Sonur minn er leikskáld

Byltingin hreppti þriðja sætið í örleikritakeppninni. Fjári fínt hjá honum og það í fyrstu tilraun til leikritunar. Ekki hefur neitt eftir mig ratað á leiksvið Þjóðleikhússins, eða nokkurt leiksvið ef út í það er farið.

Ég er óðum að læra trésmíðar. Niðurstaða dagsins er þessi; margar flísar í lófum valda erfileikum við verkfærabeitingu.

Dýr myndi Smiðliði allur

Um það leyti sem við opnuðum búðina, mundaði spúsa mín borvélina og smeið mér af snilli sinni vegg einn fagran. Það var frumraun hennar á sviði trésmíða og tók hana rúma tvo tíma. Ég bætti svo um betur og varði tæpri klukkustund í að sparsla, mála og snurfusa til að fullkomna verkið. Stendur þessi veggur enn keikur og vekur óskipta aðdáun hvers sem á hann lítur. Halda áfram að lesa

Ekki góður galdur

Fór í morgunkaffi í vélsmiðjunni til að sverma fyrir veggjasmið. Eigandinn gaf lítið út á galdrafærni mína. Að vísu sótti maður um vinnu á mánudaginn en það reyndist vera vesælingur sem ekkert er hægt að nota. Ég verð líklega að útvega mér nautsblóð ef á að vera hægt að loka inn á klósettið fyrir opnunarteitið.

Við erum að fá múg og margmenni í heimsókn á morgun og þá verður salurinn að vera orðinn íveruhæfur. Í augnablikinu virðist það fremur fjarstæðukennt.

Bögg

Ég held að ráterinn minn og blogger séu í hörkufýlu hvor út í annan. Hvort sem ég fer í gegnum nýja trixið eða reyni að blogga á hefðbundinn hátt, verða færslurnar undarlegar útlits og mánudagsfærslan vill bara ekki birtast á blogspot þótt hún sjáist inni á blogger. Samt var hún búin að vera uppi í einn dag og ég var búin að fá viðbrögð við henni þegar hún bara hvarf!

Kannski er andi einhvers framliðins tölvunörds að ásækja mig.

Garl dagsins

Í dag sannaðist að stór karl með kúbein, vinnur á þremur mínútum verk sem tekur litla konu með skrúfjárn þrjár klukkustundir.

Þegar hendurnar á mér voru orðnar of blógnar til að ég héldi taki á skrúfjárninu, útséð um að nokkur iðnaðarmaður á höfuðborgarsvæðinu gæti fórnað þremur mínútum af tíma sínum og enginn þeirra duslimenna sem hafa lýst yfir ástríðufullri þrá sinni eftir að þjóna mér, á lausu, hringdi ég í Sigrúnu og bað hana að beita töfrum sínum til að fá að senda mér vélsmiðjustrák. Halda áfram að lesa

Of mikið álag

Þessi helgi varð töluvert öðruvísi en til stóð. Sé fram á að morgundagurinn verði hrein og klár martröð. Enn og aftur staðfestist hættan við að vænta þess að aðrir geri eitthvað fyrir mann. Það er bara nokkuð sem maður getur ekki reiknað með sama hversu sjálfsagt það er.