Hvernig í ósköpunum sko, á Ólafía Hrönn í ljótum náttfötum, tafsandi eins og léleg útgáfa af feitu frænku Silvíu Nætur, að selja mér þá hugmynd að mig langi að nota símann meira? Á mig kannski að langa til að halda uppi samræðum við þessa fígúru?
Greinasafn fyrir merki: íslenska
Glámbekkurinn
Þegar ég er orðin húsgagnahönnuður, ætla ég að sérhæfa mig í hönnun glámbekkja. Ekki klámbekkja því ég held að sé nóg framboð á þeim á markaðnum.
Ég var nær fullorðin þegar ég áttaði mig á þeirri augljósu staðreynd að glámbekkur hlýtur að vera bekkur fyrir glám. Kannski vegna þess að bekkir eða hillur sem eru sérstaklega til þess hugsaðar að geyma á þeim gleraugu, fylgja sjaldnast innréttingum. Sem er auðvitað stórfurðulegt í ljósi þess að á meðalheimili má gera ráð fyrir því að einhver þurfi fyrr eða síðar á gleraugum að halda. Og þar með glámbekk til að geyma þau á.
Ég reikna með að hönnun glámbekkja muni færa mér ótakmörkuð auðæfi.
Fasismi dagsins
Ég er orðin hundleið á málfarsfastisum sem heimta að fólk eyði ómældum tíma í að læra flókin og forneskjuleg málkerfi í stað þess að sætta sig við eðlilega þróun tungumálsins.
Það er tímafrekt að vera Íslendingur í dag. Fyrir utan fulla vinnu þarf maður að horfa á 5-6 raunveruleikaþætti á viku, til að vera viðræðuhæfur um það sem er að gerast í samfélaginu. Svo þarf að fara í ræktina til að sporna gegn þeirri offitu sem eðlilega fylgir aukinni velmegun og framþróun í tækni og vísindum. Halda áfram að lesa
Framför – afturför
Hefur nokkur heyrt talað um afturför í tækni og vísindum?
Við erum vön því að tengja orðið framfarir við eitthvað jákvætt. Meiri þægindi, tímasparnað og fjárhagslegan ágóða.
En er það sem eykur lífsgæði okkar endilega framför?
Er tækni sem gerir okkur auðvelt að arðræna náttúruna framför?
Eru það framfarir í lyfjaiðnaði ef nýtt og áhrifaríkt lyf veldur afkomendum okkar skaða?
Eru vopn sem drepa fleira fólk á stærra svæði endilega framför?
Opnun eða afgreiðsla
Mér finnst opnunartími vera skrýtið orð. Opnun hlýtur að tákna þá aðgerð að opna. Ef opnunartíminn er frá 9-17, tekur þá 8 klst að opna dyrnar?
Ég geri mér engar vonir um að opnunartímar verði aflagðir og afgreiðslutímar teknir upp í staðinn en ólíkt þykir mér nú afgreiðslutíminn þjálla orð og fegurra.
Nú ég ekki skilja gnarr
Mér fannst Ágústa virkilega flott á sviðinu og ef þjóðin vill endilega dissa júró þá verð ég manna síðust til gráta það. Þar fyrir er þessi fígúra sem hún leikur ósköp einhæf og þreytandi.
Jón Gnarr segir í Fréttablaðinu í dag að RUV hafi brugðist því hlutverki sínu að vernda íslenska tungu með því að vanrækja dagskrárgerð fyrir unga fólkið. Hann stingur upp á því að RUV bæti úr þessu með því að fá Silvíu Nótt til að sjá um áramótaskaupið.
Fyrirgefðu seinvirkni fattara míns Jón en hvernig í ósköpunum sérðu Silvíu Nótt fyrir þér sem verndara íslenskar tungu og menningar?
Er íþróttaálfurinn útsendari Orkuveitunnar?
Ég hef ekki kynnt mér þetta orkuátak íþróttaálfsins sérlega vel en ég veit að það er mikil orka í súkkulaði en engin í vatni. Þessvegna finnst mér svolítið skrýtið að börn fái orkustig fyrir að drekka vatn en ekki fyrir að gúlla í sig sælgæti. Ætli sé kannski reiknað með því að vatninu sé hvolft ofan í þau og fallþungi þess nýttur til raforkuframleiðslu?
Aldrei hef ég heyrt neinn tala um orkuátak þegar fullorðið fólk forðast óhollan mat og hreyfir sig. Venjulega er svoleiðis átak kallað megrun eða þjálfun. Markmiðið er að brenna orku, byggja upp vöðva og auka úthald. Sé þessu haldið áfram lengur en nokkrar vikur heitir það heilsusamlegt líferni.
Markmið Latabæjar er væntanlega að hvetja til heilsusamlegs lífernis með nokkurra vikna hreyfingar- og hollustuátaki (þótt reyndar sé vafasamt að allt sem gefur orkustig sé hollt). Hversvegna í ósköpunum það er kallað orkuátak er mér hulin ráðgáta.
Sonur minn Byltingin telur það vísbendingu um að íþróttaálfurinn sé á mála hjá Orkuveitu Reykjavíkur og öðrum útsendurum Stóriðjudjölufsins. Ég efast um það. Held að þetta sé bara venjulegt málfarsklúður.
Þetta var málfarsnöldur dagsins. Titillinn er bara eyrnakrækja.