Kannski frekar hvað maður gerir EKKI

Þegar Haukur var 6-7 ára sagði hann mér, all-hneykslaður að einhverjir kjánar í skólanum héldu því fram að fólk ætti það til að hafa mök þótt það kærði sig alls ekki um fleiri börn og notaði jafnvel „asnalega blöðru“ til að koma í veg fyrir getnað. Það lá við að drengurinn sykki niður úr gólfinu af skömm þegar ég sagði honum að þessir kjánar hefðu reyndar nokkuð til síns máls en hann náði fljótt áttum og sagði:
-Ég er samt feginn að þú og pabbi eruð allavega ekki svoleiðis.

Ég veit ekki alveg hvort ég gerði rétt eða rangt en ég sagði honum að við værum reyndar einmitt „svoleiðis“, bæði tvö og hefðum alveg átt það til að fremja verknað af þessu tagi á meðan við vorum gift.
-Jæja, sagði Haukur tortrygginn, aldrei sá ég það.

Ég hef ekki rætt mitt persónulega kynlíf við strákana síðan þetta var og nú kvíði ég dálítið fyrir því að segja þeim frá þessu með hjúkrunarkonubúninginn og stólpípuna. Þeir hafa náttúrulega aldrei séð það en líklega hafa krakkar gvuðsmannsins* ekki heldur séð hann veifa sprellanum framan í myndavél og vita þó allt um bólfarir hans. Eða öllu heldur hvað hann hefur EKKI smekk fyrir. Kannski er það málið. Kannski á maður bara að segja þeim hvað maður gerir ekki.

Hvernig hljómar:
„Strákar mínir, bara svo þið vitið það þá hefur mamma aldrei verið mikið fyrir sauðfénað, nema þá til átu. Og brauðvélin, hún hefur semsé aldrei verið notuð í kynferðislegum tilgangi.“

  • Þarna var ég að vísa til Guðmundar í Byrginu en hann sagði í sjónvarpsviðtali að börnin hans vissu að hann stundaði ekki BDSM.