Stellið

10526864_1_l

Mávastellið er eitthvert dýrasta matar- og kaffistell í heimi og sennilega það alljótasta.
Ef ég man rétt þá átti amma eitthvað af þessu ógeðfellda stelli. Allavega man ég það svo greinilega að þegar ég fékk að hjálpa til við að stilla upp bollum og diskum fyrir fimmtugsafmælið hennar, var mávastellið það eina sem ég mátti ekki anda á. Ég var mjög móðguð, enda ekki vön því að brjóta og bramla en var eiginlega hálffegin þegar mér var sagt að einn bolli væri jafn dýr og allir bollar sem væru notaðir dags daglega samanlagt. Það er hugsanlegt að hún hafi fengið það lánað en ég efast um að hún hefði nokkurntíma viljað fá eitthvað svona dýrt að láni. Aldrei man ég þó eftir að það hafi verið notað við neitt annað tækifæri. Og ekki hissa á því enda stellið forljótt.  Halda áfram að lesa

Gömul pizza

Pizzan er ekki ónýt þótt hún hafi verið þrjá daga í kæliskáp. (Ég hef í alvöru orðið vitni að því að fólk ætlaði að henda pizzu af því að hún var orðin lin.) Úðaðu hana með vatni (báðar hliðar) og settu hana á bökunarpappír í heitan ofn í 3-4 mínútur. Settu þá nokkra dropa af ólívuolíu yfir hana og bakaðu áfram þar til hún er heit í gegn.

Ef þú átt afgang af þunnri pizzu sem kemst fyrir á pönnu er líka hægt að hita hana þannig. Smyrja pönnuna með örlítilli olíu hita hana vel. Setja pizzuna á hana og taka pönnuna af hitanum. Ef pönnubotninn er ekki þykkur þarf að setja pönnuna á hita aftur en þá bara vægan.

Útrunnið kjöt

Matur er ekki endilega ónýtur þótt hann sé kominn fram yfir síðasta neysludag. Framleiðandinn setur síðasta neysludag á umbúðirnar til að tryggja sig gegn kvörtunum en yfirleitt endist matur mun lengur, einkum ef hann er í lofttæmdum umbúðum. Matur lýgur ekki að manni. Ef hann lyktar eðlilega og bragðast vel þá er hann í lagi.

Ef þú átt útrunnið kryddað kjöt, skaltu skola kryddið af því með köldu vatni áður en þú dæmir það ónýtt. Kryddið skemmist miklu fyrr en kjötið og það er oft hægt að bjarga kjöti á þennan hátt.