Stellið

10526864_1_l

Mávastellið er eitthvert dýrasta matar- og kaffistell í heimi og sennilega það alljótasta.
Ef ég man rétt þá átti amma eitthvað af þessu ógeðfellda stelli. Allavega man ég það svo greinilega að þegar ég fékk að hjálpa til við að stilla upp bollum og diskum fyrir fimmtugsafmælið hennar, var mávastellið það eina sem ég mátti ekki anda á. Ég var mjög móðguð, enda ekki vön því að brjóta og bramla en var eiginlega hálffegin þegar mér var sagt að einn bolli væri jafn dýr og allir bollar sem væru notaðir dags daglega samanlagt. Það er hugsanlegt að hún hafi fengið það lánað en ég efast um að hún hefði nokkurntíma viljað fá eitthvað svona dýrt að láni. Aldrei man ég þó eftir að það hafi verið notað við neitt annað tækifæri. Og ekki hissa á því enda stellið forljótt. 

Þetta rifjaðist upp fyrir mér um daginn, þegar kona nokkur sagðist hafa séð rjómakönnu og sykurkar úr þessu ljóta stelli, til sölu á litlar 4.800 íslenskar krónur.

Er fólk ekki með réttu ráði? Hvaða rugluhalar kaupa rjómakönnu og sykurkar fyrir svona fjárhæð og hvað kostar þá restin af þessu postulínsdrasli?

Nei auðvitað, þetta er náttúrulega ekki hugsað sem rjómakanna og sykurkar, heldur safngripir. Fjárfesting. Skynsamleg fjárfesting að því leyti að hún fellur sennilega ekki í verði en HALLÓ! hver fjárfestir í postulíni í landi þar sem jarðskjálftar verða á hverju einasta ári?

Hvað varð annars af mávastellinu hennar ömmu? Ef hún átti það þá nokkuð. Þar sem það hvorki fallegt né minnir á nokkurn hátt á ömmu er nokkuð víst að ekkert okkar systkinanna hefði sóst eftir því. Nú velti ég því samt fyrir mér hvort það hefði breytt einhverju ef við hefðum gert okkur grein fyrir því hversu verðmætt það er. Ekki ég allavega því ég hefði ekki getað fengið af mér að selja erfðagripi og það hefði bara valdið mér andvökum að þurfa að drösla því óbrotnu á milli allra þeirra staða sem ég hef búið á eftir að hún dó. Fyrir nú utan það að ég þoli ekki að vera með skápana fulla af dóti sem ég nota ekki.

En þau hin? Hefðu systkini mín einhverntíma fagnað því að geta lagt visakortinu í desember út á það að losa sig við nokkra ljóta bolla? Hefði Hulla, sem á 5 börn og var oftar en ekki með fullt hús af annarra manna grislingum í þokkabót, haldið jafnaðargeði sínu ef allt galleríið hefði brotnað á einu bretti í einhverjum eltingarleiknum eða koddaslagnum?

Ekki svo að skilja að ég sé neitt andvaka út af þessu, enda væri ég þá líklega búin að hringja í vini og ættingja til að komast að afdrifum ‘fjárfestingarinnar’ en það var annað þessu tengt og öllu skemmtilegra sem rifjaðist upp fyrir mér.

Stjúpfaðir minn var semsagt mjög hrifinn af mávastellinu. Hann langaði að vísu ekkert að eignast stellið en hann dreymdi um að eignast mávaklósett. Ég er að hugsa um að ættleiða hugmyndina. Ég er að vísu í leiguhúsnæði og líkar það vel en Maggi vill endilega byggja hús handa mér og þegar að því kemur ætla ég að mála mávastellsmynstrið á klósettið. Ekki á baðkarið eða utan á klósettskálina, því ekki vil ég nú að ljótleikinn blasi við. Nei, ég ætla að mála klósettskálina að innan. Og ef myndin flagnar undan pissi, kúk og sterkum hreinsiefnum, þá er það allt í lagi. Það hefur hvort sem er enginn, nokkru sinni fengið sér mávaklósett til að horfa á það.

bing-grondahl-porcelain-ruffle-rim-bowl-blue-white-seagull-decoration-1060b2c274b945ad21840c229f898db1
Hér er öskubakki og einkar viðeigandi að hið forljóta mávamynstur prýði slíkan grip.
Þar sem reykingar tíðkast ekki á mínu heimili, ætla ég að fá mér mávaklósett í staðinn.