Ég vil helst ekki trúa því en ætli maður verði ekki að horfast í augu við staðreyndir; margir, margir, mjög margir Íslendingar segja ég vill, í stað ég vil.
Ég vil vernda tunguna gegn svona klúðri. Þú vilt það líka. Lýðurinn vill það, þjóðin vill það og menntamálaráðuneytið vill það. Við viljum það öll og til þess að svo megi verða þurfum við að standa saman um það.
Greinasafn fyrir merki: íslenska
Ég fíla málfarstísku – í hófi
Íslenskan einkennist af notkun framsöguháttar en nú er í tísku að nota nafnhátt hvar sem því verður viðkomið. Útkoman verður orðalag á borð við “ég er ekki alveg að skilja þetta”, “þeir eru að spila óvenju vel”, “hann er ekki að fíla þetta” o.s.frv. Mér finnst ekkert athugavert við að nota slíkar setningar að ákveðnu marki. Í hófi skapa þær ný blæbrigði í málinu. “Ég er ekki að skilja þetta” er ekki kannski eins endanlegt og “ég skil þetta ekki.” Fyrri setningin býður upp á möguleika á þeirri túlkun að skilningsleysið kunni að vera tímabundið ástand.
Ég vona þó innilega að þessi tíska yfirtaki ekki hefðbundna notkun framsöguháttar. Þótt tískusveiflur kunni að eiga rétt á sér í hversdaglegu talmáli er samt viðeigandi að fjölmiðlar, fyrirtæki og stofnanir sýni dálitla íhaldssemi í málnotkun. Mér finnst t.d. óviðeigandi að nota orðalagið “er bankinn þinn ekki að veita þér góða þjónustu?” í auglýsingu. “Veitir bankinn þinn þér ekki góða þjónustu?” er ágætis íslenska og skilaboðin hin sömu.
Ég hef ekki efni á því
Í fyrsta sinn sem ég heyrði fullorðinn mann segja ég á ekki efni á þessu fannst mér það stórfurðulegt. Nú hef ég heyrt þetta orðalag notað svo oft að það stingur mig ekki verulega lengur. Ég er hrædd um að þetta sé orðið mörgum eðlilegt.
Stundum á ég ekki fyrir því sem mig langar að kaupa. Það hendir líka að ég á svosem peninga en þar sem hluturinn er ekki á forgangslista og fjárráð mín takmörkuð met ég það svo að ég hafi ekki efni á honum. Ég tek æ oftar eftir því að fólk ruglar þessu tvennu saman og segist ekki eiga efni á því sem það langar að láta eftir sér. Látum þennan leiðinlega samslátt ekki festast í málinu.
Má ég leggja fyrir þig nokkrar spurningar
Mér finnst neyðarlegt þegar fólk hringir í mig frá fyrirtækjum sem sérhæfa sig í skoðanakönnunum og vill fá að „leggja undir mig nokkrar spurningar“. Ég er reiðubúin að svara spurningum sem eru lagðar fyrir mig og segja skoðun mína á máli sem er borið undir mig.
Mér þykir við hæfi að stofnanir sem þessar sjái sóma sinn í því að ráða til sín starfsfólk sem er sæmilega talandi eða að öðrum kosti að leiðrétta svona vitleysur. Það getur ekki verið mjög mikil vinna að uppræta þetta leiðindaorðalag hjá fólki sem hefur atvinnu af því að leggja spurningar fyrir þjóðina í gegnum síma.
Það skiptir víst máli
Ég hef tvisvar sinnum á síðustu 7 árum fengið senda spurningarkönnun í pósti. Í báðum þessum kannana var gefinn upp svarmöguleikinn “það breytir ekki máli”.
Voðalega finnst mér þetta ljótt málfar og stórfurðulegt að slíkar ambögur komi frá virtum fyrirtækjum. Ég býst reyndar ekki við að álit mitt breyti neinu um málfar landans en það skiptir máli hvernig texti sem fer inn á þúsundir heimila er orðaður.
Um hvað snýst málið?
Nokkur brögð eru að því að fólk rugli saman föstum orðasamböndum með svipaða merkingu. Eitt hroðalegt dæmi sem virðist vera að ryðja sér til rúms í íslensku málfari er spurningin út á hvað snýst þetta? Merkingarlega er þetta ótækt. Jörðin snýst um sólina og um sjálfa sig en ég veit engin dæmi þess að hlutir sem snúast, snúist út á eitthvað annað. Forðumst samslátt af þessu tagi. Segjum frekar um hvað snýst málið? Eða út á hvað gengur það?
Fleiri dæmi um algengar samsláttarvillur af þessu tagi:
- Að leita eftir — að sækjast eftir er slegið saman við leita að.
- Má ég leggja undir þig nokkrar spurningar? — Má ég bera undir þig eina hugmynd/eitt mál? er slegið saman við má ég leggja fyrir þig nokkrar spurningar?
- Afgreiða símtal — að eiga símtal/svara símhringingu er slegið saman við það að afgreiða viðskiptavin,
- Eiga ekki efni á einhverju — að eiga ekki pening er slegið saman við að hafa ekki efni áþví.
- Hafa sig að verki — að hafa sig allan við er slegið saman við að koma sér að verki.
Oft er málsháttum og orðatiltækjum líka slegið saman og það getur orðið frekar klúðurslegt. Ég man eftir viðtali við mann sem hafði leitað til sveitarfélagsins vegna tiltekins máls en sagðist hafa talað fyrir tómum eyrum.
Hvað er að ske?
Sögnin að ske er dönsk að uppruna en hefur fest rætur í íslensku málfari. Þessi sögn á sama rétt á sér og önnur tökuorð en mér finnst slæmt hve oft hún er notuð í annarri merkingu en íslenska sögnin að gerast.
Hvað er um að ske er að mínu viti röng málnotkun vegna þess að sögnin að ske, merkir alls ekki það sama og sögnin að vera. Einhverju sinni spurði ég hóp unglinga í 9. bekk hvort væri hægt að nota annað orðalag en hvað er um að ske? Einn úr hópnum taldi heppilegra að segja hvað er í gangi? Ég er því sammála að það er skárra, en fallegra finnst mér að segja: Hvað er að ske? Hvað er að gerast? Hvað er um að vera?
Annars er engu líkara en að merking sagnarinnar að gerast sé óljós í hugum sumra Íslendinga. Eitt sinn fól ég fyrrnefndum bekk að leiðrétta setninguna hvað skeði fyrir Helgu? Ég hafði heyrt marga úr hópnum nota sögnina á þennan hátt en hélt að það væri merki um tískusveiflu í málfari eða kannski kæruleysi. Það runnu þó á mig tvær grímur þegar ég sá að meirihluti barnanna var sammála um að rétt útgáfa af þessari setningu hlyti að vera hvað gerðist fyrir Helgu?
Leiðréttum þessi ósköp hjá börnum og unglingum. Kennum þeim að nota sögnina að gerast á réttan hátt. Hvetjum þau til að segja hvað kom fyrir Helgu? eða bara hvað gerðist?