Hlutskipti

Þegar rokkarnir voru þagnaðir
spann ég söguþráð á hljóðsnældu
og fléttaði þætti í símalínu.

Þegar rauðir þræðir röknuðu úr vef mínum
sló ég örlög mín á lyklaborð
og tengdi vef veraldarinnar.

Þegar nornir tjölduðu sali mína
nýju klæðum keisarans
birti ég nekt mína á breiðtjaldi.

Af sjálfsdáð hef ég dregið þær línur
sem varða leiðina,
á stundum skrifað undarlegustu hendingar

og hlutskipti mitt veltur á því einu
hvernig hlutnum er skipt.

Hugarró

Ekki sakna ég þagnarinnar
sem skriðin úr hugskoti nágrannans
hvískraði ógnarþulur
við óvarinn glugga bernsku minnar.
Næturlangt.
En spurði einskis.

Kvöldum saman
hef ég sofnað við nið tölvunnar
vaknað við gemsa nágrannans
handan veggjar.

Þögnin horfin úr lífi mínu;
nú set ég reglurnar sjálf
og hef spunnið blekkingarvef fyrir gluggann.

Dapurlegt
segir þú
og vel má svo vera.Margt er líkt með skyldum
og víst er þögnin systir lyginnar.
En vita skaltu
að órofnum svefni
hef ég aldrei kynnst fyrr.

Ljóð handa konum á uppleið

Sjaldan hafa þeir bræður Gáski og Háski
vikið frá mér spannarlengd
á hlaupum mínum niður stigann.
Skottast ýmist á eftir
og skella mér á rass
flissandi,
eða ryðjast fram fyrir
og búast til að bregða fyrir mig fæti.

Á uppleiðinni fer minna fyrir þeim,
skjögra mér að baki,
þunglamalega
og nöldra iljum
við gólfdúkinn.

Hvíld er það
mikil ósköp.
Og þó bíð ég þess alla leiðina
að annar þeirra
glefsi geðvonskulega í hæl mér.

Ævintýr hins ósagða

Löngum hafa nöfn mín
hrakist fyrir vindum
og hvítur stormurinn felur í sér
fyrirheit um frekari sviptingar.

Án sektar
án sakleysis
hef ég gefið honum eitt þeirra á vald,
hrifist með hvini hans
að endimörkum frumskógarins
þar sem höggormurinn hringar sig
utan um sólina
og barn hefur stigið sín fyrstu skref
út á brúna
sem skilur veröld hugsunar og tungu.