Troddu hausnum í þar til gert gat,
helst það þrengsta sem þú finnur
dragðu andann djúpt
og syngdu svo
um allt sem brennur þér í iðrum
og vittu til
að lokum mun rödd þín hljóma.Há og hvell
mun hún
hljóma.
Kasta hjarta þínu
veggja á milli
í iðrum ruslageyslunnar.
Greinasafn fyrir merki: Bláþræðir – dagbók vændiskonu
Ljóð handa skúringakonum
Heit var ég
og freyðandi
en hjaðnaði
þegar hann sökk
í ilmmjúkan kúfinn
og drakk í sig eðli mitt.
Eftir á köld.
Flöt.
Gólfið hreint
en sjálf er ég daungrátt skólp
og klúturinn undinn.
Frídagur
Hringhentu á lofti
hjarta mitt.
Bittu í hár mitt
sléttubönd.
Strjúktu hrygglínu
stuðlum.
Því hvað er ævintýr án klifunar
frelsi án fjöturs?
Fall
Kannski hörpustrengjabrúða
eða upptrekkt spiladós;
ballerína sem endalaust snýst í hringi
um sama stef.
Þú boraðir göt á rifbein
og rótfylltir hjarta mitt.
Sjúgðu mitt brjóst, minn kæri
á fíflamjólk fæði ég þig.
Val
Stolt mitt
bryddað sæði bræðra þinna
og ég hekla í blúnduna;
eina nótt enn án þín,
eina eilífð án þín.
Vandað handbragð, vel pressað,
yfirlýsing;
“ég valdi það sjálf”.
Þó glittir í blámann
gegnum milliverk hreinna rúmfata.
Listamenn loka ekki augunum
1
Ilmur framandi jurta
af hörundi þeirra.
Safinn sprettur fram undan fingurgómum.
Vildi sökkva tönnunum
í freskjumjúkt holdið og sjúga.
En auðvitað snerti ég aðeins yfirborðið
því listamenn loka ekki augunum.
Þó gerist það stöku sinnum
að eftir á finn ég húðfrumur
undir nöglunum
2
Stundum sveittir búkar,
holdið skvapkennt,
rassalykt.
Sál mín varin, geymd,
sefur rótt í efstu kommóðuskúffunni á meðan
því listamenn loka ekki augunum.
Eftir á tek ég hana í faðm mér,
þrýsti fast
og ber hana í fangi mér út í Landsbanka
þar sem stimpillinn smellir fyrirgefningarkossi
á vangoldna reikninga.
Yfirbót í formi dráttarvaxta
borin fram með feginleik
og sljó augu gjaldkerans gera sér enga grein
fyrir þýðingu þess
enda sál hans sjálfsagt blundandi
í einhverri skúffunni
og listin víðsfjarri.
Blár miði fyrir gulan.
Og sál mín ber mig í faðmi sér
út í sólríkan rigningardag.
3
Stundum sé ég kunnuglegu andliti bregða fyrir
í Bónus eða Rúmfatalagernum.
Þú hér? segir andlitið
“Hví sé ég í augum þér
kirsuberjavið og nautalundir
þegar hendur þínar grípa spónaplötur og pasta?”
“Af því að listamenn loka ekki augunum”
segi ég
og bæti í körfuna gengisfelldum draumi.
4
Dag nokkurn stendur Veruleikinn á tröppunum;
“ég hef saknað þín”
segir hann.
Í flýti treð ég sálinni niður í skúffuna
og skelli,
klemmi hana í ógáti, mer.
Úr fjarlægð berast mér kvein hennar að eyrum
en skeyti því engu.
Býð gestinum kaffi
og hafna honum síðan kurteislega.
Því listamenn loka ekki augunum
og meiddri sál þarf að sinna.
Vænting
Á vorköldum morgni
ruddi vænting þín glufu í malbikið
og breiddi krónu
mót nýþvegnum hjólkoppi.