Drullusokkar

Pistill Jódu um drullusokka á 340 kr. rifjaði upp fyrir mér smáatvik sem ég var næstum búin að gleyma.

Fyrir rúmu ári var baðið í Starrahólunum stíflað. Ég fann ekki drullusokkinn og Vörður laganna (sem hafði ekki hugkvæmi til að gera neitt í málinu nema gráta) var rambandi á barmi örvæntingar yfir því að þurfa að lykta eins og skítahaugur um alla framtíð. Eftir dauðaleit að drullusokknum fór ég í Nóatún og keypti nýjan (hann var reyndar aðeins dýrari en þessi sem Jóda talar um í sínum pistli, mig minnir að hann hafi kostað 420 kr.) Ég var að flýta mér (enda hafði blessaður lögregluþjónninn ekki komist í sturtu síðan í hádeginu) og spurði konu sem var að raða tannkremstúpum í hillu hvort þau væru ekki með drullusokka. Hún svaraði að bragði; „jújú það er nóg af þeim hér, verslunarstjórinn er að vísu ekki við en þú getur prófað að reyna við Pétur“ og kinkaði í átt að starfsmanni sem var að fylla á frystinn.

Ég fór út með rauðan gúmídrullusokk. Leist ekkert á Pétur en átti auk þess íðilfagran drullusokk með lifur og nýru heima hjá mér. Við fluttum úr Starrahólunum viku síðar og nú á ég lítið notaðan rauðan Nóatúnsdrullusokk en engan af holdi og blóði. Kannski ætti ég að skreppa í Nóatún og athuga hvort Pétur sé genginn út.

Sigrún hefur tekið umkvartanir

Sigrún hefur tekið umkvartanir mínar um skort á áhorfanlegum karlmönnum í vélsmiðjunni alvarlega. Allavega verðum vér kerlingar á Nesjavöllum um helgina, væntanlega í fríða karla flokki.

Ég ætti að vera sofnuð en þar sem heimasætan valdi einmitt þetta kvöld til að leggja drög að nýjum og dramatískum kafla í sápuóperu heimilisins, reikna ég með að verða í tussulegra lagi í fyrramálið. Það var svosem auðvitað. Ojæja, Sigrún sækir mig klukkan 7 svo ég hef klukkutíma til að smyrja á mig hrukkukremi og æfa mig í að vera kókett áður en ég hitti alla þessa dásemdar karlmenn.

Óháð tekjum

Péningakallar fullyrða að hægt sé að spara óháð tekjum. Ég hef alltaf sottla trú á því að þeir sem eru ríkir viti eitthvað um fjármál svo ég held að það hljóti að vera eitthvað til í þessu. Samt er ég ekki alveg sannfærð.

Sá sem hefur milljón á mánuði í ráðstöfunartekjur getur augljóslega sparað. En hvað um þann sem hefur engar tekur? Þann sem er á framfæri annarra og hefur ekkert ráðstöfunarfé? Hann sparar auðvitað ekki nema einhver gefi honum peninga, það hljóta allir að viðurkenna. Halda áfram að lesa

Plan A

Ég held að ég sé fullkomlega fær um að drepa. Þ.e.a.s. ef ég sæi virkilega ástæðu til þess. Það hefur bara ekki gerst ennþá að neinn hafi pirrað mig nógu mikið til þess að ég vildi taka það að mér. Ekki fyrr en núna. Ég er búin að finna erkióvin minn númer 1, 2 og 15.

Ég ætla að fremja morð. Ég er ekki ennþá búin að finna aðferðina en það kemur allt með góðum ásetningi.

Ég ætla að drepa skattinn.

200%

Ég hélt að ég væri komin í feitt í vélsmiðjunni en um leið og ég birtist á staðnum sendi Eigandinn blóma fyrirtækisins á Nesjavelli svo ég hef unnið með eintómum kellingum og svo örfáum harðgiftum öðlingsmönnum. Allir töffararnir í sveitinni og vita ekki einu sinni að ég er til. Þetta er skandall. Gerir annars ekkert til, ég er hætt að leita, þetta er bara eins og með kaffið, maður hellir í bollann af gömlum vana þótt mann langi hreint ekkert í kaffi.

Í gær leit ég aðeins á einkamal.is til að gá hvort þar væru einhverjir nýir og spennandi karlmenn. Svo er ekki. Allavega rakst ég ekki á þá. Eitt finnst mér voðalega skrýtið á einkamálavefnum og það er allt þetta fólk sem lofar 200% trúnaði. Hvaða bull er það? Hvernig getur trúnaður verið meira en fullkominn? Kannski er átt við hið gagnstæða; sá sem lofar 200% trúnaði tekur t.d. þátt í orgíu með nokkrum þjóðkunnum mönnum og konum og fer svo út um allt og lætur fólk vita, bara til öryggis, að hann hafi aldrei átt neitt samneyti við aðra orgíuþátttakendur???

Hótun

-Ég færi ykkur miklar gleðifréttir: Um helgina verður tekið til í herbergjunum ykkar og ef þið gerið það ekki þá geri ég það sjálf, sagði ég í hótunartón.

Þegar ég kom heim í gærkvöld voru Byltingamaðurinn og Sykurrófan farin í leikhús. Á herbergishurðinni var miði með þessari áletrun:

Gleðifréttir staðfestar.
Tiltekt hófst áðan og verður haldið áfram á eftir. Vinsamlegast aðhafist ekkert í millitíðinni.
-H

Þá er því markmiði náð. Nú þarf ég bara að kúga Heimasætuna og Pysjuna til starfa.

Kaffistofuspjall

-Alltaf verið að skíta atvinnurekendur út og væna þá um arðrán. En hvað um starfsmenn sem slóra í vinnunni og tilkynna veikindi á mánudögum? Maður er í rauninni búinn að kaupa vinnuframlag og hvað heitir það ef starfsmaður svíkur mann um það sem maður greiðir umsamið verð fyrir? Hvað heitir það? þusar Eigandinn og þótt ég sé honum hjartanlega sammála skil ég ekki alveg þessa umræðu í þessum hópi fólks. Halda áfram að lesa