Heildræn hryggsúla

hryggsúla

Hvaða fáráður innleiddi orðs-krípið „heildrænt“ í íslensku? Færið mér hann og ég mun bíta af honum hausinn.

-Einhverju sinni sinni auglýsti bílaþvottastöð „heildræn bílaþrif“.
-Einu sinni sá ég auglýst einhverskonar jóganámskeið sem átti að fela í sér „heildrænar lausnir í bakverkjum“. Ekki einu sinni við bakverkjum heldur í þeim.

Heildræn hryggsúla held ég þó að slái öllu út.

 

 

Lágvöruverslun

… hlýtur að vera búð sem selur lágar vörur. T.d. niðursuðuvörur og slátur og klósettpappír. Ekki hinsvegar háar vörur eins og bókahillur og fánastengur.

Að gæsast

gæsÉg get ekki gert upp við mig hvort mér finnst hroðalegra, nafnorðið „gæsun“ eða sögnin „að gæsa“. Það liggur í orðanna hljóðan að með slíkum athöfnum sé verið að gera einhverja að gæs – ekki beint viðeigandi rétt fyrir brúðkaup. Fyrir utan að „gæsaðar“ konur eru iðulega gagnkynhneigaðar og færi því betur á að karlmenn tækju að sér að „gæsa“ þær.

Orðskrípin „steggjun“ og „að steggja“ snerta svosem ekki hjartans hörpustrengi heldur en þó finnst mér einhvernveginn skárra að kalla karlmann stegg en konu gæs. Mín kynslóð ólst upp við þá hugmynd að það væri fremur jákvætt að vera steggur. Orðið gæs var hinsvegar notað um stúlkur sem voru lítt vandar að virðingu sinni í vali á bólfélögum og átti það jafnt við um fjölda og mannvirðingu þeirra sem þær hleyptu uppí til sín.

Merking orða breytist í tímans rás og kannski gæti ég vanist því að kalla konur sem ég kann vel við gæsir. Ég mun hinsvegar aldrei fella mig við „að gæsa“ konu eða taka þátt í gæsun. Vinkonur mínar verða sjálfar að bera ábyrgð á því ef þær gerast gæsir, eða láta gæsast.

Hvað sem því líður vil ég endilega láta beygja þessa sögn þannig:
gæsa -gæsti -gæst.

Kurt og pí

Mér finnst að kurteis ætti að vera ritað kurteys. Af því að kurteysir eru þeir sem ausa kurti í allar áttir. (Þá væntanlega kurti og píi) Annars væru þeir kurtnir. Ég man allavega ekki eftir fleiri orðum með viðskeytinu -eis. Ekki einu sinni píeis.

Nýr málsháttur

Rím og stuðlar láta málshætti hljóma vel en þeir auka ekki endilega sannleiksgildi þeirra. Geta jafnvel verið villandi.

Þetta veit hún Heiða mín, sem notar gjarnan málsháttinn margur er knár, án frekari skýringar, enda eru knáindi manna líkamsvexti þeirra óviðkomandi.

Oft er flagð undir fögru skinni er álíka sönn speki. Ég hef orðið vitfirringslega ástfangin af tveimur forljótum mönnum, sem hvor um sig gaf mér nýjan skilning á orðinu drullusokkur. Dreg af því þá ályktun að ankannalegt útlit sé engin trygging fyrir fjarveru fláræðis og flagðabragða. Gallinn er sá að oft er flagð er ekki góð setning. Margur er flagð, væri kannski betra. Eða ekki. Auk þess finnst mér málsháttur ekki réttur nema hann feli í sér stuðla eða eða rím.

Ég tek hér með upp nýjan málshátt og sannari til mótvægis við gamla bullið:
Margur er þrjótur, þótt hann sé ljótur.

Gullkorn listamannsins

Ef maður syngur á íslensku tekur fólk meira eftir textanum. Og það er mjög erfitt fyrir mig að segja eitthvað af viti svo mér finnst auðveldara að bulla bara eitthvað á ensku.

Eitthvað í þessa veruna sagði einn af Nilfisk strákunum í sjónvarpinu rétt í þessu.

Það þarf nú venjulega töluvert til að gera mig kjaftstopp en hafi þetta átt að vera kaldhæðni þá hitti hún ekki í mark því það var einmitt ekkert vit í textanum.

Ég er annars þó nokkuð hrifin af stöðnun. Finnst öll þessi frumlega tónlist álíka skemmtileg og ryksuga.

Lífsstíllinn

píslargangaDálítið undarlegt að kalla gönguferð á fögrum stað í góðu veðri, með hressingu í lokin, píslargöngu. Maður fær svona á tilfinninguna að menn hafi ekki alveg áttað sig á merkingu orðsins.

Reyndar lýkur víst göngunni með því að þátttakendur þurfa að hlusta á lestur úr skáldskaparhroða þeim er kallast Passíusálmar. E.t.v. á það að réttlæta nafngiftina á þessum labbitúr.

Já og eitt enn varðandi þessa frétt af píslargöngunni; margir hafa gert hana að „lífsstíl“, segir í blaðinu.

Mér hefur nú þótt orðið lífsstíll full mikið notað að undanförnu en þó tekur nú steininn úr þegar árleg gönguferð er flokkuð sem lífsstíll. Sennilega „lífsstíll aðila af þessari stærðargráðu“.