Páskafrí útrunnið

Notaði páskana til að þrífa hólf og lakka gólf. Gerði reyndar líka fleira, fór t.d. á leiksýninguna „Epli og eikur“ hjá Hugleik, alltaf gaman að þeim. Fór í mat á Selfoss til pabba og Rögnu á föstudaginn langa. Prísa mig sæla fyrir að vera ekki í mat hjá Rögnu á hverjum degi því það væri vís leið til að koma mér upp krónískri átfíkn. Ég er ennþá södd en reyndar gætu kjúklingabringurnar sem Sigrún eldaði ofan í mig í gær og keisaralega páskaeggið sem Stefán færði mér frá útlandinu haft einhver áhrif. Fyrir nú utan allar kaloríurnar sem Elías er búinn að troða í mig en hann hefur reyndar líka lagt sitt af mörkum til að láta mig brenna þeim aftur og það fannst mér nú skemmtilegt.

Þótt sé góð tilbreyting að hafa búðina lokaða og dunda bara við að lakka og þrífa er samt varla hægt að kalla það páskafrí. Ég er ákveðin í því að taka mér frí fyrstu helgina í júní. Svona alvöru frí, fara burt heila helgi. Ég veit reyndar ekkert hvert ég ætla. Nenni varla austur fyrir svona stuttan tíma en þar sem ég verð þá flutt í kjallarann á Vesturgötunni, kemur ekki til greina að vera heima í því fríi.

 

Eitt hugs um staðfestingar og fordóma

Fyrir tæpu ári trúði ég því að dömuskór í mínu númeri væru einfaldlega ófáanlegir nema kannski í Kolaportinu, notaðir með snúnum hæl úr einhverju dánarbúinu. Ég leitaði og leitaði, spurði og spurði, réðst á litlar gular konur á götu og yfirheyrði þær um skókaup sín (þær fá sína skó senda frá Thailandi) hringdi út um allar trissur og bað alla sem ég þekkti að hafa augun opin. Halda áfram að lesa

Endurskoðun

Ég komst að niðurstöðu og það var góð niðurstaða og skynsamleg og rétt líka. Rómantísk ást er ónauðsynleg og oftar en ekki til óþurftar.

Ég kastaði ástargaldri og pantaði þægilegan mann, ekki alkóhólista, sem yrði góður við mig og kynni á borvél. Hann gaf sig fram og ég íhugaði alvarlega að slá til. Þar sem ég sýndi honum engan kynferðislegan áhuga (það virðist vera pottþétt leið til að gera karlmenn ástfangna)varð hann bálskotinn í mér og því meiri almennilegheit sem hann sýndi mér, því hrifnari varð ég af Elíasi, sem kæmi ekki undir nokkrum kringumstæðum til greina sem lífsförunautur. Halda áfram að lesa