Rím og stuðlar láta málshætti hljóma vel en þeir auka ekki endilega sannleiksgildi þeirra. Geta jafnvel verið villandi.
Þetta veit hún Heiða mín, sem notar gjarnan málsháttinn margur er knár, án frekari skýringar, enda eru knáindi manna líkamsvexti þeirra óviðkomandi.
Oft er flagð undir fögru skinni er álíka sönn speki. Ég hef orðið vitfirringslega ástfangin af tveimur forljótum mönnum, sem hvor um sig gaf mér nýjan skilning á orðinu drullusokkur. Dreg af því þá ályktun að ankannalegt útlit sé engin trygging fyrir fjarveru fláræðis og flagðabragða. Gallinn er sá að oft er flagð er ekki góð setning. Margur er flagð, væri kannski betra. Eða ekki. Auk þess finnst mér málsháttur ekki réttur nema hann feli í sér stuðla eða eða rím.
Ég tek hér með upp nýjan málshátt og sannari til mótvægis við gamla bullið:
Margur er þrjótur, þótt hann sé ljótur.