlegt en einhverja geðveiki verður maður að halda í, annað væri óheilbrigt.

Að þessu sinni var ég að vinna fram eftir, Haukur til miðnættis og Darri kom ekki heim úr sveitinni fyrr en um 10 leytið. Þoddlákur fór því fram í nótt og endaði á bjór í stað jólaöls.

Eg komin með tölvuna upp í rúm. Ég er í fríi. Í marga daga. Ætla að liggja í bælinu til hádegis ef ég get.
Allt er fullkomið.

 

Hvarfl

Systir mín barnaheimilið sagði einu sinni að fljótlegasta leiðin til að verða sér úti um almennilegan maka væri sú að finna sér ungling og ala hann upp. Og það gerði hún. Fermingardrengurinn hennar varð fullorðinn á aðeins 5 árum en ég er enn ógipt og grátandi.

Ég held að sama regla gildi ef maður vill gott starfsfólk. Ráða ungt fólk, bara ekki heimskt, latt eða leiðinlegt. Búðarsveinninn jólaði bílinn minn. Glætan að ég hefði fengið svona góða þjónustu ef ég hefði ráðið einhverja andlega kerlingu með mikla reynslu af afgreiðslustörfum. Ég ætla samt ekki að senda piltinn í Bónus til að sinna mínum persónulegu jólainnkaupum. Það væri einum og langt gengið í því að misnota aðstöðu sína. Ekki svo að skilja að það hafi ekki alveg hvarflað að mér.