Bankaaðgerð á morgun

485701

Ég er nokkuð sátt við aðgerðina í morgun. Síðast vorum við um 25, í dag vorum við um 200. Ráðherrar laumuðust inn bakdyramegin. Kannski tekst okkur að stöðva þá alveg næst. Enginn handtekinn í þetta sinn. Löggan er að læra. Ósköp hlýtur þeim mörgum að líða illa yfir því að ´þurfa´ að bögga okkur frekar en bófana. Ég spái því að á þorranum muni nokkrir lögreglumenn segja af sér og ganga til liðs við okkur.

Bankaaðgerð fyrirhuguð á morgun. Mæting á Austurvelli kl. 9:00.

Hvernig eigum við að borga lánin?

Nú á að bjarga hagkerfinu með því að taka lán en því er ósvarað hvernig við eigum að greiða aftur lán upp á hundruð milljarða. Við vitum að þeir sem mest skulda munu ekki borga, því fyrirtækin þeirra voru bara loftbólur, leikur að tölum, en eru í raun verðlaus.

Hvar á að skera niður? Getum við búist við endalausum ‘hagræðingum’ í heilbrigðisþjónustu, menntakerfinu og félagslegri þjónustu? Hvaða atvinnubótavinnu verður okkur boðið upp á þegar verðlag er orðið svo hátt að fyrirtæki fara unnvörpum á hausinn? Hvernig á að ná hærri vöxtum út úr fólki sem er búið að missa vinnuna og er þegar með hærri greiðslubyrði en það ræður við? Hvaða ríki er líklegast til að hernema okkur (allavega viðskiptalega) þegar kemur í ljós að við getum ekki borgað?

Af hverju komast ráðamenn upp með að hegða sér eins og hinn íslenski meðaljón gerir þegar hann verður blankur, að taka bara lán sem hann getur ekki endurgreitt og ímynda sér að það ‘reddist’? Erum við virkilega svo gegnsýrð af þessum hugsunarhætti að við umberum ríkisstjórninni hann gagnrýnislaust?

Endurfjámögnun

Á Íslandi heitir það að skuldsetja sig upp fyrir haus, því virðulega nafni ‘endurfjármögnun’. Fyrir nokkrum árum dreif landinn í því ða endurfjármágna íbúðirnar sínar og losa sig í leiðinni við yfirdráttinn. Helst þurfti þá að nota tækifærið og taka nógu hátt lán til að eiga ‘afgang’ fyrir utanlandsferð eða nýju sófasetti. 3 mánuðum síðar var meirihluti þessa fólks komið með yfirdráttinn í botn aftur.

Nú á að ‘endurfjármagna’ bankakerfið. Eftir höfðinu dansa limirnir svo maður þarf víst ekkert að vera undrandi á fíflagangi landans. Ætli verði afgangur fyrir einhverju aukasukki handa bankastjórum?

mbl.is Djúp kreppa frá 2009 til 2010

I heard about the crysis in Iceland

Ég hef ekki verið dugleg að fylgjast með fréttum að heiman undanfarið. Ástæðurnar eru stopulll aðgangur að nettengdri tölvu, langir og erfiðir vinnudagar og takmarkaður áhugi á fjármálafréttum.

Ég er þó farin að velta því fyrir mér hvort ég sé kannski full skeytingarlaus. Fólk er stöðugt að votta mér samúð sína. Strákur frá Kaliforniu spurði mig hvort Norðmenn myndu ekki bara yfirtaka landid ‘aftur’. Margir virðast telja að hungursneyð blasi við Íslendingum. Netmogginn talar um landflótta til Færeyja af öllum stöðum.

Er þetta ekki bara sami hófsemdarkvíðinn og venjulega grípur Íslendinga þegar við sjáum fram á að einhverjir ímyndunarríkisbubbar neyðist til að horfast í augu við að eign er ekki eign ef maður skuldar 150% í henni og þarf því að losa sig við einn jeppa eða svo?

Hvað segja menn? Er þetta í alvöru ‘ástand’ eða eru fjölmiðlar í dramakasti? Væri kannski bara skynsamlegast að biðja Norðmenn að passa bankana okkar?

Fyrst á réttunni, svo á röngunni

Á meðan Eva hamaðist við að berjast fyrir vonlausan málstað, fór útrásin (sem ku altso ekki vera vonlaus málstaður) á hausinn.

Ég hef liklega valið mjög heppilegan tíma til að loka búðinni. Spurning hvort ég ætti að afpanta vörurnar sem ég er búin að panta fyrir jólin? Hvað sýnist mönnum? Er útlit fyrir sult seyru í desember eða standa vonir til þess að landinn missi sig í neyslubrjálæðinu svo sem hefðir kveða á um?

Vonandi dugar þetta ní til að fella ríkisstjórnina. Tjú, tjú, trallalla.

Úa

Skyndilega er allt orðið fullt af auglýsingum um iðnaðarmenn sem geta bætt við sig verkefnum. Krónan ku vera ónýt. Gullverð í sögulegu hámarki. Bankarnir kannski ekki alveg að fara á hausinn en allt í einu mun verðminni fyrirtæki en áður. Úrvalsvísitalan lækkar. Halda áfram að lesa

Stæðilegir menn óskast

Jæja, þá er ég búin að setja smáauglýsingu í Fréttablaðið. Ég ákvað að stofna ekki söfnunarreikning fyrr en réttu mennirnir eru fundnir. Ég hef reyndar ekki ennþá fengið nein viðbrögð við auglýsingunni (enda ekki langt liðið á daginn) en ég var að fá tölvupóst þar sem ég var spurð hversvegna ég vildi ekki frekar láta rassskella bankaráð.

Ég hefði reyndar ekkert á móti því og ef nægar fjárveitingar fengjust væri eflaust hægt að hafa 3-4 menn í fullri vinnu við lagafæra siðferðið hjá ýmsum höfðingjanum. Ég hef þó ekki bolmagn til að taka alla í gegn sem eiga það skilið og alveg finnst mér dæmigert að þeir sem ekki eru tilbúnir til að standa í neinum aðgerðum sjálfir, skuli telja sig rétta fólkið til þess að segja þeim fáu sem sýna viðleitni fyrir verkum.